Öryggismálin: Hvað er breytt á Norðurvígstöðvunum?
Þann 10. desember talaði ríkissjónvarpið við Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur utanríkisráðherra, undir starfslok, og hún brýndi fyrir komandi stjórnvöldum að heimurinn væri nú breyttur og íslensk stjórnvöld þyrftu að spýta í lófana:
„Heimurinn er breyttur. Við erum með nýja stöðu sem við höfum ekki horft framan í fyrr á lýðveldistímanum. Við heyrum hátt setta yfirmenn í stórum ríkjum segja að við lifum ekki lengur á friðartímum. Þegar hér eru auknar fjárfestingar [í Keflavík] og aukin viðvera [herliðs] þá er það ekki af neinni annarri ástæðu en til að búa sig undir breytta tíma. Ef við horfum í kringum okkur þá er öll umræða og undirbúningur töluvert lengra komin en hér á Íslandi og við þurfum að spýta í lófana.“
Þegar ráðherrann var svo spurður hvort bandaríski herinn væri kominn aftur svaraði hún:
„Bandaríski herinn kemur ekki aftur í þeirri mynd sem hann var heldur erum við með þetta svona „rotational“ þ.e.a.s. fólk kemur og er í einhvern tíma og fer. Við erum náttúrlega komin með talsvert mikinn mannskap að meðaltali á hverjum degi á svæðinu, það hefur aukist og ég held það muni áfram aukast. Við munum einfaldlega þurfa að vega það og meta eftir því hvernig málum vindur fram með hvaða hætti viðveran muni aukast hér – ýmist fyrir okkur eða bara fyrst og fremst kannski fyrir svæðið í heild sinni, og þar finnst mér skipta mestu máli að við séum verðugur bandamaður og taka á móti, og vera hluti af, því sem þarf að gera innan Atlantshafsbandalagsins til að tryggja fælingarmátt svæðisins.“
Þegar viðtalinu var úrvarpað voru – sem kom fram í frétt degi áður – 300-400 hermenn á varnarsvæðinu og „mikil uppbygging“ í gangi. Skömmu síðar greindi RÚV okkur frá að yfirstandandi „uppbygging hersins í Keflavík kostar 56 milljarða króna“.
Ofanskráð svar Þórdisar Kolbrúnar er auðveldast að skilja þannig að herinn í Keflavík sé kominn aftur en í breyttri mynd. Sem er líklega rétt. Að nokkru leyti hafa herstöðvar almennt breyst, fjölskylduherstöðvum fer fækkandi, æ fleiri bandarískar herstöðvar hafa einmitt svona „rotational“ mannskap. Að öðru leyti er þetta spurningum að sjóða froskinn í hægri suðu. Í Noregi voru bandarísku herstöðvarnar með rotational mannskap og vopnabúnað fyrst en þær urðu fastar frá árinu 2021.
Hélt áfram sömu ræðu…
Ellefu dögum síðar tók ný ríkisstjórn við völdum. Og 28. desember ræddi ríkissjónvarpið við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um Öryggissvæðið í Keflavík, hvort það væri að verða, eða væri nú þegar orðið, að herstöð. Þá hélt nýi ráðherran áfram með ræðu fyrirrennara síns svo hvergi sáust skil. Skv. RÚV:
Utanríkisráðherra segir ákveðinn fælingarmátt í því að hafa herlið á Íslandi. En koma þurfi í ljós hvort herlið fái varanlega viðveru hér. Gera þurfi það sem þarf til að vera virkir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu… Þetta er örugglega hluti af okkar skuldbindingum.
Þessir tveir ráðherrar íslenskra öryggismála telja báðar skilgreiningaratriði hvort herstöð sé aftur komin í Keflavík. Og þegar meta skal hvort hér skuli vera herstöð telja báðar aðalatriðið að spyrja um þarfirnar, „ýmist fyrir okkur eða bara fyrst og fremst kannski fyrir svæðið í heild sinni“ þ.e.a.s. það sem Atlantshafsbandalagið skilgreinir sem sínar þarfir. Ekki er að sjá að stjórnvöldin (fyrrverandi og núverandi) líti á Ísland sem sjálfstætt ríki sem þurfi að taka afstöðu til slíks. Á meðan er herstöðin byggð upp jafnt og þétt.
Þorgerður Katrín gaf skýra yfirlýsingu með því að storma til Úkraínu í fyrstu utanför sinni sem utanríkisráðherra og undirstrikaði staðfastan stuðning Íslands við Úkraínumenn.
