GLÆPUR OG REFSING
Í gær sat ég á pöllum borgarstjórnar á sérstökum aukafundi um orkumál þar sem efni fundarins var umræða um sameiningu REI og GGE. Í stuttu máli sagt varð ég fyrir vonbrigðum með umræðuna sem komst aldrei lengra en inn í andyri völundarhússins. Gagnrýni Dags og Svandísar fjallaði einvörðungu um aðdragandann að glæpnum en ekki glæpinn sjálfann, ef svo má að orði komast. Gagnrýnin beindist réttilega að þverbrotnum stjórnsýslureglum og eiginhagsmunapoti í formi kaupréttarsamninga þegar menn voru samtímis að hygla hvor að öðrum og gera hvorn annan samsekan í glæpnum og ákveða svo að skella á fundi með engum fyrirvara til að minnihlutinn geti ekki gripið til mótaðgerða. Slíkt kallast ýmist samsæri eða ráðbrugg og beinist fyrst og síðast gegn lýðræðinu. Það var aðdragandinn að glæpnum sem að er sjálfur samningurinn um samruna REI við Geysi Green Energy.
Átti REI að kaupa fyrirtæki og selja?
Nú kann það út fyrir sig að koma til greina að þessi fyrirtæki sameinist enda tilgangur og tilurð samnings um það þá skýr og greinilegur og ákvörðun tekin að fenginni lýðræðislegri umræðu og samkvæmt gegnsærri og opinni stjórnsýsluhefð. Og tilgangurinn væri þá að efla notkun vistvænnar orku í samvinnu við sveitarstjórnir og yfirvöld annars staðar í heiminum. Tilgangurinn á ekki að vera sá sem Gísli Marteinn sagði í morgunútvarpi RÚV að ætti að vera tilgangur REI, þ.e. „að kaupa upp fyrirtæki, sprengja það upp, reka fólk og selja það aftur.“ Vissi fólk annars að Sjálfstæðisflokkurinn taldi það vera tilgang REI þegar fyrirtækið var stofnað?
Sjálfstæðisflokkurinn að einkavæða almannaþjónustu og auðlindir
Það sem er ískyggilegt í þessum samningi, glæpurinn sjálfur, er að hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja, er yfirfærður til REI áður en að REI er sameinað GGE. Af hverju er það glæpur í þessu samhengi? Af því, rétt eins og Vilhjálmur borgarstjóri las sjálfur upp á borgarstjórnarfundinum í gær, þá var REI stofnað til að vera í útrás, eignir þess samanstóðu einvörðungu að útrásarfyrirtækjum OR sem voru sameinuð í REI og leggja átti með fyrirtækinu tvo milljarða. Það hefur aldrei komið til umræðu að aðrar eignir OR yrðu færðar inn í fyrirtækið REI, enda hefði það ekki verið í takt við tilgang eða tilurð fyrirtækisins. Það er í raun jafn órökrétt að leggja hlut OR í HS inn í REI eins og það hefði verið að leggja aðrar eignir OR hér á landi í fyrirtækið hvort sem það hefði verið höfuðstöðvar OR eða Ljósavatnsvirkjun. Með þessum gerningi var stjórn OR undir forystu borgarstjóra Reykjavíkur, án undangenginnar umræðu, að tryggja einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Þar með var almannaþjónustufyrirtæki með grunnþjónustu og náttúruauðlindir komið í hendur fjármálabraskara. Það er því rökrétt að spyrja hvort það hafi komið um það krafa frá GGE að hlutur OR í HS fylgdi með í kaupunum og ef svo er, af hverju í ósköpunum var látið undan þeirri kröfu? Eða fann Vilhjálmur upp á þessu sjálfur? Eða Bjarni Ármannsson?
Fjölmiðlar sofandi?
Fyrir samrunasamning REI og GGE, átti GGE 32% í HS og OR 16%. Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar skulu ekki hafa kveikt betur á þessum vendipunkti og spurt hvernig á þessu standi og hver vélaði þar um? Það ætti að auðvelda þeim spurningarnar að þessi gerningur stjórnar OR er þvert á þá stefnu sem borgarstjóri segist fylgja um að ekki eigi að einkavæða OR! Talandi um tvískinnung! Framhjá þessum punkti hefur borgarstjórinn og Bingi komið sér í umræðunni og um hann var ekki rætt sem meginefni máls, þann einn og hálfan tíma sem ég sat borgarstjórnarfundinn í gær. Og fjölmiðlar virðast hafa gleypt fréttatilkynninguna um samruna REI og GGE þar sem stendur að þessir aðilar eigi 48% í HS, án þess að spyrja spurninga.
