Fara í efni

ÖRLAGARÍKAR KOSNINGAR


Ýmsir hafa haft á orði að kosningabaráttan hafi fram til þessa verið ósköp daufleg og muni að öllum líkindum verða það til enda. Þegar að er gáð kemur í ljós að það eru fyrst og fremst stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem halda þessu fram. Greinilegt er að þeir vilja láta líta svo út að hér sé allt í himnalagi og að kosningabaráttunni megi helst líkja við storm í vatnsglasi – svona annað veifið.
Veruleikinn er allt annar. Í hönd fara örlagaríkustu alþingiskosningar síðari tíma. Við stöndum nefnilega frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum.
* Ætlum við að stefna áfram hraðbyri inn í amerískt misréttisþjóðfélag?

*Ætlum við að ryðja almennum atvinnurekstri úr vegi með því að greiða götu stóriðju með tilheyrandi þenslu og okurvöxtum?
* Ætlum við áfram að vera handbendi árásargjörnustu hervelda heimsins?

Þetta er rætt á vinnustöðunum í aðdraganda kosninganna. Yfir umræðunni þar hef ég ekki orðið var við neina lognmollu. Skiljanlega óttast ríkisstjórnarflokkarnir alla gagnrýna og vekjandi  umræðu og vilja drepa henni á dreif – helst þegja hana í hel. Ríkisstjórnarflokkarnir vilja að þjóðin sofi af sér kosningarnar.

Það er lífsspursmál að örva umræðuna á lokasprettinum.

Ef við kjósum Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk yfir okkur eitt kjörtímabilið í viðbót mun það gerast að:

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins verður hafin fyrir alvöru.
Orkugeirinn verður seldur og fákeppnisvæddur á kostnað neytenda.
Utanríkisstefna þjóðarinnar verður áfram Írakstefnan.
Viljum við samfellda Íhaldstjórn í tvo áratugi? Er ekki komið nóg? Stjórnarandstaðan á góða möguleika á að fella ríkisstjórnina og mynda nýja ríkisstjórn á ábyrgum félagslegum grunni. Þetta eru valkostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir 12. maí.