Utanríkisráðherrann kom í Heimsgluggann 30. jan og ræddi við Boga Ágústsson um varnarmál. Þar rak hún vígvæðingaráróður án þess að nota grímu. Það eru breyttar aðstæður, segir hún:
„Við Íslendingar höfum verið að efla okkar varnargetu, við þurfum hins vegar að bæta í þegar kemur að öryggi og vörnum – og framlögum til varnarmála. Það eru allar þjóðir að gera það.“
Hún var einmitt að koma frá Póllandi sem setur nú 4-5% þjóðartekna til varnarmála sagði hún (Eystrasaltsríkin litlu minna). Þetta taldi hún til fyrirmyndar. Sko, 5% af þjóðartekjum Íslendinga eru 250 um milljarðar! Í þessu dæmi kemur fyrirmynd ráðherrans frá rússafóbískasta ytra hægri álfunnar – og frá Trump.
Hvað er svona breytt í umheiminum?
Talið barst þá að helstu orsökum þess að nú væru „breyttar aðstæður“ og „heimurinn breyttur“. Þorgerður Katrín tilfærði tvennt, frá Rússum, í spjallinu við Boga: a) Það væru „ömurlegar uppákomur“ í Eytrasalti sagði hún sem „allt bendir til að sé runnið undan rifjum Rússa“. Hún var að tala um þær skemmdir á fjarskipta- og orkuleiðslum sem verið hafa mjög í fréttum. „Við heyrum“ sagði hún að „skuggafloti Rússa“ sé líklegast að „nota Eystrasalt sem æfingarsvæði.“ Svo var hitt b) Rússar „stunda netárásir“ og „skipta sér af kosningum“ lýðræðisríkja og „eru með áróðursstríð bæði á samfélagsmiðlum og ýmsum öðrum stöðum“.
Fyrst um „skuggaflotann“ og leiðslurnar. Washington Post skrifaði í vikunni:
„Skemmdir á neðansjávarleiðslum sem hafa skekið evrópskar öryggissmálastofnanir undanfarna mánuði voru líklegast afleiðing óhappa í siglingaumferð frekar en rússnesk skemmdarverk, að sögn bandarískra og evrópskra leyniþjónustumanna.“
En takist ekki að sanna sök Rússa eða Kínverja breytir það líklega litlu, það verður þagað um það en orðrómurinn fær að vinna áfram sitt verk.
Að Rússar hafi mikil áhrif á kosningar í gegnum samfélagsmiðla er sömuleiðis fyrst og fremst áróður sem þjónar vígvæðingu. Frægustu sk. „áhrif“ Rússa á kosningar á Vesturlöndum var í kosningunum í BNA 2016. Kenningin var að Pútín hefði staðið í samsæri með Trump og hefði hindrað kjör Hillary Clinton. Málið var fyrsta mál í meirihluta bandarískra fjölmiðla í 2-3 ár. Hin mikla réttarrannsókn sýndi reyndar ekki fram á neitt slíkt samsæri en „russiagate“ náði samt alveg þeim tilgangi að æsa upp rússaandúð svo helst má líkja við McCarthy-tímann upp úr 1950.
Íslenskir utanríkisráðherrar undanfarin áratug, Guðlaugur Þór, Þórdís Kolbrún, hafa oft ýjað að því að Rússneskir kafbátar séu í sívaxandi mæli smjúgandi um í djúpunum kringum Ísland (hafa þó ekki borið á borð neinar upplýsingar þar um) sem kalli á mikið eftirlit og hernaðaraðstöðu í Keflavík.
