ÖSSUR, EVRÓPUSAMBANDIÐ OG HLEKKIR HUGARFARSINS
Í framhaldinu fjallar Össur um tollamúra Evrópusambandsins og spyr: "Af hverju vill Ögmundur ekki brjóta hlekki hugarfarsins og taka þátt í því með öðrum jafnaðarmönnum í Evrópu að opna markaði hennar fyrir fátækum þjóðum? ESB hefur bætt réttarstöðu verkafólks í Evrópu. Það veit VG. Af hverju vill flokkurinn ekki taka þátt í því með öðrum íslenskum jafnaðarmönnum að breyta því innanfrá? Það er fullt af fólki til dæmis á Evrópuþinginu sem er sama sinnis."
Það síðastnefnda er rétt. Það á til dæmis við um þá þingmenn á Evrópuþinginu, sem eru miður sín yfir því hve markaðssinnum er að verða ágengt í að þröngva Evrópusambandinu út á markaðstorgið með grunnþjónustu velferðarsamfélagsins og grafa undan réttindum launafólks. Og hvað það síðara varðar þá er það nú einu sinni staðreynd, að þegar á heildina er litið eru sigrar evrópskrar verkalýðshreyfingar í seinni tíð fyrst og fremst varnarsigrar því sótt er að réttindum launafólks innan Evrópusambandsins á markvissan og ágengan hátt. Hvað varðar íslenskt launafólk þá heyrist oft sagt að íslenskt launafólk hafi í seinni tíð fengið réttarbætur sínar á silfurfati í formi tilskipana frá Brussel.
Þetta er alrangt. Nánast allir sigrar sem unnist hafa á liðnum árum í kjarabaráttunni hér á landi hafa verið á íslenskum forsendum og vegna baráttu hér innanalands. Ég nefni lífeyrismál og fæðingarorlof, sem mikilvæg dæmi þar um.
Ég get tekið undir það með Össuri að vissulega eigum við að taka þótt í alþjóðlegu samstarfi og horfi ég þar mjög til verkalýðsbaráttunnar. Í því samhengi tel ég mikilvægt að hafa tvennt í huga.
Í fyrsta lagi eigum við að horfa til heimsins alls, ekki einblína á lítinn hluta hans. Hin miklu átök samtímans eru háð á heimsvísu. GATS samningarnir sem nú fara fram á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru dæmi um þetta. Samtök launafólks hér á landi, með BSRB í fararbroddi, koma að þessum samningum með stöðugum þrýstingi á íslensk stjórnvöld. Innan Evrópusambandsins er eina aðkoman að Framkvæmdanefnd sambandsins sem fengið hefur umboð til að semja fyrir hönd allra Evróupsambandsríkjanna í leynilegum samningum!
Í öðru lagi eigum við aldrei að hætta að treysta á okkur sjálf. Samfélag sem hættir sjálft að reyna að hafa fyrir hlutunum, berjast sjálft fyrir tilveru sinni, en tekur þess í stað við tilskipunum frá miðstýrðu valdi, morknar smám saman innan frá. Menn verða sérfræðingar í öllu sem lýtur að skrifræði, kunna upp á sína tíu fingur hvernig eigi að sækja um alla mögulega og ómögulega styrki en glata hæfileikanum til að pluma sig sjálfir og sjá sér farborða.
Staðreyndin er sú að Evrópusambandið er óhemju miðstýrt og þunglamalegt kerfi sem auk þess er verulega gírað inn á markaðslausnir. Innan Evrópusambandsins, og þar með talið hins Evrópska efnahagssvæðis, heyjum við varnarbaráttu gegn frjálshygguöflum sem eru einkum að finna í hægri flokkunum en því miður einnig í seinni tíð í hinum kratísku jafnaðarmannaflokkum. Eða hvaða hald er í Tony Blair, Schröder, mörgum norrænu krötunum og þeirra líkum? Össur, félagi góður, þetta eru engir baráttufélagar okkar, eða hvað?
Enda þótt ég leggi mikið upp úr samstarfi við Norðurlöndin og verkalýðssamtök í Evrópu skal ég alveg játa að á alþjóðlegum fundum, sem ég hef átt kost að sækja á vegum verkalýðshreyfingarinnar, slær hjarta mitt iðulega miklu meira í takt við þá sem koma frá suðrænum slóðum, langt utan hins "einangrunarsinnaða innilokunarsambands". Þetta er einmitt fólkið sem er að verjast ásælni hins evrópska og norður-ameríska auðvalds.
