ORÐNIR KOLVITLAUSIR?
Eru þið Guðmundur Gunnarsson, Össur og fleiri orðnir kolvitlausir í ummælum ykkar um starfsmannaleigur. Eru engin lög um neitt á Íslandi t.d. meiðyrði. Geta ríkisfyrirtæki notað glæpaaðferðir til að koma á hné fyrirtækjum sem þeim er illa við? Ég þekki hjónin sem stofnuðu 2B og veit að þau reyndu að gera allt eins rétt og löglegt sem kostur er og hafa samráð við alla þá aðila sem NÚ vilja koma þeim á kné, löglega eða ólöglega. Þau voru himinglöð í byrjun því að þetta var svo gaman, því báðir aðilar voru himinlifandi, bæði Pólverjar og ísl. atvinnurekendur. Svo varð fjandinn laus og þess stærri orð sem menn vita minna um málið. Ég hélt þig vera mann laga og réttar en ekki kúgunar og lögleysuofsókna, þess vegna verð ég meira sár en yfir ýmsu öðru í þessu Bananalýðveldi. Hundskist þið til að semja lög um þetta mál svo fólk viti hvað má eða ekki má.
Með kveðju,
Guðmundur Eiríksson, Selfossi
Þakka þér fyrir bréfið Guðmundur. Ég held að hópurinn, sem gagnrýnt hefur sumar starfsmannaleigurnar og þá ekki síður ýmsa atvinnurekendur sem ráðið hafa erlenda farandlaunamenn á samningum langt undir íslenskum lágmarkssamningum (sem eru lögboðnir), sé talsvert fjölmennari en sá sem þú telur upp. Ég gef mér að þú sért að vísa til Vinnumálastofnunar þegar þú talar um "glæpaaðferðir" sem "ríkisfyrirtæki" beiti. Þarna er ég ekki sammála þér því eftir því sem ég kemst næst var um það að ræða að aðilar á Vinnumálastofnun voru tilbúnir að veita erlendum manni atvinnuleyfi með hraði en sá hinn sami vildi vitna um meinta misnotkun sem hann hafði þurft að sæta. Ekki sá ég neitt ólöglegt við þetta. En þér er mikið niðri fyrir Guðmundur og ef til vill veist þú eitthvað sem ég ekki veit. Varðandi lögin sem við eigum að "hundskast" til að semja, þá er það að segja að frá í fyrra hefur legið fyrir lagafrumvarp frá VG sem ég tel að tæki af öll tvímæli um réttindi erlendra farandverkamanna ef þau yrðu samþykkt. En takk fyrir bréfið, kveðjurnar og skammirnar líka - þótt að sjálfsögðu skrifi ég ekki upp á þær.
Með kveðju,
Ögmundur