Fara í efni

ÓTTAST AÐ KOSNINGAR TRUFLI EINBEITINGUNA


Krafan um kosningar rís nú um landið allt. Við þeirri kröfu vill forsætisráðherrann ekki verða. Hann segir að ekki megi skapa upplausnarástand. Í lesendabréfi sem birtist á síðunni í dag er réttilega bent á þá veruleikafirringu sem fram kemur í afstöðu forsætisráðherra. Hann verður að skilja að gagnrýnin og reiðialdan beinist ekki gegn honum persónulega á nokkur hátt. Sjálfur er ég eindregið þeirrar skoðunar að Geir H. Haarde sé mjög heiðarlegur og grandvar maður, sem vill þjóð sinni vel. Það breytir því ekki að ríkisstjórnir undir hans forsæti og fyrri ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að, hefur orðið herfilega á. Þær eru þess valdandi beint og óbeint, hvernig fyrir okkur er komið. Nú vill almenningur uppgjör. Það uppgjör fari fram við kjörborðið í lýðræðislegum kosningum. Er þetta óeðlileg krafa?
Nú dugir enginn sýndarveruleiki lengur. Þjóðfélagið logar í bókstaflegri merkingu. það er ábyrgðarhluti að leggja ekki sitt af mörkum til þess að reiðin beinist í lýðræðislegan og uppbyggilega farveg. Það yrði gert með því að slíta stjórnarsamstarfinu og efna til þingkosninga eins fljótt og auðið er.