Að lokum þetta. Mér hefur oft orðið það að umhugsunarefni þegar menn jafna löngun til að ganga í Evrópusambandið við alþjóðahyggju. Evrópusambandið byggir fyrst og síðast á einangrunarhyggju. Það er miðstýrt og þunglamalegt skrifræðiskerfi sem öllum vill þröngva inn í sama þrönga farveginn. Mér er fyrirmunað að skilja að mönnum finnist það vera eftirsóknarvert hlutskipti fyrir þjóð eins og okkar, sem býr yfir sjálfstæðum lýðræðislegum tækjum til að stjórna sjálf sínu lífi, að gerast þarna innmúrað aðildarríki með völd sem mælast í prómillum.
Á sínum tíma sat ég með Össuri í EFTA nefnd Alþingis. Þar var fjallað um málefni sem tengjast Evrópusambandinu. Það voru oft skemmtilegir og fjörugir fundir. Ekki vorum við Össur sammála um umgjörðina, Evrópusambandið. Stundum deildum við hart. Um innihaldið náðum við hins vegar oftast saman, enda báðir jafnaðarmenn í gömlum skilningi þess hugtaks. Vissulega skiptir umgjörðin máli. En alltaf þegar okkur auðnast að leggja meira upp úr innihaldi en umgjörð þá losnar um þá hlekki sem kunna að hvíla á hugsun okkar. Það eru hlekkir fordómanna. Sennilega er ekkert okkar að öllu leyti laust við þá.
Pistill Össurar af heimasíðu hans (sem er HÉR) :
Ögmundur - og hlekkir hugarfarsins
Við
Ögmundur sagði efnislega að Evrópusambandið væri einangrunarsinnað innilokunarsamband sem hentaði ekki hagsmunum Íslendinga.
Það er rangt hjá Ögmundi að tollmúrarnir sem ESB hefur slegið um sig komi Íslendingum illa. Þvert á móti má færa sterk rök að því að við séum í ríkramannaklúbbnum sem lokar að sér fyrir varningi frá þróunarríkjunum - og höfum hag af tollmúrunum sem sambandið hefur reist um sig. Við njótum þeirrar verndar líka - kanski illu heilli fyrir aðra utan þess.
Það er hins vegar rétt hjá Ögmundi að ESB hefur slegið um sig tollahindrunum. En það er gert beinlínis til að vernda framleiðendur í Evrópu, einkum landbúnaðinn, og líklega líka ýmis konar smáiðnað í S-Evrópu. Það er svartasti bletturinn á sambandinu. Þessi háttsemi kemur í veg fyrir að þróunarríkin, fátækustu ríkin í heiminum, geti notað ódýrt vinnuafl og ódýr hráefni sín til að framleiða varning inn á best stæðu markaði heimsins.
En hversvegna vill ekki byltingarmaðurinn Ögmundur taka þátt í að breyta því?
Ögmundur og VG andæfa Evrópusambandinu af sömu trúarlegu sannfæringunni og þjóðernissinnaðir íhaldsmenn í Sjálfstæðisflokknum. Ögmundur, sem er ekki bara heitur baráttumaður heldur alþjóðasinni þegar kemur að baráttu fyrir bættum kjörum verkalýðs í öllum heiminum, vill ekki taka þátt í því með jafnaðarmönnum að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp baráttu gegn þessari ósvinnu.
Afhverju vill Ögmundur ekki brjóta hlekki hugarfarsins og taka þátt í því með öðrum jafnaðarmönnum í Evrópu að opna markaði hennar fyrir fátækum þjóðum? ESB hefur bætt réttarstöðu verkafólks í Evrópu. Það veit VG. Afhverju vill flokkurinn ekki taka þátt í því með öðrum íslenskum jafnaðarmönnum að breyta því innanfrá? Það er fullt af fólki til dæmis á Evrópuþinginu sem er sama sinnis.
Ég er þeirrar skoðunar að viðskiptafrelsi sé besta leiðin til að brjóta þróunarríkjunum varðaða leið til bjargálna. Við jafnaðarmenn, hvar í flokki sem við stöndum, eigum að líta á okkur sem frelsishreyfingu fátæks fólks hvar sem er í heiminum.
Í afstöðu Ögmundar og VG felst rökvilla - enda hefur VG aldrei getað skýrt afhverju flokkurinn er á móti ESB. Ég held helst að Ögmundur og Steingrímur séu hræddir við leftistana, einsog
Það er hins vegar athyglisvert að grasrótin í VG er í vaxandi mæli Evrópusinnuð. Það er ekki langt síðan birt var könnun, sem sýndi að meira en þriðjungur að stuðningsmönnum flokksins vill að sótt verði um aðild að ESB.
Ögmundur er að sönnu með þykkt höfuð, en hvað ætlar hann lengi að berja því við steininn?
- Össur