Öryrkjar Íslands og einn vinnandi lögspekingur
Maður er nefndur Jón Steinar Gunnlaugsson og er hæstaréttarlögmaður með meiru. Með reglulegu millibili birtast eftir hann í Morgunblaðinu innrammaðar viðhafnargreinar. Hvar hann hefur komist yfir þennan ramma veit ég ekki, kannski er það líka algert aukaatriði, en oftast er viðfang Jóns að verja einkavininn sinn, forsætisráðherrann. Í Mogganum 8. desember sl. bregður hins vegar svo við að hann tekur Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra upp á sína arma. Aldeilis óvænt sveifla, en fljótlega kemur í ljós að umhyggjan fyrir ráðherranum er barasta stílbragð og hefur lítið með persónuna Jón Kristjánsson að gera.
Hrakmennið sem hróflaði við kónginum
Umfjöllunarefni Jóns Steinars er það sem hann kallar ódrengskap formanns Öryrkjabandalagsins og nokkurra alþingismanna gagnvart nafna sínum heilbrigðisráðherranum. En ódrengur er sá kallaður sem er hrakmenni, svikull maður og óvandur að meðulum. Þá einkunn gefur lögmaðurinn Garðari Sverrissyni formanni Öryrkjabandalags Íslands. Þessi dapri vitnisburður tengist reyndar frammistöðu Garðars gagnvart einkavininum Davíð því hann hefur jú staðið í persónulegu stríði við Öryrkjabandalagið um árabil og lagt dálitla fæð á formann þess.
En viðfangsefni mitt að þessu sinni eru ekki vaxandi og óþolandi eineltistilburðir ríkjandi valdhafa og hirðarinnar í kring gagnvart þeim einstaklingum og hópum sem ekki eru á hnjánum fyrir framan þá eða aftan, og sem síðast birtist með afar ógeðfelldum hætti þegar Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra brá sér í gervi Jesú Krists á krossinum í ræðustól Alþingis í þeim lúalega tilgangi að lúskra á forsvarsmönnum öryrkja. Nei, geymum valdhroka, yfirgang, frekju og firringu valdhafanna að sinni en hugum að því hvaða marki umfjöllun Jóns Steinars Gunnlaugssonar er brennd. Hvaða augum lítur hann öryrkja og hvaða augum telur hann að öryrkjar eigi að líta þá sem hraustir eru á sál og líkama og geta gengið hressir til vinnu sinnar sérhvern dag?
Að þurfalingi skaltu aftur verða, eða hvað?
Fyrst er það skilgreining hæstaréttarlögmannsins á öryrkjum en hún hljóðar svo: “Öryrkjar eru þeir samborgarar nefndir, sem ekki geta séð sér farborða sjálfir með öflun atvinnutekna, og eru því þurfandi fyrir fjárhagslega aðstoð frá þeim sem slíkra tekna afla.” Ekki veit ég hvort lögspekingurinn grundvallar þessa þröngu skilgreiningu sína á Grágás, Járnsíðu eða Jónsbók en mér finnst hún lykta mjög af hugsunarhætti miðalda. Þá voru menn flokkaðir annað hvort örkumla eða þá alls ekki. En í dag er örorka metin hlutfallslega, hún getur t.d.verið 25% eða 50% og í þeim tilvikum aflar öryrkinn sér atvinnutekna. Þá finnst mér orðið “þurfandi” benda til þess að lögmaðurinn hafi svonefnda þurfalinga í huga enda er þurfandi maður samkvæmt fornum bókum þurfalingur og sveitarómagi. Kann þetta þó allt að vera á misskilningi byggt og er þá ólíkri málvitund okkar um að kenna.
Vinnandi fólk og annað fólk
Tilefni greinar Jóns Steinars er, eins og öllum er kunnugt, ágreiningur forsvarsmanna öryrkja og heilbrigðisráðherra um túlkun á samningi sem þeir gerðu sín í milli um kjarabætur til öryrkja. Hæstaréttarlögmaðurinn byrjar umfjöllun sína um þetta með eftirfarandi hætti: “Sl. vor ákvað ríkisstjórnin að frumkvæði heilbrigðisráðherra ... að vinnandi fólk í landinu skyldi frá og með árinu 2004 leggja öryrkjunum til einn milljarð króna í viðbót við það sem annars hefði orðið.” Öryrkjar fá það sem sagt strax óþvegið, þeir fá að vita hvar Davíð keypti ölið, þeim er sagt með þjósti hverjir borgi brúsann. Og þar eru engir aumingjar á ferð, nei það eru vinnandi menn sem borga. Lögspekingurinn leggur ofuráherslu á þetta atriði. Og hann segir það ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur staglast hann á þessu að minnsta kosti þrisvar sinnum í sinni annars stuttu viðhafnargrein.
