ÓLÖF GUÐNÝ OG PÝRAMÍDINN Á SPRENGISANDI
Aldrei mun ég gleyma því þegar fulltrúar Seðlabanka Íslands komu á fund þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til að svara spurningum um efnahagsáhrifin af Kárahnjúkavirkjun og þá sérstaklega hvað varðar framkvæmdirnar. Viðkvæðið var nefnilega að þær þyldu enga bið vegna stundarslaka í hagkerfinu.
Þetta mun skapa hagvöxt, sögðu fulltrúar Seðlabanka, vissir í sinni sök. Margir Íslendingar munu fá vinnu ( sem að vísu reyndist ósatt þegar á hólminn kom því vinnuaflið var að uppistöðu innflutt). Að vísu mætti óttast ruðningsáhrif gagnvart öðrum atvinnugreinum vegna hærri vaxta sem þenslan hefði í för með sér. En þegar á heildina væri litið væru áhrifin góð. Ég leyfði mér þá að spyrja hvort áhrifin væru sambærileg ef um það væri að ræða að byggja pýramída á Sprengisandi. Væru hagvaxtaráhrifin, sem þeir mærðu svo jög sambærileg? Svarið var játandi. Þá setti mig hljóðan - þangað til ég komst í hljóðnema og tölvu. Það kom þó fyrir lítið. En það er önnur saga.
En umræðan ætlar að reynast síglid. Í nýlegum pistli á Smugunni segir Ólöf Guðný Valdimarsdóttir - mjög svo réttilega - að þegar stórákvarðanir sem snerta náttúruna séu annars vegar, beri að hafa sjónarhornið vítt og hafa allt undir. Ekki dugi að horfa til hagvaxtarins eins eða skammtímasjónarmiða. Meta þurfi málin heildrænt: „Til að framkvæmd sé góð þá þarf hún að hafa langtímaáhrif og vera tekin á grundvelli þriggja eftirtalinna þátta: - Hún þarf að hafa góð efnahagsleg áhrif, svo sem aukinn hagvöxt. - Hún þarf að hafa jákvæð félagsleg áhrif. - Og hún þarf að taka fullt tillit til náttúru- og menningarverðmæta. Ef einn af þessum þáttum verður útundan er framkvæmdin ekki góð. Hagvöxtur einn og sér er ekki góður ef hann rústar náttúru- og menningarverðmætum og hefur slæm samfélagsleg áhrif."
Fram kemur í pistli Ólafar Guðnýjar að við erum hér á sama róli og er það óneitanlega hvatnig að heyra svo öflugan málsvara jafnaðar og náttúruverndar tala og skrifa á þann átt sem hún gerir.
Sjá slóð: http://smugan.is/2011/09/gullfiskaminni-einkaframkvaemd-og-einhlida-hagvoxtur/