Okkur ber skylda til að veita aðhald
Birtist í Morgunpósti VG 10.09.04
Á ráðstefnu sem Vinstrihreyfingin grænt framboð efndi til fyrir nokkru síðan flutti Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri í Reykjavík, mjög gott erindi sem er mér minnisstætt. Minnisstæðust er mér sú staðhæfing hennar að þeir sem byggju við erfiðustu lífskjörin og væru að auki án stuðnings frá fjölskyldu eða nánum vinum, auðnaðist síður en öðrum að nýta sér þá félagsþjónustu sem þó væri í boði og þeir ættu rétt á. Þetta var opinská og heiðarleg yfirlýsing og laus við það sem því miður einkennir alltof oft umræðu um félagsleg vandamál, að menn hlaupi strax í vörn og neiti að viðurkenna og ræða vandamálin. Það sem felst í þessari staðhæfingu Láru er að þrátt fyrir að félagsþjónustan í Reykjavík sé um margt góð og öflug þá sé það engu að síður svo, að hún búi ekki yfir nægilegu frumkvæði. Hún er með öðrum orðum, stöðugt að bregðast við, taka á móti einstaklingum og fjölskyldum sem banka upp á með vandamál sín, stór og smá. Þeir sem ekki hafa uppburð í sér að leita aðstoðar og hamra síðan á nauðsyn þess að fá úrlausn, verða útundan. En jafnvel þeir sem hafa bein í nefinu og sálarstyrk til að leita hjálpar brotna iðulega niður ef erfiðleikarnir eru langvarandi og aðstoðin ekki skjótvirk. Þá kemur til kasta fjölskyldu og náinna vina. Þar sem engan styrk er að finna í slíku öryggisneti fjölskyldu og vina standa einstaklingarnir því iðulega á berangri.
Sjálfur hef ég kynnst mjög mörgum slíkum dæmum í áranna rás. Margir einstaklingar leita til kjörinna fulltrúa, í pólitík og í verkalýðshreyfingu um aðstoð. Sjálfur hef ég alltaf þann háttinn á að vísa fólki inn í faglegan farveg félags- eða heilbrigðisþjónustu jafnframt því sem ég hef reynt að hvetja fólk sjálft til dáða og sjálfshjálpar.
Því miður verð ég alltof oft þess áskynja að framangreint frumkvæði skorti frá velferðarþjónustunni. Ég get tekið fjöldann allan af dæmum um slíkt. Mér er það minnisstætt fyrir fáeinum mánuðum að til mín komu hjón miður sín yfir háum reikningum vegna húsaleigu hjá Félagsíbúðum hf.; reikningum sem þau réðu engan veginn við. Ég ráðlagði þeim að leita til Félagsþjónustunnar um ráðgjöf. Sá ég til þess að beiðni var komið til viðkomandi ráðgjafa um að á fólkið yrði kallað og mál þess könnuð. Önnur afskipti ætlaði ég ekki að hafa af málinu. Vikurnar liðu. Engin viðbrögð. Að lokum var mér sagt að þessir einstaklingar hefðu oft komið í tímans rás til að leita aðstoðar og væru menn búnir að fá upp í háls af „tilætlunarsemi“ þeirra. Þetta hefur fólkið eflaust skynjað og veigrað fyrir sér fyrir vikið að hafa sjálft frumkvæði að því að leita ráðgjafar. Við svo búið hélt ég ásamt fólkinu á fund framkvæmdastjóra Félagsíbúða. Tók hann okkur ljúfmannlega og fór yfir málið. Við athugun kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í reikningskröfunni á hendur hjónunum og skeikaði þar mörg hundruð þúsund krónum. Eftir að starfsmenn Félagsíbúða höfðu farið í saumana á málinu, lögðu þeir fram tillögur um greiðslumátann. Málið var leyst.
