Orðum beint að Staksteinum
Staksteinadálkur Morgunblaðsins í dag vekur okkur til umhugsunar. Að mati pistlahöfundar er “óskiljanlegt hvað vinstri menn eiga við þegar þeir tala um nýfrjálshyggju”. Sérstakur skotspónn er Einar Ólafsson rithöfundur og stjórnarmaður í Samtökum herstöðvaandstæðinga. Hann hafði skrifað grein í Morgunblaðið, talað þar um nýfrjálshyggju án þess að skilgreina hana nánar. Hvað þessa hugtakanotkun snertir er Einar síður en svo einn á báti. Á ensku er talað um neo-liberalism eða jafnvel neo-conservatism og er þá vísað til þeirra í hinu pólitíska litrófi sem standa langt til hægri. Þetta er hugtak sem ég hélt sannast sagna að væri ekki síður notað af þeim sem standa til hægri en okkur hinum sem stöndum til vinstri í stjórnmálum. En hvað um það, höfundi pistilsins finnst ekki réttmætt að nota hugtakið. Hann nefnir hugsuði frá fyrri tímum, John Locke, John Milton, Adam Smith, Thomas Jefferson, James Madison, John Stuart Mill, Herbert Spencer, Ludwig von Mises, Karl Popper, Friedrich A. Hayek og Milton Friedman og segir síðan: “Hugmyndir allra þessara manna voru í grundvallaratriðum þær sömu. Þeir töldu stofnun ríkis illa nauðsyn til að verja frumrétt einstaklinganna til lífs, eigna og frelsis. Jafnframt töldu þeir ríkið skæðasta andstæðing þessara gilda…Jafnframt sögðu þeir hagkvæmustu og réttlátustu leiðina fyrir einstaklingana til að fullnægja þörfum sínum að stunda frjáls viðskipti í markaðshagkerfi sem byggði á séreignaskipulagi.” Og enn segir, “það tók engin ný frjálshyggja við af þeirri frjálshyggju sem hefur verið boðuð frá því á 17.öld.”
Það kann að vera rétt að grunntónninn í frjálshyggju allra tíma sé hinn sami enda myndum við ella ekki nota hugtakið sem samheiti fyrir tiltekna pólitíska afstöðu. Hinu er ég mjög ósammála að hægt sé að setja alla þá hugsuði sem nefndir voru hér að framan undir einn hatt án nánari skilgreininga. Einnig er það straðreynd að innan þeirrar stjórnmálastefnu sem kölluð er frjálslyndisstefna hafa í tímans rás verið mismunandi áherslur og straumar. Samkvæmt minni máltilfinningu er hugtakið frjálshyggja til dæmis þrengra hugtak en frjálslyndisstefna og vísar fyrra hugtakið lengra til hægri. Til að hnykkja á þessu hafa menn síðan sett forskeytið neo- eða ný- fyrir framan. En á það rétt á sér? Höfundur Staksteina telur afdráttarlaust að svo sé ekki. Auðvitað er það rétt hjá pistlahöfundi að hugmyndir sem við nú skírskotum til sem nýfrjálshyggju eru engan veginn nýjar af nálinni. Þeim var vissulega haldið fram af þeim mönnum sem hann vísar til á 18. og 19.öld og það er líka rétt að hugmyndir þeirra Hayeks og Friedmans eru löngu fram komnar og því engan veginn “nýjar”.
