Fara í efni

FRAMKVÆMDASTJÓRN ESB VIÐURKENNIR VILLU SÍNS VEGAR

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú staðfest fregnir þess efnis að hún telji hina umdeildu þjónustutilskipun vera „pólitískt og tæknilega óframkvæmanlega“. Frá þessu var greint á vef BSRB í gær (3.marz 2005). Sú frétt var samkvæmt heimildum Financial Times af fundi framkvæmdastjórnarinnar kvöldið áður. Nú hefur framkvæmdastjóri Innri markaðsdeildar ESB, Charlie McCreevy, (Internal Market Commissioner)  opinberlega tekið afstöðu gegn þjónustutilskipuninni í óbreyttu formi og tilkynnt að framkvæmdastjórnin muni gera alvarlegar umbætur á tilskipuninni.

Reyndar var það Evrópuþingið, sem með aðgerð sem á sér ekki fordæmi, kallaði McCreevy á sinn fund og bað um staðfestingu á þeim fregnum sem af fundi framkvæmdastjórnarinnar höfðu borist. Þar fengu forystumenn þeirra pólitísku samfylkinga sem eru á Evrópuþinginu orðróminn staðfestann.

McCreevy tók fram að upprunalandsreglunni svokölluðu yrði breytt, svo að hún muni ekki leiða til undirboða í launum né öryggisstöðlum. Auk þess tilkynnti hann að heilbrigðisþjónusta yrði sérstaklega undanskilin ákvæðum þjónustutilskipunarinnar, en hún hafði ásamt félagslegri þjónustu fallið undir hana.

Þessi kúvending í afstöðu framkvæmdastjórnarinnar staðfestir að gagnrýni á þjónustutilskipunina hefur átt fullan rétt á sér. Þjónustutilskipunin eins og hún hefur verið kynnt hingað til, hefði leitt til lægri launa, minni réttinda verkafólks og veikt almannaþjónustu. Þessu hefur BSRB ásamt verkalýðshreyfingunni í Evrópu haldið fram ásamt lang flestum félagasamtökum eða faghópum sem hafa kynnt sér málið, eins og t.d. Læknasamtökum Bretlands og meira að segja Samtökum atvinnurekanda smárra og millistórra fyrirtækja í Evrópu. Hér heima hafa hins vegar hagsmunasamtök eins og Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Félag íslenskra stórkaupmanna verið kaþólskari en páfinn og ekki séð sólina fyrir tilskipuninni. Meira að segja voru Neytendasamtökin ansi jákvæð í umsögn sinni, þó svo að Evrópsku neytendasamtökin hafi fjölmargar og alvarlegar athugsemdir fram að færa. Það má lesa umsagnir þessara aðila, ásamt umsögn BSRB og ASÍ um þjónustutilskipina á vef utanríkisráðuneytisins. (sjá slóð: http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees//nr/2541 )

En björninn er hins vegar ekki unninn enn. Framkvæmdastjórnin hefur sagt að hún muni ekki falla frá þjónustutilskipuninni, þó svo hún lofi að sníða af henni helstu vankannta. Ætlar hún að leggja fram breytingartillögur sínar þegar Evrópuþingið hefur lokið fyrstu umræðu sinni um tilskipunina, sem verður vonandi á næstu vikum. En það eru fleiri vankantar á þjónustutilskipuninni en upprunalandsreglan. Verkalýðshreyfingin sem og langflestir gagnrýnendur tilskipunarinnar hafa bent á að Lissabon-markmið ESB voru þríþætt: Að gera ESB að samkeppnishæfasta hagkerfi í heiminum, að auka félagslega samþættingu og vinna að þessu með sjálfbæra þróun í huga. Ef það á að endurvinna þjóustutilskipunina með þessi markmið í huga, þá hlýtur niðurstaðan að verða gjörbreytt tilskipun, þar sem Bolkenstein og félgar hunsuðu þessa þætti algerlega við smíði hennar. Reyndar litu þeir á félagslega samþættingu, sjálfbæra þróun, sköpun starfa og hærri laun, ýmist sem hindrun í vegi fyrir markmiðum tilskipunarinnar eða sem algjör undirmarkmið sem ættu að leysast af sjálfu sér þegar markaðslausnir tilskipunarinnar færu að virka.

Þá heggur tilskipunin mjög að rótum velferðarkerfisins og almannaþjónustu og takmarkar í raun alla möguleika lýðræðislegra stjórnvalda til að beita stjórnvaldsaðgerðum til að örva eða efla ákveðna starfsstéttir, atvinnuvegi eða byggðarlög. Hvernig fundin verður lausn á þessum neikvæðu afleiðingum þjónustutilskipunarinnar á eftir að koma í ljós, en þangað til svo verður mun verkalýðshreyfingin standa vaktina og halda áfram að benda á lausnir sem eru til hagsbóta almenningi og velferðarsamfélaginu.

En í dag þá hrósum við sigri, þó endanlegur sigur sé ekki í höfn. Ég óska landsmönnum öllum og íbúum Evrópu til hamingju!

Páll H. Hannesson