Að mínum dómi er lærdómsríkt að skoða þetta stagl í öllu sínu veldi vegna þess að í því öllu er lítil virðing fyrir almennum mannréttindum borin og mannlegri reisn, og engu er líkara en mismunandi hlutskipti og hlutverk einstaklinga séu einvörðungu í sköffun peninga metin. Ekki verður af Jóni Steinari skafið að hann greinir rétt frá að heilbrigðisráðherra hafi átt þátt í því að færa öryrkjum verulegar kjarabætur. En þá rísi upp “formaður öryrkjanna” og brigsli honum um svik. Þetta hljómi eins og örgustu öfugmæli því ráðherrann hafi beitt sér fyrir verulega bættum hag öryrkja - en vel að merkja og nauðsynlegt að undirstrika rækilega að mati Jóns Steinars – “á kostnað annarra borgara sem standa undir þessum útgjöldum með sköttum.” Og svikabrigslin í garð heilbrigðisráðherra og fullyrðingar um fantaskap hans eru að sama skapi, að dómi lögmannsins, “varla líklegar til að auka vilja vinnandi manna í landinu til að leggja fé til þeirra sem geta ekki aflað sér atvinnutekna vegna vanheilsu.”
Eftir að hafa farið yfir þennan ítrekaða boðskap er óhjákvæmilegt að spyrja? Er hægt að lesa annað út úr orðum lögspekingsins en að hann bæði sjái eftir því sem hann borgar til samfélagsins og að hann telji að öryrkjar eigi engan rétt á að mynda sér skoðanir á eigin málum? Þeir séu barasta þurfalingar sem eigi sér ekki einu sinni hagsmunamál, þeir séu á valdi húsbænda sinna sem geti skammtað þeim eins og þeim sýnist hverju sinni? Ég á bágt með að lesa annað út úr boðskapnum en vil þó minna á þá staðreynd að grein Jóns Steinars er auðvitað undir sterkum áhrifum af allt um lykjandi væntumþykju hans á einkavininum Davíð, sem hefur jú marga hildina háð við óstýriláta öryrkja á undanförnum árum.
Úr vopnabúri heilræðanna
Að lyktum gefur Jón Steinar nafna sínum heilbrigðisráðherranum það heilræði að hafa varann á þegar hann hefur samskipti við öryrkja sem hafa “ódrengskap í vopnabúri sínu”. Ég trúi því hins vegar að Jón Kristjánsson láti vinahót lögspekingsins sem vind um eyru þjóta enda er grundvöllur náinnar vináttu þeirra, að minnsta kosti í málefnum öryrkja, sáralítill. Milli viðhorfa þeirra í þeim efnum er, sem betur fer, himin og haf.
Ég vil hins vegar gefa leshring forsætisráðherra og einkavina hans það heilræði að leggja nú frá sér Passíusálmana um stund og glugga þess í stað örlítið í Hávamál. Lestur þeirra og upprifjun er afskaplega holl. Þar er ásamt með öðru fjallað um vináttuna en einnig hitt að sérhver einstaklingur eigi sér tilverurétt og að ekki bara sumir heldur allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins með einum eða öðrum hætti – og gildi þá einu hvort menn gangi heilir til skógar eður ei. Er vonandi að leshringurinn hafi bæði gagn og gaman af því að rifja upp Hávamál. Þar er m.a. að finna eftirfarandi erindi sem minnir okkur á að öll höfum við eitthvað fram að færa og einhverju hlutverki að gegna meðan við lifum:
Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handar vanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé,
nýtur manngi nás.
Það er aftur á móti óþarfi að vekja athygli leshringsins á því að hin veraldlegu uppgrip mannanna eru æði misjöfn. Það vita nefnilega allir en hver er vilji þorra þjóðarinnar í þeim efnum? Meirihluti landsmanna vill aukinn jöfnuð en undir merkjum frjálshyggjunnar stíma núverandi stjórnvöld að sjálfsögðu á fullri ferð í þveröfuga átt. Þess vegna þarf þjóðin nauðsynlega að losna sem allra fyrst undan núverandi stjórnarstefnu og ægivaldi markaðshyggjunnar sem kennir mönnum það helst að hugsa aldrei um annarra hag en hlaða á hinn bóginn þindarlaust undir sinn eigin prívat-rass.
Þjóðólfur