En hyggjum ögn að sögu þessara hugmynda. Af þeim hagfræðingum sem kenndir eru við “neo-liberalisma” eða “ný-frjálshyggju” eru þeir Friedman og Hayek sennilega þekktastir. Í lok áttunda áratugarins og byrjun þess níunda reis mikil hægri bylgja sem fór um heiminn allan. Þetta var á valdaárum þeirra Reagans og Thatchers. Hægri menn réðust í blaða- og tímaritaútgáfu til að koma málstað sínum á framfæri, stofnanir voru settar á laggirnar í þessu augnamiði einnig. Þessi vakning náði hingað til lands og er óhætt að fullyrða að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem nú er prófessor við Háskóla Íslands hafi verið öllum mönnum ötulli við að útbreiða fagnaðarerindið hér á landi. Athyglisvert er að á þessum árum ræðst hann í að þýða og gefa út nær fjörutíu ára gamla bók eftir Friedrich A. Hayek, Leiðin til Ánauðar. Þetta var engin tilviljun. Á þessum árum varð þessi bók, sem fyrst kom út árið 1943, einmitt mjög til umræðu í röðum hinna nýju galvösku frjálshyggjumanna. Ástæðan var sú að hún þótti nú eiga erindi við samtímann. Í bókinni setur Hayek fram þá skoðun að samfélögin séu að komast inn á miklar villigötur og beinir hann þar ekki síður orðum sínum til eigin samherja en andstæðinga. Hann taldi að eftir því sem liðið hafi á 19. öldina, hvað þá á fyrri hluta hinnar 20., hafi menn villst af leið. Það er einmitt heitið á fyrsta kafla bókarinnar. Þar segir m.a.: “En ferðin til betra skipulags var óhjákvæmilega hæg, og frjálshyggjumenn urðu að treysta á þann vöxt velmegunar, sem varð vegna atvinnufrelsis” (Leiðin til Ánauðar bls 24). En framförin virtist of hæg. “Og þær hugmyndir, sem henni höfðu valdið voru nú fremur taldar hindranir en forsenda og trygging þess, sem þegar hafði áunnizt. Framfarahugmyndunum átti því að ýta til hliðar.”(ibid bls 23) Síðan fylgdi boðskapur Hayeks um að hvika hvergi frá hugmyndum sannrar frjálshyggju. Og hvers vegna mátti ekki sýna linkind: “Bæði samkeppni og skipulagning eru illfærar leiðir, ef ekki er gengið á leiðarenda. Þetta eru tvær lausnir sama vandans. “Blanda” þeirra hefur það í för með sér, að hvorug kemur að fullum notum. Árangurinn verður verri en með því að fara aðra hvora leiðina. Með öðrum orðum er eingöngu hægt að sameina samkeppni og skipulagningu með því að skipuleggja fyrir samkeppni, en ekki með því að skipuleggja gegn samkeppni.” (ibid bls 43).
Þetta eru skýr varnaðarorð til samtíðarmannanna, sem Hayek taldi hafa villst af leið og ættu að snúa sér aftur til ómengaðri hugsunar. Hann taldi að þeir hefðu fengið glýju í augun af eigin árangri og væru orðnir ruglaðir í ríminu. Krafan var að snúa aftur. Undir þetta tóku eldhugarnir á Reagan/Thatcher tímanum sem vildu hefja merki frjálshyggjunnar hátt á loft. Ef til vill er það rétt hjá höfundi Staksteina að þörf er á að endurskoða hugtakanotkun. Ef til vill væri nær að tala um afturhaldsfrjálshyggju en ný-frjálshyggju því vissulega var hvatt til þess að horfa aftur til fyrri hugsuða en ekki hinna sem höfðu “villst af leið”.
Að lokum vil ég ítreka að mjög vafasamt er að mínu mati að setja alla þá hugsuði sem taldir voru upp í Staksteinum undir sama hatt. Nefni ég til dæmis þá John Stuart Mill og Herbert Spencer, þessir menn voru fulltrúar mjög mismunandi hugmynda innan frjálslyndisstefnunnar á 19. öld. En fyrst staksteinahöfundi finnst þetta allt vera sama tóbakið þá væri fróðlegt að vita hvort hann skrifaði upp á eftirfarandi varnarðarorð frá Herbert Spencer um að hvika hvergi frá kenningunni. Hér varar hann við að aðstoða fátæt fólk: “It seems hard that an unskilfullness which with all its efforts he cannot overcome, should entail hunger upon the artisan. It seems hard that a labourer incapacitated by sickness from competing with his stronger fellows, should have to bear the resulting privations. It seems hard that widows and orphans should be left to struggle for life and death. Nevertheless, when regarded not separately, but in connection with the interests of universal humanity, these harsh fatalities are seen to be full of the highest beneficience – the same beneficience which brings to early graves the children of diseased parents, and singles out the low-spirited, the intemperate, and the debilitated as the victims of an epidemic…”
Ef menn vilja kenna sig við hugsun af þessu tagi þá er ég fyrir mitt leyti tilbúinn að hætta að kalla þá nýfrjálshyggjumenn og nota einfaldlega orðið afturhald.
Eða hafa þeir á Staksteinum einhverjar aðrar tillögur?