OPINBERIR LÖGBRJÓTAR OG KLÁMHUNDAR?
Sæll Ögmundur.
Ég á barnabörn sem hafa yndi af að fylgjast með enska boltanum. Þeim hefur í sex mánuði mislíkað að Skjár 1/Síminn skuli hafa sent út lýsingar og skýringar á leiknum með ensku tali af þeirri einföldu ástæðu að þau skilja ekki ensku. Þess vegna fögnuðum við saman ákvörðun útvarpsréttarnefndar og glöddumst yfir leiðara Morgunblaðsins um málið í dag. Á sama hátt urðum við fyrir vonbrigðum í dag þegar okkur var ljóst að Skjár 1/Síminn sniðgengur úrskurð nefndarinnar og hélt uppteknum hætti í dag. Virðingin fyrir úrskurðinum er lítil og fyrir yngstu áhrofendunum engin. Það var sem sé ekkert að marka það sem froðusnakkurinn talsmaður Skjás 1/Símans sagði þegar úrskurðurinn féll um að stöðin myndi að sjálfsögðu fara að úrskurðinum. Mig langar fyrir hönd barnabarnanna Ögmundur að biðja þig taka málið upp á Alþingi í fyrirspurnartíma á mánudaginn. Mér finnst þetta vera svo mikið mál að það ætti að svipta Skjá 1/Símann útvarpsleyfinu, eða láta forstjórann fara og breyta ákvörðun hans. Þú mátt í leiðinni spyrjast fyrir um það hjá ábyrgðarmönnum Símans sem sendir dag hvern út klám á Breiðbandinu (Adult Channel) hvort þær útsendingar séu liður í menningarviðleitni hins opinbera, eða hluti af jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar og Símans.
Kv.
Ólína