PÓLITÍK EÐA FAGMENNSKA?
Birtist í Morgunblaðinu 17. 11. 08
Pólitík og fagmennsku hefur verið stillt upp sem andstæðum í umræðu um ný bankaráð hinna endurreistu ríkisbanka. Það er vafasöm nálgun.
Eftir að búið er að kafkeyra fjármálakerfi landsins með jafn hrikalegum afleiðingum og raun ber vitni, heyrist talað um hættuna sem stafi af því að hleypa Alþingi að stjórn bankanna. »Bankaráðin flokkspólitísk á ný« segir í fyrirsögn Fréttablaðsins fyrir nokkrum dögum. Vandlætingartónninn er augljós.
En hverjir hafa stýrt bönkunum síðustu fimm árin eða síðan þeir voru einkavæddir? Eru það ekki fagmenn: Hagfræðingar og verkfræðingar, fólk með alls konar gráður og stimpla upp á vasann sem fagmenn í peningamálum eða þá menn með áratuga reynslu úr fésýslu; fagmenn úr lífsins skóla.
Er ég þá að segja að það sé jafnvel slæmt að hafa aflað sér reynslu eða menntunar á fjármálasviðinu? Nei, ég er að segja að fagmennska án gagnrýninnar hugsunar sé slæm og að fagmennska og eiginhagsmunir rími illa saman. Það er kjarni máls.
Byrjað að sjá til sólar?
Þessa dagana heyrum við að mjög mismunandi sjónarmið eru uppi á meðal hagfræðinga um lausnir á efnahagsvandanum. Það er góðs viti. Byrjað að sjá til sólar út úr þokunni. Múghyggjan er aldrei varasamari en þegar hún birtist okkur sem vísindi.
Einstaklingur sem kann að hlusta á mismunandi sjónarmið og hefur til að bera dómgreind til að vega og meta markmið og mismunandi leiðir til að ná þeim, kann að vera betri stjórnandi en sá sem kann fagið en skortir dómgreindina. Svo getur þetta tvennt farið saman.
Ég fagna auknum lýðræðislegum áhrifum í fjármálalífinu. Stjórnmálaflokkarnir endurspegla mismunandi viðhorf í þjóðfélaginu. Með aðkomu þeirra er ólíklegra en ella að einsleit hugsun verði ríkjandi við stjórn bankanna eins og verið hefur.
Forðumst mistök fortíðar
Hitt þarf að vera kristaltært, að þetta á ekki að vera fortíðin með sínum mistökum upp á nýtt! Mistök, sem kunna að hafa verið gerð fyrr á tíð, á ekki að endurtaka heldur verður að tryggja í hvívetna heiðarleg og opin vinnubrögð þar sem viðskiptavinir banka eru hvorki látnir njóta né gjalda flokkstengsla. Það má aldrei gerast. Aldrei. Slíka drauga eigum við að skilja eftir í gröfinni.
Endurreistir bankar í almannaeign verða að lúta ströngu og lýðræðislegu aðhaldi frá almannavaldinu. Auðvaldið hefur sýnt okkur hversu vanmegna það er - og ófaglegt ef því er að skipta.
Niðurstaðan er sú að fjölbreytni í viðhorfum er eftirsóknarverð. Það eru fagleg vinnubrögð líka. Prófgráður tryggja hvorugt.
Höfundur er alþingismaður