"ÖRÓTTUR HÖGNI"
Sæll Ögmundur.
Ég sé að iðnaðarráðherra Baugsstjórnarinnar er að biðjast afsökunar á því á vefsíðu sinni að samstarfi ykkar er lokið. Skiljanlega tregablandið hjá ráðherra, sem hengdi hatt sinn og staf á snaga í ókunnugu húsi. Í húsi þar sem ekki er tekinn aðgangseyrir við innganginn. Hann greiða menn nefnilega með því að veita húsráðendum verulegan afslátt af skoðun sinni og meiningu, en umfram allt með því sem menn fallast á að gera, eða láta hafa sig útí, eins og menn nefna það afsakandi eftir á. Högninn, iðnaðarráðherrann, er meistari fléttunnar, en um hann er hægt að segja það sagt var um annan mann: Hann er mikill plottari. Vandinn er bara sá að plottin ganga aldrei upp. Þótt iðnaðarráðherra hafi fléttað saman ráðherralista þar sem eru tveir klassískir kratar, tveir gamlir alþýðubandlagsmenn og tvær kvennalistakonur, ef notuð er ágæt skilgreining Morgunblaðsins á Samfylkingunni í Reykjavíkurbréfi, þá er líka hægt að skipta ráðherrahópnum í fylgismenn iðnaðarráðherra og fylgismenn formannsins. Þrír fylgja ráðherranum að málum, einn formanninum. Og víst var það ráðherrann sem hafði undirtökin í hryggspennunni um ráðherraefnin. Eftir situr svo flokksformaðurinn með logandi það kjördæmi þar sem Alþýðuflokkurinn gamli var sterkastur og þótt slökkvibílar Samfylkingarinnar dæli nú á bálið í gríð og erg þá er formaðurinn þegar byrjuð að safna glóðum elds að höfði sér. Þetta vissi ráðherrann, þetta er hluti af fléttunni, þetta er hluti af hefndinni sem formaðurinn fyrrverandi þykist nú ná fram. Auðvitað átti hann sér draum um að leiða Samfylkingu í ríkisstjórn sem svilkonan gerði að engu. “Örótti högninn” gleymir engu. Hann þekkir samferðamenn sína og nýtir sér veikleika þeirra út í hörgul. Var það ekki hann sem gerði brotthvarf flokksformannsins úr embætti borgarstjórans í Reykjavík á sínum tíma að pólitískum farsa vegna ótímabærra yfirlýsinga? Farsa sem að lokum gerði R-lista flokkunum ómögulegt að vinna saman. Þegar grannt er skoðað má færa sterk rök fyrir þeirri skoðun. Það plott gekk ekki upp. Nú er að sjá hvort ráðherrakapallinn, sem iðnaðarráðherra lagði fyrir formann sinn gengur upp. Hvort hann veldur henni ekki örugglega vandræðum og verulegu fylgistapi að fjórum árum liðnum. Var það ekki iðnaðarráðherra, sem færði rök fyrir því gagnvart formanni í reiptogi flokkanna um ráðuneytin, að vinir hans í væntanlegum samstarfsflokki myndu aldrei gefa eftir fjármálaráðuneytið, sem þingflokkurinn hans hafði þó lagt áherslu á að fá? Og varðandi Írak þá mænir hann nú á framtíðina. Horfir fram í tímann, en ekki aftur eins og hann gerði í vetur. Eins í kvótamálinu. Sá sem þykist þekkja vanda sjávarbyggðanna af því hann fór túr á Guggunni – af hverju ætli hann meldi pass þegar kemur af kvótanum? Er það af því hann veit ekki hvernig það er að láta niðurlægja sig og gera eignalausan með því að öðrum er fengin lífsbjörgin til eignar? Það er einmitt hér sem skilur á milli alþýðuflokkshefðarinnar og Samfylkingarinnar. Í alþýðuflokkshefðinni eiga menn uppsafnaða virðingu fyrir baráttu fátæks fólks og samúð með öllum þeim sem máttu þola valdbeitingu þess sem átti bát, jörð eða búð. En Samfylkingin horfir fram á veg. Horfum til framtíðar stúlkur. Hann líkir þér við Marlon Brando, Ögmundur, í tregablandinni afsökunarbeiðni innpakkaðri í maskínupappír sjötta áratugarins. Það er freistandi að svara þeim kafla með Þjóðvegserindi nóbelskálds:
Sú höll er seinust höpp þér veitti og auð
og hljóm af saung og ilm af rós á kveldi
og teppi á gólf og tjöldin jólarauð,
hún týnist nú í haustsins voðaeldi.
(Halldór Laxness)
Eða róa á mið ráðherrans og vitna í kvikmyndir:
Hamíd: What's that?
Rambó: It's blue light.
Hamíd: What does it do?
Rambó: It turns blue.
Sástu að þau ætluðu að taka þingvallakoss, þegar Baugstjórninn var innsigluð í sjónvarpinu á gulum dúk á Þingvöllum, en hættu við?
Kveðja,
Ólína