ÓRAUNSÆI UTANRÍKISRÁÐHERRA
Birtist í Morgunblaðinu 23.07.07.
Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, í Ísraels- og Palestínuheimsókn hennar hafa vakið athygli. Átökin á þessu svæði hafa verið í brennidepli heimsfrétta allan síðari hluta síðustu aldar og allt fram á þennan dag. Af fréttaviðtölum að dæma er hins vegar engu líkara en utanríkisráðherra sé að kynnast splunkunýju máli. Þannig var hún bara búin að kynnast annarri hliðinni í fyrri hluta heimsóknar sinnar, vildi lítið segja um hina hliðina fyrr en hún væri búin að kynna sér þá hlið! Auðvitað væri það stórkostlegt ef Íslendingar gætu látið gott af sér leiða í friðarviðleitni fyrir botni Miðjarðarhafs en þá þyrfti líka að nálgast málið af skilningi og raunsæi. Það þykir mér Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ekki gera.
Á sveif með Bush
Hún segist telja að glufa kunni nú að vera að opnast fyrir mögulegt friðarferli. Hún lætur þess hins vegar ógetið að sú glufa er á forsendum Ísraels og bakhjarlsins Bandaríkjastjórnar. Því miður var ríkisstjórn Íslands ekki tilbúin að samþykkja tillögu okkar á sínum tíma – nú síðast ítrekuð í vor – um að viðurkenna palestínsku þjóðstjórnina líkt og Norðmenn gerðu. Nú er hins vegar búið að sundra þeirri stjórn, hrekja hana frá völdum og skapa upplausn, nánast borgarastyrjöld í Palestínu. Það er aðeins þá, eftir að Ísraelsstjórn hefur tekist það ætlunarverk sitt að deila og drottna, að hún er reiðubúin að aflétta þvingunaraðgerðum gegn Vesturbakkanum og koma jafnvel færandi hendi. En við fráfarandi lýðræðislega kjörna stjórn mátti ekki – og má ekki – ræða og undir það sjónarmið hefur Ingibjörg Sólrún tekið og styður þar með línu þeirra Olmerts og Bush. Mér kemur ekkert á óvart að Ísraelar vilji milligöngu slíks aðila!
Dregið í dilka eftir gamalkunnum formúlum
ISG hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að tala við Hamas. Það voru þau stjórnmálasamtök sem unnu sigur í síðustu þingkosningum í Palestínu og komust þannig til valda en í óþökk ísraelska hernámsliðsins. Þess vegna voru þingmenn fangelsaðir, fjárstreymi stöðvað inn í skatthirslur Palestínu þannig að ekki reyndist unnt að fjármagna einu sinni grunnþætti velferðarþjónustunnar. Nei "mér finnst allir þeir sem ég hef talað við í dag", er haft eftir ISG í Blaðinu 20. júlí, "sammála um að það hafi verið algerlega ófyrirgefanlegt af Hamas að standa svona að málum í Gaza". Hvar hafði ráðherrann leitað ráða, hverjir voru viðmælendur hennar? Þetta segir Ingibjörg Sólrún á sama tíma og hún þiggur boð hernámsliðsins, þiggur boð þeirra sem brjóta samþykktir Sameinuðu þjóðanna, og hafa gert um áratugaskeið, þeirra sem reisa kynþáttamúra, þeirra sem hafa fangelsað heila þjóð, hún er með öðrum orðum tilbúin að ræða við ísraelsk stjórnvöld og gerast gistivinur hernámsstjórnarinnar, fara meira að segja í þeirra fylgd til svæða sem heimurinn lítur á sem ólöglega hertekin svæði. En við Hamas kemur ekki til greina að ræða vegna þess að allir þeir sem hún hitti sögðu að það ætti ekki að gera!
Einu sinni mátti ekki ræða við fulltrúa Fatah, ekki mátti ræða við Arafat og nú er það Hamas sem ísraelska hernámsliðið með fulltingi Bandaríkjastjórnar bannar að sé rætt við. Mergurinn málsins er hins vegar sá að þetta snýst ekki um samtök og persónur heldur um lýðræði. Og þetta snýst líka um raunsæi.
Ísland utan valdablokka?
Ef einhver von á að vera til þess að ná árangri þarf auðvitað að ræða við alla hlutaðeigandi, hvort sem það er Fatah, Hamas eða Ísraelsstjórn, alla þá sem hafa lýðræðislegan hljómgrunn hjá fólkinu. Það er nauðsynlegt að ræða við þessa aðila af virðingu fyrir lýðræðinu og vegna þess að annað skilar ekki árangri.
Enn eitt "smáatriði" í yfirlýsingaflóði utanríkisráðherra í maraþon-fréttaútsendingum úr þessu undarlega og mikið auglýsta ferðalagi: Einhverjir aðrir en ég hljóta að hafa hnotið um þá staðhæfingu utanríkisráðherra að Ísland standi utan helstu valdablokka heimsins og þyki þess vegna vel til þess fallið að miðla málum. Hvernig er það, telur utanríkisráðherra Ísland ekki fullgilt aðildarríki í NATÓ, ríkasta og öflugasta hernaðarbandalagi heimsins? Ég myndi hins vegar styðja að við segðum okkur frá þeim félagsskap. Þá kynnu líka að skapast aðstæður þar sem við, frjáls og óháð, gætum unnið okkur traust og virðingu á alþjóðavettvangi sem málamiðlarar í erfiðum deilumálum.