Óstöðvandi landnám athafnaskáldanna
Athafnaskáld nútímans nema sífellt nýjar lendur og þekkja engin landamæri. Til dæmis þar um má taka skáldjöfurinn og stórbóndann í Baugsnesi, Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann hefur hingað til haldið sig við venjubundna búskaparhætti og bein arðvænleg yrkisefni bæði hérlendis, í Evrópu og Ameríku. En nú vill hann fara að taka til hendinni á Austurvelli. Hann vill komast yfir skika og hasla sér völl á þeim gamla og gróna túnparti þar sem fyrir sitja 63 þjóðkjörnir þingfararkaupsbændur. Segir sig sjálft að plássið á vellinum er ekki mikið en Jón er fylginn sér og tilefnið er líka ærið; boðaður undirbúningur að frumvarpi til laga sem torvelda á réttindi athafnaskálda til að yrkja risavaxna ljóðabálka, já heljarinnar kvæðabreiður og jafnvel í hringhenduformi, og hampa svo herlegheitunum í ofanálag í eigin fjölmiðlum.
Að reisa múrana sjálfir
Höft og helsi koma að sjálfsögðu við kvikuna á öllum ærlegum skáldum; því hvaða andans jöfur er svo aumur að hann vilji ekki fá frið til að skapa og koma svo verkum sínum á framfæri? Í þessum kringumstæðum hefur Jón í Baugsnesi nú þegar ort sitt fyrsta lagafrumvarp, eins og frá var sagt í Arnarhóls-póstinum nýverið, og er það efnislega þannig vaxið að slegin verði af öll áform um girðingastúss stjórnvalda kringum hin miklu athafnaskáld. Og varðandi fyrirferð eigin afurða í eigin fjölmiðlum vill Jón að stofnað verði frjálst og óopinbert “fjölmiðlaráð” til að vaka yfir efni þeirra miðla sem hann er eigandi að í því augnamiði að gætt verði hlutleysis og réttlætis.
Með friðarfána til Arnarhóls
Þá hefur Jón, af ótta við girðingaáformin, óskað eftir spjalli við óðalsbóndann á Arnarhóli sem hann, að því er sagan segir, bauð eitt sinn 30 þúsund ríkisdali ef hann mundi vilja þekkjast vinnumennsku í Baugsnesi. En nú ætlar Jón ekki að hlunnfara hann eða móðga með ósæmilegu boði; einasti tilgangurinn er að friðmælast og fullvissa Arnarhólsjarlinn um að hvorki vinnumenn í Baugsnesi - sem sumir hverjir hafa reyndar áður verið í vist hjá sjálfum jarlinum - né heldur Baugsness búfénaður, muni framar valda minnsta jarðraski eða þá öðru ónæði í Arnarhólslandi. Fremur lítil líkindi eru til þess að sættir muni takast en hver veit hvað gerist ef Jón í Baugsnesi hneigir sig djúpt og örugglega og helst þannig að höfuðið fari í gegnum stofugólfið á Arnarhóli. Kannski að slíkir fimleikar hrífi Arnarhólsjarlinn sem virðist jú vera farinn að meyrna og lýjast með aldrinum ef marka má djúpar pælingar hans um sín eftirlaunakjör fyrir hátíðirnar.
Miðbæjarskáldið
Annað lítið sýnishorn – og að mínum dómi dálítið uppbyggilegra og skemmtilegra - um ný yrkisefni athafnaskáldanna eru umsvif Björgólfs bónda Guðmundssonar í sjálfri miðju höfuðstaðarins og er hann fyrir allt saman orðinn réttnefndur 16. bæjarfulltrúi Reykvíkinga. Óbrotgjarn minnisvarði um kveðskapinn þann er m.a. sú glæsilega keppni um skipulag miðbæjarins sem hann hefur nýverið af eigin rammleik og arði startað.
Markmiðið ávallt hið sama
Þannig birtist okkur m.a. nýtt landnám athafnaskáldanna og er þetta bara blábyrjunin á stórkostlegu ævintýri - ef allt fer fram sem horfir og Guð lofar. Reynslan frá útlöndum kennir okkur nefnilega að nýlendustefnan - hin pólitíska ljóðagerð sem Íslands athafnaskáld eru nú farin að stunda í stórum ríkari mæli en fyrr - hún mun eflast, þroskast og dafna ef hún fær til þess fullt frelsi og frið. Auðvitað verður áfram ort í verslun og viðskiptum en hin pólitísku og samfélagslegu yrkisefni eru til þess brúkuð að ná traustari tökum og fullkomnum völdum á viðfangsefninu sem er jú samfélagið í heild. Markmiðið er ávallt að yrkja betur og betur, sjálfum sér og sínum til enn meiri uppskeru í formi veraldlegra eigna og valda. Og í þessum efnum öllum hefur jarlinn á Arnarhóli nákvæmlega ekkert fram að færa nema geðillsku gagnvart einstökum mönnum; innihaldið og markmiðin öll eru honum nefnilega mjög að skapi. Jón í Baugsnesi og menn af hans kalíberi þurfa því í rauninni ekkert að óttast. Eina sem af þeim er krafist er að sýna jarlinum tilhlýðilega virðingu.
Það er á hinn bóginn leiðinlegt frá því að segja að ábati okkar vinnumannanna og vinnukvennanna af útrás athafnaskáldanna er að mínu mati minni en enginn. Efnahagsleg og pólitísk völd færast á færri hendur. Misskipting fer vaxandi og völd lýðræðislega kjörinna fulltrúa skreppa smátt og smátt saman. En spyrja má: eru þetta ekki bara hrein aukaatriði sem ég er hér að tína til og afar ómerkileg saga sem ekki þarf að fjölyrða um? Allnokkrar líkur eru á að svo sé, ef marka má t.d. nýársávarp forseta Íslands. Á forsetanum mátti nefnilega skilja að venjulegu fólki færi ört fækkandi hér landi. Í ávarpi sínu talaði hann í það minnsta bara um listamenn, sérfræðinga og vísindamenn, og síðast en ekki síst hin stórtæku athafnaskáld sem skapa nú verðmætin ein síns liðs og burðast – ef rétt er skilið – með gagnslaus vinnudýr, hinn svokallaða “almenning”, á herðum sér. Einhvern tíma hafði ég veður af því að þessu væri raunar öfugt farið en hafa ber hugfast að tímarnir breytast og mennirnir með, og þá um leið sá hugmyndaheimur sem þeir lifa og hrærast í.
Eiríkur H. Guðmundsson, enn um sinn vinnumaður í Hannnesi í Gullbringusýslu.