Fara í efni

OPIÐ BRÉF TIL FORMANNS FRAMSÓKNARFLOKKSINS


Birtist í Morgunblaðinu 09.04.20.
Mér hefur stundum fundist tilefni til að gagnrýna formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, ráðherra. Nú langar mig hins vegar til að hrósa honum – með fyrirvara þó. Þannig er að ég hef verið að fara í gegnum tímarit og blöð sem ég hef lagt til hliðar á liðnum árum vegna þess að þau hafa haft umhugsunarverð skrif að geyma.
Í þessum bunka dúkkuðu upp tvær prýðisgóðar blaðagreinar eftir Framsóknarforingjann sem birtust í Morgunblaðinu í nóvember árið 2018.
Önnur greinin bar fyrirsögnina, Hugsum út fyrir búðarkassann, hin Frelsi til heilbrigðis.

I told you so!

Í báðum þessum greinum varar formaður Framsóknarflokksins við því að leyfa innflutning á hráu kjöti. Í grein sinni Frelsi til heilbrigðis segist Sigurður Ingi vilja að EES samningurinn verði tekinn upp á grundvelli breyttra forsendna: Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum. Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja …: „I told you so“.

Framsókn segir nei …

Í hinni greininni, Hugsum út fyrir búðarkassann, er formaður Framsóknarflokksins ekki síður afdráttarlaus: “Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei.
Á Íslandi höfum við verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.”

… en svo já!

Ég held að þarna hafi sálin í Framsóknarflokknum, gamla flokki bændanna, talað. Síðan breyttist eitthvað því nokkrum vikum síðar, eftir nokkra fundi í ríkisstjórn, sagði Sigurður Ingi, flokksformaður og ráðherra, skyndilega já.
Hvers vegna? Seint verður því trúað að VG hafi viljað leggja á flótta með málið eins og raunin varð. En mér er óneitnalega spurn. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn eftir. Var hann tilbúinn að fórna íslenskum lýðheilshagsmunum? Hann liggur undir grun. En við hinu yrði eftir sem áður forvitnilegt að fá svar, nefnilega hvers vegna Framsóknarflokkrinn og Vinstrihreyfinin grænt framboð gáfust upp í málinu. Við eigum rétt á svari.

Farðu að sannfæringu þinni Sigurður Ingi!

En þá er líka komið að kjarna erindis míns við Sigurð Inga Jóhannson, fyrir utan að hrósa honum fyrir skrifin. Ef þetta var þín sannfæring sem birtist í framangreindum skrifum þínum, sem ég hef trú á að hafi verið, þá er lag núna að taka málið upp að nýju! Hafi það verið rétt hjá þér í nóvember 2018 að “um þetta” (þ.e. hættu á að flytja inn sýklalyfjaónæmi) sé “gríðarleg vakning um allan heim…” þá má víst telja að ekki hafi dregið úr þeirri vakningu nú.
Þess vegna leyfi ég mér að segja, Sigurður Ingi Jóhannsson, fylgdu sannfæringu þinni! Gerirðu það áttu lof skilið, að öðrum kosti hlýtur fyrirvarinn sem nefndur var í upphafi að gilda.