Albert Jónsson hinn hermálafróði frv. sendiherra hafnar því að umsvif Rússa í norðurhöfum séu mikil eða í miklum vexti: …“rússnesk hernaðarumsvif hafa orðið hverfandi lítil í nágrenni Íslands og Grænlands“, segir hann í nýrri grein, já „hverfandi lítil“. Í útvarpsviðtali frá 2021 segir hann að Bandaríkjaher „dragist“ sífellt lengra norðaustur í höf af því að floti Rússa sé orðinn það lítill og haldi sig einkum á heimahöfum:
"Hagsmunir Rússa eru þeir sömu og þeir hafa verið í áratugi á Norðurslóðum, og lúta að kjarnorkuhernum. Þeir halda úti eldflaugakafbátum í Barentshafi og í þeim eru eldflaugar með kjarnahleðslu. Þetta er hryggjarstykkið í rússneska kjarnorkuhernum og hann tengist tilvistarhagsmunum Rússlands og stöðu í heiminum o.s.frv… En hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna hafa þróast með ákveðnum hætti sem dregur þá lengra í norður. Í fyrsta lagi, Norðurfloti Rússlands er miklu minni en sovéski forverinn var og fer minnkandi miðað við þann sovéska… Það sem Bandaríkin eru að gera er af því Norðurflotinn [Rússa] er orðin svo miklu minni og kemur ekki mikið lengur út á Atlantshaf þá þarf að fara norðar til að komast í færi við rússnesk herskip, kafbáta og flugvélar – í æfingaskyni eða til að undirstrika fælingarstefnu gagnvart Rússlandi.“
Eitt er breytt: talsmátinn í Washington
Hagsmunir, umsvif og stratgegía Rússa á Norðurslóðum og okkar nærsvæði hefur sem sagt ekki breyst mikið, og það á eftir að sýna fram á þennan „skuggaflota.“
Hins vegar hefur orðið mikilsverð breyting í öryggismálum af hálfu bandaríska Veldisins á Norurslóðum sem tekur þar upp nýja og miklu virkari stefnu. Með Trump þjappar Veldið saman valdinu og herðir tökin á lénsmönnum sínum og hjáríkjum. Um leið breytist talsmátinn í Washington: „Við þurfum Grænland [og Panama] til að tryggja efnahagslegt öryggi“, sagði nýi forsetinn. Og hann vildi ekki fullvissa um að hann myndi ekki „beita hernaðarlegum eða efnahagslegum þvingunum“ til þess.
Það sem mörgum finnst merkilegt er að Grænlandsmálið [og Panama] séð frá Washington snýst hreint ekki mikið um Rússland heldur fyrst og fremst um Kína. Vefsíðan Politico.com hefur eftir nýjum utanríkisráðherra USA ‘This is not a joke’: Rubio says Trump is serious about buying Greenland:
„Rubio sagði að Norðurheimskautssvæðið muni verða „afar mikilvægt fyrir siglingar“ þegar ís svæðisins heldur áfram að bráðna. Hann segir að ef Bandaríkin taki ekki við sér geti Kínverjar orðið ráðandi á svæðinu.“
Albert Jónsson skrifaði um þetta í desember á bloggi sínu, og undirstrikaði þar samfelluna í stefnu Trumpstjórnarinnar. Hann rifjaði upp þegar tveir tignir meðlimir hennar heimsóttu Ísland árið 2019, Pence varforseti og Pompeo utanríkisráðherra.
Það var áhugavert að erindi þeirra var ekki einkum að tala um Rússa eða ógn úr þeirri átt á norðurslóðum, heldur aðallega að vara við Kínverjum og ásælni þeirra og kínverskra fyrirtækja á svæðinu… Ástæðan var ekki sú að Kína væri þegar orðið áberandi á norðurslóðum, heldur var horft til lengri tíma og þess að Kína er öflugasti andstæðingur sem Bandaríkin hafa átt og harðnandi samkeppni við það fyrirsjáanleg á heimsvísu.
Talsmátinn já. Það er óneitanlega mikill léttir með nýrri stjórn í Washington að Donald Trump meðhöndlar og talar um hlutina án þess að nota öll þessi ósköp af silki og glimmer. Vélarhlífin yfir heimsvaldamaskínunni er opin og við sjáum betur hvernig vélin vinnur. En hreinskilni hans setur vissulega fólk sjálfslyginnar í vanda.
Í krossferðum sínum gegn villutrú og illmennum flaggði Biden sífellt bókstafstrúnni (vestrræn gildi!) en Trump stundar hins vegar raunsæisstjórnmál, hann ver hina járnköldu hagsmuni Veldisins, berum orðum. Meginstrategía Bandaríkjanna í öryggismálum hefur um langt skeið gengið út á að verja hina „einpóla“ heimsskipan fyrir keppinautum, gróandi nýjum valdapólum þar sem sá öflugasti, raunsætt séð, hefur um skeið verið efnahagsveldið Kína.
Rússland er samt mikilvægt í taflinu mikla. Sókn NATO til austurs í Evrópu og gegn Rússlandi er vissulega algjör meginþáttur í viðhaldi hinnar „einpóla“ skipanar. En nú hafa orðið þau megintíðindi á þeim vígstöðvum að NATO er nokkurn veginn búið að tapa stríði sínu í Úkraínu. „We just have to be realistic about the fact that Ukraine has lost” segir Rubio. Og sá veruleiki hefur mikil áhrif, líka upp á Norðurslóðir.
