Plebbar
Eitt nýtt hugtakið sem tekið er upp í frábærri nýrri útgáfu Íslenskrar orðabókar er hugtakið plebbi. Plebbi er ómenningarlegur eða lágkúrulegur maður. Hvor merkingin sem er virðist lýsa vel þeim stjórnmálamönnum, hugmyndafræðingum og herfræðingum sem nýttu sér hræðilega atburði í New York haustið 2001 til endanlegrar valdatöku vestur í Bandaríkjunum. Með hjálp nokkurra hæstaréttardómara var George W. Bush dæmdur sigur í forsetakosningum og var það fyrsti liður í valdatökunni. Stríðsvæðing og afnám borgaralegra réttinda í Bandaríkjunum í kjölfar árásarinnar á saklausa borgara í New York var annar liður í valdatökunni. Þriðja stigið var stríðið gegn Afganistan og hið fjórða innrásin í Írak. Í Bandaríkjunum ríkir nú alræði plebbans. Þar eins og í öðrum alræðisríkjum sögunnar mega þeir sem hugsa öðru vísi, þeir sem eru annarrar skoðunar, þeir sem kjósa að tjá sig um og gagnrýna það sem gerst hefur í Bandaríkjunum þola árásir misheppnaðra einfeldninga sem tímabundið fara með völdin vestra og eru greinilega andlega og menningarlega skyldir Joseph Raymond McCarthy. Á næsta ári er liðin hálf öld frá því öldungadeildin bandaríska fordæmdi þennan plebba sjötta áratugarins í bandarískri sögu. Vonandi verða þau tímamót Bandaríkjamönnum tilefni til að íhuga hvers konar valdníðingar skriðu fram og nýttu sér áfallið sem bandaríska þjóðin varð fyrir 11. september, hvers konar furstaafbrigði þeir menn eru sem halda um valdataumana í Bandaríkunum árið 2003. Ég heyrði breskan blaðamann segja frá heimsókn sinni í Þjóðskjalasafnið íraska fyrri partinn í dag. Hann sagði frá þessu í fréttum BBC útvarpsins. Honum brá í brún þegar hann kom í safnið og sá að þar höfðu allar dyr verið sprengdar upp og æstur múgurinn var í óða önn að brenna skjöl og skriflegar heimildir frá því áður en nokkrum manni datt í huga að sigla út til landsins sem seinna var nefnt Ísland. Fyrir nokkrum dögum sáum við svo með eigin augum hvernig múgurinn hafði maskað óbætanlega fornmuni frá tíð Assyrríumanna svo dæmi sé tekið. Þeirra tími var tvö þúsund árum fyrir Krist. Hann taldi upp fréttamaðurin breski ráðuneytin og opinberu byggingarnar sem múgurinn hafði verið sendur til með eldfæri og gerði því skóna að það væri ekki hending sem réði því að aðeins tvö ráðuneyti í Bagdað hefðu sloppið. Annað er innanríkisráðuneytið þar sem er að finna upplýsingar sem öryggislögreglan íraska dró saman og olíumálaráðuneytið þar sem eru allar upplýsingar um olíuauðinn sem þessi kúgaða þjóð á. Hann sagði frá því blaðamaðurinn að hann hefði haft samband við yfirmenn í Bandaríkjaher og reynt að opna augu þeirra fyrir að verið væri að brenna gögn og heimildir sem bæði væru ómetanlegar og óbætanlegar. Hann taldi viðbrögðin við þessum atburðum benda til að einhverjir vildu skrúfa íraska menningu aftur fyrir tilbúinn núllpúnkt. Ég nefni þetta hér Ögmundur af því tveir menn héldu fyrir nokkrum dögum blaðamannafund í gamla þjóðskjalasafninu okkar Íslendinga. Þetta voru Anders Fogh Rasmussen og skoðanabróðir hans Davíð Oddsson. Báðir eru ötulir stuðningsmenn þeirra sem nú fara með völdin í Washington og báðir vildu í Þjóðmenningarhúsinu láta líta út sem sagan og menningin væri þeim ofarlega í huga þegar sá fyrrnefndi afhenti forsætisráðherra dönsk stjórnartíðindi á bók frá 1874. Þegar menn sjá kóranskt bókasafn brennt til ösku, skjöl sem hljóta að vera snar þáttur í sjálfsmynd þjóðar og þegar menn sjá þjóð- og alþjóðlegar menningarminjar malaðar mélinu smærra undir verndarvæng bandaríska hersins í Bagdað þá hlýtur maður að velti því fyrir sér hvort þjóðmenningar- og listamennirnir, Anders Fogh og Oddsson, efist ekki um réttmæti stuðningsins við Bush. Eða prestsfrúin formaður utanríkismálanefndar sem líka var lengi formaður menntamálanefndar, hvernig ætli kynsystur minni líði þegar hún horfir á? Kannski horfir hún ekki. Kannski sér hún ekkert. Kannski skortir þau líka hér þann skilning og vit sem þarf til að geta sett sig í annarra spor í þessu sambandi. Það sem verið er að gera í Írak jafnast á við að innrásarlið sæi til þess að vitleysingum í Reykjavík væri hleypt til að brenna handritin til ösku og leggja eld að Þjóðmenningarhúsinu og brenna helgustu gripi úr kirkjusögu landsins. Þeir sem stjórna svona athæfi eru plebbar, þeir sem styðja svona aðgerðir í smæð sinni eru plebbar og sá sem réttir upp höndina sem stuðningsmaður er líka plebbi. Fréttastofa ríkissjónvarpsins kemur svo enn einn ganginn fram eins og glassúrinn á plebbismann með því að kalla innrásarherinn “bandamenn”. Ætli þeir hafi spurt sig: Bandamenn hverra?
Ólína