PÉTUR Á EKÓTRIPPINU
„Hins vegar er sök, ábyrgð og heimska Ögmundar Jónassonar og Lilju Mósesdóttur mikil." Enn skrifar Pétur flokksbróðir þinn lesendabréf. Sakar ykkur Lilju Mósesdóttur um heimsku vegna andstöðu ykkar við Icesave-samninginn. Sem Pétri finnst svo góður að hann myndi aldrei vilja betri samning. Hvers vegna skyldi það vera - er það ekki dálítið skrýtin afstaða og andstæð hagsmunum þjóðarinnar?
En mín vegna má Pétur ríða áfram á hnakklausu og óbeislaðu ekótrippi því ég held að enginn hafi lengur áhuga á málflutningi hans í Icesave-málinu. Ekki einu sinni flokkshestarnir í VG og Samfylkingunni. Icesave-málið er komið í nýjan farveg. Þó Pétri sé ekkert um það gefið held ég að honum væri eflaust greiði gerður að VG losaði hann við ekótrippið og gæfi honum nýjan og betri hest með öllu tilheyrandi. Það er nefnilega ósköp dapurt að sjá þennan ágæta flokksbróður ráðast á þá þingmenn flokksins sem hafa sýnt hvað mestan áhuga á kjörum almennings við þær erfiðu aðstæður sem nú blasa við.
Ég er viss um að Pétur þekkir söguna það vel að mikilvægt er fyrir raunverulegan sósíalískan flokk að hafa í sinni framvarðarsveit öfluga málsvara launafólks sem þekkja til af eigin raun og hafa lagt sig alla fram í baráttu fyrir kjörum launafólks. Þar á ég að sjálfsögðu við Ögmund Jónasson. Ég vona að þar hafi ekki orðið nein breyting á - ég vona að flokksforystan reyni ekki að kæfa þær raddir sem eru róttækum jafnaðmannaflokki mikilvægastar.
Helga Þorsteinsdóttir