ÓSKILJANLEG VAXTASTEFNA
20.03.2009
Þessa dagana er mikið rætt um ráðstafanir til varnar skuldugu fólki. Ekki er vanþörf á: Lánaskuldbindingar verðtryggðar og óheyrilegt vaxtaálag þar ofan á. Því lengur sem drápsklyfjunum er hlaðið upp á fólk og fyrirtæki þeim mun óbærilegri verða þær. Í framhaldinu rísa kröfur um björgunaraðgerðir. Þess er krafist að skattgreiðendur hlaupi undir bagga. Hvernig væri nú að söðla um og hætta að bæta í byrðarnar? Þetta hafa orðið viðbrögð flestra þjóða heims í þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir. Um þetta hafa Íslendingar fundið ágætt orðtak. Talað er um að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Stjórn Seðlabankans virðist ekki þekkja til þessarar hugsunar og neitar að lækka vexti svo einhverju nemi. Hún segir að ekki megi veikja krónuna. Það er óskiljanlegur málflutningur í landi sem býr við gjaldeyrishöft. Eigendur jöklabréfanna og aðrir fjármagnseigendur sem hagnast á hávaxtastefnunni eru sælir með sitt. Á meðan blæðir þjóðinni. Það verður ekki þolað öllu lengur.