Að kúska lénsmenn sína
Hilmar Þór Hilmarsson er skarpur greinir um alþjóðamál. Hann bendir á að Úkraínustríðið verði Dönum dýrt. Danir hafi sýnt Bandaríkjunum mikla hollustu og tekið þátt í styrjöldum þeirra, m.a. með miklum vopnasendingum til Úkraínu, auk þess að opna Grænland þeim til hernaðarafnota, en það er illa launað. Hilmar Þór skrifar:
„Úkraínustríðið hefur svo þrýst Rússum í faðm Kína… Þess vegna eru Rússar komnir með Kína inná þetta svæði sem bandamann. Við þessar aðstæður getur Danmörk, sem fer með utanríkis- og öryggismál Grænlands, ekki lengur tryggt öryggi Grænlands, hefur ekki bolmagn til þess. Það hefur varla hvarflað að stjórnvöldum í Danmörku að Úkraínustríðið myndi leiða til þess að þau misstu tökin á Grænlandi.“
En Grænland er „tapað“, telur Hilmar Þór, gangur Úkraínustríðsins veldur því að Bandaríkin hirða eyjuna stóru: „Grænlendingar vilja sjálfstæði og kannski væri eðlilegast að sjálfstæði Grænlands yrði flýtt með stuðningi Bandaríkjanna, bæði í öryggismálum og efnahagsmálum“. Frjálst aðgengi BNA að Grænlandi í öryggis- og efnahagsmálum er aðalatriði, ég efast um að það skipti Trump höfuðmáli hvar formleg höfuðborg liggur.
Við horfum upp á hraðvaxandi „lénsmannavæðingu“ og undirsetningu Evrópu undir lénsherrann BNA. Það var t.d. ámátlegt að horfa upp á viðbrögð Dananna. Daginn sem Trump lýsti yfir „við þurfum Grænland og Panama“ svaraði Mette Frederiksen: „Bandaríkin eru mikilvægasti bandamaður Dana. Umræðan í dag breytir því ekki.“ Og daginn eftir tjáði Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðhrra sig ennþá skýrar. Skv. CNN:
„Utanríkisráðherrann sagði líka að Danmörk væri „opin fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn um það hvernig við gætum mögulega unnið enn nánar saman en við gerum til að tryggja að metnaður Bandaríkjamanna uppfyllist.”“
Öllu nær hreinni uppgjöf er erfitt að komast. Þau sprikla ekki einu sinni. Þorgerður Katrín ræddi þetta svolítið í Heimsglugganum hjá Boga og var ekki beint stygg heldur:
Það eru margir að spyrja mig um yfirlýsingar Trumps gagnvart Grænlandi og þá vil ég bara undirstrika það að samstarf okkar Íslendinga við Bandaríkin hefur jafnvel ekki verið sterkara síðan herinn fór 2006.
Norðurlöndin í fremstu víglínu
Annað sem hefur breyst rækilega í öryggismálum á okkar svæði á nokkrum síðustu misserum er þáttur Norðurlanda. Norðurlönd hafa breyst frá friðelskandi svæði með a.m.k. vott af hlutleysi – í hernaðarlega framlínu gegn Rússlandi. Og þau völdu það hlutskipti sjálf.
Á árunum 2023-24 gengu Finnland og Svíþjóð í NATO. Og á örfáum misserum hefur verið komið upp 47 bandarískum herstöðvum á Norðurlöndum – 12 í Noregi, 15 í Finnlandi, 17 í Svíþjóð og 3 í Danmörku – og við ættum að segja 48 ef komin er upp bandarísk herstöð í Keflavík. Með herstöðvunum 47 fær Bandaríkjaher greiðan aðgang og stökkpall að Norður-Rússlandi og Íshafinu og siglingaleiðinni, m.a. siglingum væntanlegs verslunarflota Kínverja, eftir Norðurausturleiðinni milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Og ekki bara aðgang að Íshafinu, skv. orðum Anders Fogh Rasmussen fyrrv. aðalritara NATO:
«Eftir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO mun Eystrasalt nú verða NATO-haf… ef við viljum getum við stöðvað alla umferð til og frá Rússlandi gegnum Sankti Pétursborg.»
Norðurlöndin sverja lénsherranum í Washington eilífa hollustu. Upphlaup þetta til vígvæðingar bætir vissulega vígstöðu Bandaríkjanna, gefur þeim lykilaðgang að norðanverðu Rússlandi. En eykur það öryggi Norðurlanda, að komast þarna í framlínuna?
Breyttist allt með Úkraínu?
