Fara í efni

ÖLMUSUFORSÆTISRÁÐHERRANN

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, og formaður Framsóknarflokksins, kom fram í fréttum í vikunni í tilefni þess að Fjölskylduhjálpin hafði fengið hann til að afhenda 50 fyrirtækjum sérstakt viðurkenningarskjal fyrir að aðstoða fátækt fólk með peninga- og matargjöfum. Þessi athöfn fór fram í Ráðherrabústaðnum í Reykjavík. Forsætisráðherra lýsti mikilli ánægju yfir þessari athöfn. Halldór Ásgrímsson sagði að í þjóðfélaginu færi skilningur nú vaxandi á því, á meðal ríka fólksins, að því beri að veita hinum snauðu ölmusu! Svona eins og í Ameríku þar sem góðu auðjöfrarnir  gefa fátæklingunum af örlæti sínu.

Fjölskylduhjálpin úthlutar matvælum, fatnaði, ungbarnavörum o.fl. til þurfandi fólks, einstæðra mæðra, forsjárlausra feðra, öryrkja, eldri borgara og efnalítilla fjölskyldna.

Þetta er vissulega gott framtak. En hvað með þá sem búa til fátæktina? Þar vísa ég í Halldór Ásgrímsson og félaga hans í ríkisstjórn.

Fram kemur í fjölmiðlum, sbr. eftirfarandi í fréttum RÚV þriðjudaginn 23. maí,  að "15-16 þúsund einstaklingar nutu aðstoðar Fjölskylduhjálparinnar í fyrra. Starfsemi samtakanna, Rauða krossins, Hjálparstofnunar kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar kemst jafnan í kastljós fjölmiðlanna fyrir stórhátíðar. Þá ber á matargjöfum og annars konar aðstoð og löngum biðröðum eftir hjálp. Upp á síðkastið hefur komið fram í fréttum að í góðærinu eða þenslunni gengur vel að fá liðsinni fyrirtækja og annarra. Það þarf mikinn mat til að metta 16 þúsund munna. 50 fyrirtæki fengu afhent þakkarbréf í dag..."

Eftirfarandi  orðaskipti fréttamanns RÚV og forsætisráðherra áttu sér stað í Speglinum þennan sama dag :
GG: Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, er á því að það verði um aldur og ævi þörf fyrir samtök eins og Fjölskylduhjálpina. Halldór, er ekki orðið tímabært að endurskoða lægstu bætur, ellilaun og lágu launin sem allt miðast við?
HÁ: Jú, við erum alltaf að endurskoða það og sem betur fer hafa lægstu laun verið að hækka hér á undanförnum árum en þau hafa ekki hækkað nóg og það er alveg sama með lægstu bætur að þær hafa hækkað en þær hafa ekki hækkað nóg og þessu verki verður aldrei lokið, það liggur alveg ljóst fyrir. En hér í dag er verið að afhenda þakkarbréf til margra fyrirtækja sem hafa komið að þessum málum og sem betur fer þá er vaxandi áhugi fyrir því í þjóðfélaginu, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, að koma að því, taka þátt í samhjálpinni. Og mér finnst það ánægjuleg þróun að þessu sé ekki eingöngu varpað yfir á hið opinbera og sveitarfélögin heldur tökum við þátt í þessu sem einstaklingar og mér finnst það mjög þakkarvert að slík samtök skuli vera öll, og þau eru mörg og það er mikilvægt að það sé vakin athygli á því og þeim þakkað.
GG: En kannski vildum við að það væru engin svona samtök heldur að allir hefðu sína framfærslu með einhverjum hætti af lífeyrissjóðum t.d.
HÁ: Já, ég get tekið undir það en ég óttast það að sá tími komi aldrei að það séu ekki einhverjir einstaklingar meðal okkar sem þurfa á hjálp að halda, þannig hefur það alltaf verið. Og það er líka mikilvægt að þessir einstaklingar finni fyrir áhuga annarra að taka þátt í því að hjálpa og vera með þegar að slíkt bankar á dyrnar og ég held að það skipti þjóðfélagið miklu máli að slíkur áhugi sé fyrir hendi."

Já forsætisráðherra, það skiptir máli að slíkur áhugi sé fyrir hendi. Þess vegna var grunnur lagður að samhjálpar- og velferðarsamfélaginu á öldinni sem leið. Það skapaðist vilji til að samfélagið allt – allir einstaklingarnir – tækju höndum saman og hlypu undir bagga með þeim sem ættu í erfiðleikum. Félagslega þenkjandi fólk vildi ganga lengra og taka á rótum vandans, jafna kjörin, losa fólk úr viðjum fátæktarinnar, útrýma henni! Ekki með því að gefa ölmusu, heldur með raunverulegum og varanlegum hætti. Það má vel vera rétt hjá forsætistráðherra að alltaf verði til einhverjir sem eigi undir högg að sækja. Það er þá samfélagsins –okkar allra – í sameiningu, sem samfélag, að standa þá vakt. Auðvitað er góðra gjalda vert þegar fyrirtæki sýna velvilja sinn gagnvart bágstöddum í verki. Ég gagnrýni hins vegar ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir stórfelldu og vaxandi kjaramisrétti í landinu. Ég gagnrýni ríkisstjórn sem er að búa til ölmusuþjóðfélag á Íslandi.