Hvað skal gera þegar efnalítill maður kemur í öngum sínum og á yfir höfði sér útburð? Þar erum við komin að því máli sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarna daga. Viðkomandi einstaklingur er mér kunnur frá fyrri tíð, en árið 2000 dvaldist hann á sjúkrastofnun handan götunnar við skrifstofu mína hjá BSRB. Hann var þá að gangast undir aðgerð vegna krabbameins í eitlum. Þegar manninn bar að garði í sumar, sagði ég honum að nú dygði ekkert annað en að hann kæmi sínum málum í skaplegan farveg. Hann yrði að leggja fjármál sín á borðið, tekjur og útgjöld vegna veikinda og annars og síðan greiða í samræmi við getu sína, undan því mætti hann ekki víkjast. Hann bað mig um að aðstoða sig að fara í gegnum þessi mál. Enda þótt ég hefði margt annað við tímann að gera féllst ég á þetta. En nú var úr vöndu að ráða. Sumarfrí voru hjá Félagsþjónustunni, þar á meðal hjá þeim ráðgjafa sem átti að fjalla um mál þessa einstaklings. Mér voru færðar þær fréttir að viðkomandi félagsráðgjafi kæmi til starfa viku af ágúst. Þá yrði farið í saumana á þessum málum. En ekkert gerðist. Nema að dagsetning útburðar nálgaðist óðum. Ég óskaði þá eftir því að málið fengi efnislega umfjöllun þar sem m.a. yrði kannað líkamlegt og andlegt ásigkomulag mannsins og sendi ég að lokum bréf þar sem ég óskaði formlega eftir fresti á meðan ráðrúm gæfist til þessa. Gefinn var viku frestur, skrúfað fyrir rafmagnið á íbúð mannsins. Að vikunni liðinni var mér sagt að Félagsþjónustan væri ekki lengur til viðræðu um samninga og því ekki um annað að ræða en varpa manninum á dyr. Ég sagði að ég myndi ræða málið opinberlega ef af þessu yrði, sem ég og hef gert.
Ég rek þessa sögu til að svara þeim sem tala um „gamaldags fyrirgreiðslupólitík“ í þessu sambandi eða að verið sé að ýfa upp mál sem menn hafi ekki þekkingu á. Hvoru tveggja er rangt. Þetta hefur ekkert með neina fyrirgreiðslupólitík að gera heldur tilraun til að aðstoða fólk við að koma á eðlilegu samskiptaferli við velferðarþjónustuna – og fá hana til að sýna þolinmótt frumkvæði.
Ekki þykir mér þetta hlutverk eftirsóknarvert og nánast spaugilegt að tala um fyrirgreiðslupólitík í þessu sambandi. En tvennt finnst mér aðkallandi að ræða. Í fyrsta lagi hvað veldur því að Félagsþjónustuna virðist skorta nauðsynlegt frumkvæði í mörgum málum? Er álagið of mikið, fjármunir of litlir eða er í einhverjum tilvikum þörf á viðhorfsbreytingu? Í öðru lagi er vert að velta því fyrir sér hvort hægt sé að koma upp einhvers konar umboðsmannskerfi, sem fólk gæti leitað til. Gott ef það hefur ekki verið til umræðu.
Ég skil það mætavel, að það geti valdið pirringi þegar „utanaðkomandi“ aðilar eru að skipta sér af málum sem starfsmönnum Félagsþjónustunnar finnst vera í faglegum farvegi. Ef fjölskylda viðkomandi á í hlut, ættingjar eða vinir virðist þetta vera í lagi. Hitt þykir verra ef aðrir eiga í hlut, ég tala nú ekki um ef það eru „einhverjir pólitíkusar“ úti í bæ. Þessu er ég hins vegar ekki sammála. Velferðarþjónustan hefur á að skipa mörgu úrvalsfólki og margt er þar vel gert. Hún þarf hins vegar á miklu aðhaldi að halda. Ekki er nóg með að allir hafi rétt til að veita slíkt aðhald. Okkur ber skylda til þess.