„Það sem ýtti því öllu af stað [auknum framlögum til hermála] er sú staðreynd að Rússland réðist inn í Úkraínu. Það er breyttur veruleiki.“ (Þórdís Kolbrún Gylfad. á Sprengisandi 2/2)
Já, innrás Rússa í Úkraínu er tilfærð sem ástæða þess að Svíþjóð og Finnland þurftu endilega inn í NATO (og her aftur i Keflavík). „Innrás Rússa breytti öllu“, það hefur verið mantran frá Washington“. Og seinni hluti möntrunnar: „með nægri hjálp getur Úkraína sigrað.“
En af hverju réðust Rússar eiginlega inn í Úkraínu? Það var tilefnislaus innrás, „unprovoked“, heyrum við í sífellu. Innrásin snýst bara um „nakta árásarhneigð, um löngun Pútíns í heimsveldi með öllum tiltækum meðulum“ lýsti Biden yfir á innrásardeginum 24. febr 2022. - Pútín vill ekki bara innlima Úkraínu alla heldur ógnar árásarstefna hans öllum grannlöndum hans í vestri. Punktur.
En NATO hefur sjálft viðurkennt að þetta með „tilefnisleysu“ er rangt. Á fundi hjá Evrópuþinginu 7. október 2023 sagði aðalritarinn Jens Stoltenberg:
„Og við verðum að muna bakgrunninn. Bakgrunnurinn var sá að Pútín forseti lýsti yfir haustið 2021, og m.a.s. sendi hann samningsuppkast sem þeir vildu að við undirrituðum, um að lofa engri frekari NATO-útvíkkun. Það var það sem þeir sendu okkur. Og var skilyrðið fyrir því að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu. Auðvitað undirrituðum við það ekki.“
Stoltenberg viðurkenndi m.ö.o. að Rússar hefðu fyrirfram sagt útþenslu NATO vera stríðstilefni. Þeir kröfðust hlutleysis Úkraínu og settu það sem skilyrði fyrir að ekki yrði ráðist inn. Útþensla NATO var tilefni stríðsins, Rússar voru að bregðast við henni (ath: tilefni er ekki sama sem réttlæting). Þess vegna held ég að útþensla NATO til Svíðjóðar og Finnlands sem viðbrögð við þessu stríði veki hvergi sanna öryggiskennd, og allra síst í þeim löndum.
Hvernig er hægt að vinna öryggissamkeppni?
Hugmyndin um að „NATO bjargi okkur“, að aukin vígvæðing og aukinn „fælingamáttur“ tryggi best öryggi okkar byggir á þeirri hugmyndafræði að aukið öryggi fáist með því að ná nægjanlegu forskoti í öryggissamkeppninni við andstæðinginn. En gallinn er sá að aukið öryggi eins getur aðeins þýtt aukið óöryggi andstæðingsins, svo hann verður að svara með því að auka „fælingarmátt“ sinn á móti – sem sagt vígbúnaðarvél sem matar sig sjálf.
Eftir að Kalda stríðinu lauk um1990 vildu Gorbatsjov og síðan rússneskir eftirrennarar hans koma á „sameiginlegu öryggiskerfi“ fyrir Evrópu í heild. Öryggisstrategía Bandaríkjanna byggði hins vegar á því að Bandaríkin (með NATO) hefðu svo öruggt forskot í á aðra að þau fengju að ráða. Slíkt heitir á útlensku „hegemónískur friöur“ því hegemón þýðir einráður (sbr. pax romana á glanstíma Rómaveldis). Öllum mögulegum keppinautum verður auðvitað að halda niðri, og einráðurinn tekur sér vald til íhlutana hvar sem er.
Bill Clinton og eftirmenn hans völdu þessa öryggislausn, að víkka út NATO til austurs. Og breyta NATO úr varnarbandalagi um ríkjandi ástand í verkfæri til að umbreyta Evrópu (og umbreyta heiminum í heim „vestrænna gilda“). Sú lína leiddi, alveg fyrirsjáanlega, af sér stigmagnandi árekstra við Rússland – árekstra sem fóru á hástig þegar NATO bjó sig til að innbyrða Úkraínu líka.
En í Úkraínu keyrði sú lína loks á vegg. Margt bendir til að lénsherrann í Washington hafi nú áttað sig á þeim veruleik, en lénsmennirnir almennt ekki. Bæði lénsherra og lénsmenn gnísta álíka mikið tönnum, en þeir eru ósammála um strategíu. Eitt eru þeir þó sammála um: Meiri framlög til varnarmála, meiri vopnakaup og vígbúnað, miklu meiri.
Annars verður lénsherra lýðræðisins reiður! En hvað segja íslenskir kjósendur um þetta? Þjóðin hefur ekki verið spurð. Það var þó klárlega ekki neitt sem ný stjórnvöld voru kosin út á.