Peningarnir tala – aðrir skulu þegja – eða hvað?
Alþingismanni er boðið að tala á Sjómannadaginn á Akureyri. Þingmaðurinn er Árni Steinar Jóhannsson talsmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Alþingi í sjávarútvegsmálum. Í vetur leið kynnti hann stefnu flokksins þar sem meðal annars er lagt til að núverandi kvótakerfi verði fyrnt á næstu tuttugu árum. Fyrir hönd VG setti þingmaðurinn fram ítarlegar tillögur um hvernig standa megi að málum, hvernig hagur byggðarlaganna verði best tryggður, hagur sjómanna og hagur fiskvinnslufólks. En látum þessar tillögur liggja á milli hluta að sinni að öðru leyti en því að þær þykja ógna þeim aðilum sem hafa verið að sölsa undir sig sameign þjóðarinnar, braska með hana á milljarðavísu. Alla vega höfðu fulltrúar stórútgerðarinnar samband við Sjómannadagsráð á Akureyri og höfðu í hótunum. Yrði Árni Steinar Jóhannsson ræðumaður þá yrði eitthvað lítið um fjárhagslegan stuðning Samherja og Útgerðarfélags Akureyrar við hátíðahöldin.
Árna Steinari skipt út fyrir Valgerði
Í framhaldinu er Árna Steinari Jóhannssyni tilkynnt að nærveru hans verði ekki óskað við hljóðnemann á Sjómannadaginn. Ákveðið hafi verið að finna einhvern útgerðinni þóknanlegri. Síðar er tilkynnt að ræðumaður verði Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra. Í fjölmiðlum um kvöldið kom fram að hún hefði sagt að tímabært væri að hætta að gagnrýna kvótakerfið.
Hér höfum við fengið innsýn í íslenskt samfélag, hvernig auður og vald fléttast saman og hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar ganga erinda auðvaldsins. Menn stýra því í krafti auðs og valda hvaða mál fást tekin á dagskrá og hverjir fá að tjá sig. Fyrst að reka má einstaklinga sem leyfa sér að gagnrýna Landssímann, af hverju ættu útgerðarforstjórar þá ekki að geta rekið einn óþægilegan ræðumann?
Í raun er hér verið að vanvirða málfrelsið og þá lýðræðishefð sem við viljum búa við í landinu. Allir frjálshuga menn þurfa að sameinast um að vinda ofan af þessari óheillaþróun.