Fara í efni

ÓLAFUR SVARAR ÞÓRÓLFI

Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, mislíkaði pistill sem ég skrifaði í helgarblað Morgunblaðsins fyrir skömmu  um mismunandi vægi atkvæða við rektorskjör og færi vægið eftir prófgráðum. Þórólfur vildi vita hvort það væri ekki örugglega rétt sem fram hafði komið hjá Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor í stjórnmálafræði og álitsgjafa í fjölmiðlum um nýafstaðið rektorskjör, að atkvæði þeirra starfsmanna háskólans sem væru án háskólagráðu hefði þegar upp er staðið haft meira vægi en atkvæði hinna sem hefðu háskólamenntun. Hinu gagnstæða hefði ég haldið fram.

Þórólfur beindi því spurningu um þetta efni til Vísindavefs Háskóla Íslands. Spurt var hvort staðhæfingar mínar væru réttar. Svo vel vildi til að Ólafur Þ. Harðarson var til svara hjá Vísindavefnum og upplýsti Þórólf Matthíasson um að ég færi villur vegar, staðhæfingar mínur væru rangar.

Ekki véfengi ég útreikninga þeirra félaga, Þórólfs og Ólafs og er það gott að hið rétta sé leitt fram í dagsljósið hvað vægi atkvæða áhrærir í nýafstöðnu rektorskjöri.

Það er hins vegar rangt, einsog skilja má á prófessorunum, að ég fari að öllu leyti villur vegar og hefði það borið vitni víðsýni þeirra ef þeir hefðu reynt að skilja forsendur gagnrýni minnar. Sannast sagna hélt ég að flestum mönnum hlyti að vera þær augljósar, nefnilega að starfsmenn Háskóla Íslands skuli yfirhöfuð dregnir í dilka eftir prófgráðum, þegar kemur að því að kjósa rektor.

Ég hef verið að reyna að afla mér upplýsinga um sögu þessa regluverks hjá Háskólanum en án árangurs enn sem komið er.

Ég leyfi mér að geta mér þess til að þegar reglurnar voru settar hafi það ekki verið gert í því augnamiði að finna fyrirkomulag þar sem háskólamenntaðir starfsmenn hefðu minna atkvæðisvægi en þeir sem ekki hafa háskólagráður upp á vasann. Tilgáta mín er sú að frá því reglurnar voru settar hafi samsetning starfsmanna hvað varðar menntun tekið breytingum og hafi þeim í seinni tíð fjölgað hlutfallslega sem hafi aflað sér háskólamenntunar. Þar með hafi aukist vægi atkvæða þeirra sem ekki hafa háskólamenntun.

Eg bíð eftir svari frá skrifstofu rektors um sögu málsins en í millitíðinni ætti ég ef til vill að beina spurningu minni til  Vísindavefsins. Hver veit nema að Þórólfur Matthíasson yrði fenginn til að spreyta sig á svarinu.

En fróðlegt væri að heyra vangaveltur þessarar ágætu manna og starfsmanna Háskóla Íslands almennt um ástæður þess að þeir láta óátalið að fólk skuli dregið í dilka eftir menntagráðum þegar lýðræðislegt rektorskjör er annars vegar.

Vísindavefurinn: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=70095    

Umrædd grein mín í helgarblaði Morgunblaðsins: https://www.ogmundur.is/is/greinar/timaskekkjan-i-haskola-islands