ORÐLJÓTUR FORMAÐUR SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS
Birtist í Morgunblaðinu 02.06.11.
Bjarni Benediktsson er orðljótur á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 1. júní. Þar kallar hann Vinstrihreyfinguna grænt framboð gólfmottu. Ummælin voru látin falla eftir fund í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem fulltrúar VG höfðu bókað andmæli gegn hernaði NATÓ í Líbíu. Mér skilst að Bjarni Benediktsson og flokkur hans sé sammála þeim hernaði. Það eigi einnig við um aðra stjórnmálaflokka á Alþingi að undansakildri Vinstrihreyfingunni grænu framboði. En skyldi afstaða okkar til loftárása í Líbíu og aðildar að NATÓ vera ástæðan fyrir því að Bjarni Benediktsson velur okkur smánaryrði? Nei, gagnrýnin er ekki á málfnalegum forsendum, ekki vegna þess að Bjarni sé okkur ósammála efnislega. Það sem ergir Bjarna er að Vinstri græn séu ekki reiðubúin að slíta stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna vegna ágreinings um þetta efni. Ef það nú væri svo að stjórnarslit yrðu til þess að NATÓ hætti hernaði í Líbíu eða Ísland gengi úr NATÓ mætti vissulega segja að VG léti stjórnarsetu skipta sig meira máli en málefnið. En svo er ekki. Ekkert myndi breytast hvað NATÓ áhrærir við brotthvarf VG úr stjórninni að því undanskildu að stuðningurinn við hernaðarbandalagið yrði eindregnari í Stjórnarráðinu. Þá stendur eftir það sem frétt Morgunblaðsins í gær fjallaði raunverulega um: Formaður Sjálfstæðisflokksins skammar VG fyrir að slíta ekki stjórnarsamstarfinu. Þessi afstaða er í fullu samræmi við fyrri ummæli formannsins en við atkvæðagreiðslu á Alþingi um vantraust á sitjandi ríkisstjórn sagði Bjarni Beneditksson að engu máli skipti á hvaða forsendum þingmenn greiddu tillögu hans um vantraust atkvæði bara að þeir samþykktu hana; með öðrum orðum, bara að menn létu nota sig til að koma ríkisstjórninni frá. Á hvaða forsendum það væri gert eða hverjar yrðu afleiðingarnar skipti engu máli. Góftuskuhugsunarháttur virðist standa gífuryrðamanninum í brú Sjálfstæðisflokksins nærri.
Sjá hér: http://eyjan.is/2011/06/02/ogmundur-golftuskuhugsunarhattur-bjarna-benediktssonar/