PÍSLARGANGAN Í HAFNARFJARÐARKIRKJU OG HÁGÆÐA TÓNLIST
Séra Gunnþór Ingason, sóknarprestur í Hafnafjarðarkirkju, efndi í dag – Föstudaginn langa - til sérstakrar vöku í kirkju sinni þar sem hann fékk fulltrúa fjögurra stjórnmálaflokka til þess að lesa úr Jóhannesarguðspjalli um Píslargöngu Krists. Auk mín lásu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Samúel Örn Erlingsson og Árni Páll Árnason. Þegar við höfðum lokið lestrinum svöruðum við spurningunni hvað Píslarsagan segði okkur. Þetta gerðum við hvert á sinn hátt.
Stundin í Hafnarfjarðarkirkju er eftirminnileg, ekki síst vegna þeirrar tónlistar sem flutt var. Guðmundur Sigurðsson lék listavel á orgel og fiðluleikur Hjörleifs Valssonar var með hreinum ólíkindum. Fólk sat sem bergnumið í kirkjunni. Kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju söng en forsöngvari var Þórunn Björnsdóttir, sem heillaði kirkjugesti með söng sínum.
Á efnisskrá voru auk sálma, verk eftir Handel, Vivaldi og Jón Leifs. Athöfnin tók rúma klukkustund. Var það ekki Hjörleifi Valssyni sem áskotnaðist nýlega Stradivaríus fiðla? Tónarnir úr Hafnarfjarðarkirkju fylgja mér enn. Þeir voru alla vega í Stradivaríus gæðaflokki!
Eftirfarandi er það sem ég sagði um skilning minn á Píslarsögunni:
"Hvað segir Píslarsagan mér?
Hún segir frá þjánngu hins saklausa. Hún segir sögu sem hefur fylgt mannkyninu alla tíð. Guð minn, Guð minn, hví heur þú yfirgefið mig? Þessi orð Jesú Krsits hafa menn sagt á sinn hátt á öllum öldum og á öllum tungum. Þetta ákall er sammannlegt, þessi hugsun hefur vaknað með öllum þeim sem hefur fundist þeir vera glataðir og yfirgefnir. Þetta hróp örvæntingarinnar er sameiginlegt fórnarlömbum Rannsóknarrétarins á miðöldum, þrælunum sem fluttir voru í hlekkjum yfir Atlantshafið, fórnarlömbunum í útrýmingarbúðum nasista, föngunum í Sovétgúlaginu, í Guantanamó og Abu Graib.
Hví hefur þú yfirgefið mig? Þessi hugsun hlýtur að hafa vaknað með ungu móðurinni sem fæddi barn sitt andvana, fjölfatlaða manninum sem meinaður var aðgangur að samfélagi sínu, heyrnarlausu konunni sem neitað var um menntun og móðurmál og finnst hún hafa verið rænd lífi sínu...Píslargangan á að vera okkur áminning um allt það ranglæti sem er að finna í mannlegu samfélagi og hún á að örva næmleika okkar fyrir því sem er að gerast í kringum okkur, ekki fyrir tvö þúsund árum heldur núna. Kristnin kennir að í hinum þjáða og forsmáða eigi sérhver maður að sjá Jesúm Krsit og píslir hans.
Á krossinum var Jesús einn. En boðskapurinn er sá að þannig eigi það ekki að vera. Píslarsagan fjallar um samkenndina og hún fjallar um vonina. Þegar allt um þrýtur, þegar svartnættið umlykur tilveruna og ekkert virðist framundan þá er engu að síður til von. Píslarsögunni lýkur ekki á Golgatahæð heldur með upprisu Páskanna.
Boðskapur píslarsögunnar lýtur að staðfestu annars vegar, og réttlæti hins vegar, hvernig við þraukum í mótlæti og hvernig við breytum á réttlátan hátt. Píndur saklaus maður þraukar vegna vonarinnar. Og í andstreyminu, þegar manneskjan stendur frammi fyrir hatri og valdbeitingu þá á hún að bregðast við með miskunnsemi og sáttfýsi. Það er boðskapur Píslarsögu Jesú Krists: Kærleikur. Faðir, fyrrgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Kærleikurinn er upphaf og endir. Píslarsagan og fagnaðarerindi
Þannig skil ég Píslarsöguna.