Fara í efni

OKKAR SJÁLFSBLEKKING ENGU MINNI

Ég hef greitt Vinstri grænum atkvæði mitt bæði til þings og sveitarstjórna undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir að þeir taki þetta umboð mitt alvarlega og geri þess vegna meiri kröfu til þeirra en annarra. Annars gæti ég sem hægast kosið einhverja aðra.
Ég hef fylgst með stjórnmálaleiðtogum túlka afstöðu kjósenda í Reykjavík síðan í gær. Vinsælast er að túlka afstöðu kjósenda Besta flokksins enda eru þeir taldir hafa tjáð afar skýran vilja. Síðan kemur hver leiðtoginn af öðrum með sína útgáfu af sögu sem greinilega er ætlað að blása lífi í þeirra eigin pólitísku líftóru. Allir keppast við að lýsa hversu sterk þeirra eigin staða sé vegna úrslitanna. Dagur stendur upp úr. Hann sér að kjósendur vilja breytingar og þar sem Samfylkingin tapaði aðeins þremur prósentustigum (held ég að hann hafi sagt í ræðu) er ljóst að Samfylkingin í Reykjavík hefur hlotið umboð til að leiða þær breytingar. Ég skildi þetta reyndar ekki með hversu litlu Samfylkingin tapaðið því hún fer úr 27% fylgi í síðustu kosningum niður í 18% - þeir missa þriðjung!! Dagur lagði samt útfrá því að Samfylkingin gæti unað glöð við sitt og haldið áfram á sömu braut. Svo segir Hanna Birna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið sigur miðað við síðustu þingkosningar. Þau hafa nú samt misst fjórðung af fylgi sínu frá því síðast. En Hanna Birna minnir á að hún hafi í raun aldrei viljað vinna í meirihluta heldur í samráði við aðra og nú sé komið gullið tækifæri til þess. Til viðbótar verður að nefna að auð atkvæði og ógild virðast vera um 6% af heildinni sem verðskulda hreinlega autt sæti. Kjósendur ættu í raun að fá eitt sæti autt því ekki gátu þeir hugsað sér að styðja stjórnmálamennina frá síðasta kjörtímabili sem buðu sig fram aftur. En þá kemur að þætti Vinstri grænna.
Eins og ég sagði í upphafi geri ég meiri kröfu til þeirra en annarra og blöskrar því eiginlega að okkar sjálfsblekking er engu minni. Í Reykjavík lentum við í einhverskonar slysi sem við bárum enga ábyrgð á. Þetta er sama skýringin og bankakerfið greip til - þetta byrjaði allt með falli Lehman. Spurningin ætti að vera sú af hverju gátumvið ekki verið farvegur fyrir óánægjufylgið? Spurningin er af hverju við misstum um helming af okkar fylgi milli kosninga? Við erum að falla á sama prófinu og hinir og það þarf að horfast í augu við það. Svo kom önnur skýring sem gefin var í Silfri Egils sem hljóðaði upp á að okkar fulltrúi væri einlæg kvenfrelsiskona og kannski væri hún fórnarlamb kvenfyrirlitningar. Mér þykir hreinlega sorglegt að okkar niðurstaða sé sú sama og Samfylkingar. Við þurfum engu að breyta og bara halda áfram ótrauð. Þetta er leið til glötunar og við þurfum að sýna annað viðhorf ef við viljum vera leiðandi afl í samfélaginu.
Ella Kristín