Samrunasamninginn upp á borðið!
Hitt er svo annað mál, sem hefur verið blandað inn í umræðuna í fjölmiðlum með þeim hætti að ég held að almenningur hætti alveg að skilja hver er hvað og hvað er hvurs, að hugsanlega stendur til að Hafnarfjarðarbær selji sinn hlut í HS upp á 15,4%. Þar hefur OR sýnt áhuga á kaupunum og til marks um hversu mikilvægt það er að samningurinn um samruna REI og GGE verði gerður opinber, er að Guðmundur Þóroddson segir að samkvæmt þeim samningi ætti þau kaup OR á hlut Hafnarfjarðar að renna beint inn í REI, sem hækkaði þá hlut GGE/REI í HS upp í 64% af hlutafé! Á hinn bóginn staðhæfir Vilhjálmur borgarstjóri að alls ekki standi til, kaupi OR hlut Hafnarfjarðar, að sá hlutur gangi inn í REI/GGE! Er þetta gagnsæ opinber stjórnsýsla?! Krafan er því að samningurinn um samruna REI og GGE verði lagður á borðið, sem hluta af þeim gögnum máls sem Vilhjálmur borgarstjóri lýsti sig reiðubúinn að veita aðgang að!
Samningurinn verði ógiltur!
Viðbrögð Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra í Hafnarfirði hafa hins vegar jákvæð og skynsöm. Hann vill hugsa um almannahagsmuni í bráð og lengd og er því alls ekki áfjáður í að selja hlut Hafnarfjarðar í HS. Hann á að sjálfsögðu að gera þá kröfu að samrunasamningi REI og GGE verði hnekkt, á þeirri forsendu að þar hafi forkaupsréttur Hafnarfjarðar á hlutum í HS, (sbr. 9.gr. samþykkta HS), verið sniðgenginn. Það mun þá leggjast við kröfu Svandísar Svavarsdóttur um að fundurinn verði dæmdur ómerkur og samningurinn þar með, sem nú er á leið fyrir dómstóla. Meira að segja Björn Ingi hefur ljáð máls á því að kannski væri rétt að endurtaka þennan eigandafund! Er furða þó að umboðsmaður Alþingis krefjist þess að þessi gerð verði útskýrð!
Prinsipp Sjálfstæðisflokkins?
Af fundinum í borgarstjórn er það helst annað að segja að ræða Vilhjálms borgarstjóra var pínleg áheyrnar. Hvernig má annað vera, þegar maðurinn heldur því fram með réttu að OR hafi í áravís stundað útrás í samvinnu við einkaaðila með góðum árangri og í góðri sátt allra og verður síðan í sömu setningu að halda því fram að slík útrás í samvinnu einkaaðila sé á móti meginprinsippum Sjálfstæðisflokksins og því verði að selja REI hið snarasta?!! Enda benti Björn Ingi vendilega á það í sinni ræðu að slík útrás OR í samvinnu við einkaaðila hefði átt sér stað með blessun Sjálfstæðisflokksins og ekki væri ástæða til að hnika af þeirri braut.
Sjálfstæðisflokkurinn axli sína pólitísku ábyrgð!
Borgarstjóri sagðist hafa axlað pólitíska ábyrgð – gagnvart borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins! Ég segi eins og Svandís – er hann þá bara borgarstjóri Sjálfstæðisflokkins, en ekki allra Reykvíkinga? Það er ljóst að staða Vilhjálms og Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn veiktist enn frekar á fundinum í gær og var hún þó ekki beisin. Það er kominn tími til að flokkurinn axli sína pólitísku ábyrgð fyrir öllum Reykvíkingum og feli öðrum stjórn borgarinnar. Kannski það muni gerast hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur frumkvæði að því eður ei og þá fyrr en seinna! Fyrir valdapólitíkusana í Sjálfstæðisflokknum væri það refsing við hæfi.