Fara í efni

PÓLITÍKUSAR OG PAPPÍRSPÍRAMÍDAR

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.11.15.
Í samfélaginu er nú að myndast stemning fyrir því að hægt sé að útrýma flestum vandamálum með verkfræðilegum lausnum. Svokallað höfrungaghlaup á vinnumarkaði  verði liðin tíð með nýrri tækni við kjarasamninga þar sem allir fallast á það á þjóðarsáttarvísu að launahækkanir verði aldrei meiri en útflutningsgreinar telja sér fært að greiða. Hlegið er að okkur sem fannst höfrungahlaupið á liðnu ári hafi verið til góðs, hrist upp í þjóðfélaginu og lækkað  rostann í atvinnurekendum sem aðeins kunna að hugsa stórt fyrir sjálfa sig.

Og nú eru það ríkisfjármálin. Frumvarp um Opinber fjármál nýtur mikillar hylli á Alþingi. Það er klæðskerasaumað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og bindur í lög að hið opinbera megi ekki taka lán sem neinu nemur - helmingi lægra þak en Evrópusambandið negldi inn í Maastricht skilyrðin -  og er þar með opnuð leiðin fyrir einkafjármagnið, sem býr við engin slík skuldaþök, að hefja aukna sókn inn í velferðarþjónustuna.

Samfélagsverkfræðingarnir sem hönnuðu herlegheitin segja okkur að hér eftir eigi Alþingi aðeins að sinna stóru línunum, ákveða fjárframlag til heilla málaflokka en ráðuneytin síðan að útdeila til stofnana. Allt eigi þetta þó að gerast undir ströngu eftirliti „Fjármálaráðs". Það skal skipað þremur „óvilhöllum" einstaklingum með þekkingu á ríkisfjármálum.  Og vel að merkja, þeir skulu hafa háskólamenntun. Þetta gleymdist í upphaflegum frumvarpstexta en nú er komin fram breytingartillaga þar sem úr þessu er bætt. Að vísu vitum við ekki hvort sú menntun skuli vera verkfræði, hagfræði danska eða siðfræði.

Varla það síðasta. Því þetta frumvarp fjallar ekki um neitt nema peninga. Það hefur alveg gleymst að geta þess að Alþingi beri að horfa til annarra laga en fjárlaga einna. Þess vegna verður engin eftirlitsnefnd til að passa upp á lagalegan rétt til heilbrigðisþjónustu , húsnæðis og svo framvegis. Og það sem ég sé fyrir mér er að sú umræða sem á hverju ári hefur orðið um einstakar stofnanir og byggðarlög í tengslum við fjárlögin, muni hverfa inn í ráðuneytin og þar með verður klippt á mikilvægan lýðræðislegan naflastreng.

Að vísu fjalla nokkrar lagaklásúlur um hvernig hægt verður að flytja verkefni á milli áður samþykktra  liða fjárlaga og hvernig skuli borið sig að í pappírslegu tilliti í því efni. Það er hins vegar flókið ferli.

Ekki að undra að nýja nálgunin við fjárlagagerð kalli á hálfan milljarð í aukum útgjöldum í stefnumörkun, áætlanagerð, stjórnun, eftrilit, reikningshald, skýrslugerð, hagstjórn og eftirlit með henni, upplýsingakerfi og áætlanakerfi, svo vitnað sé í aðdáunarfulla álitsgerð fjármálaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins um frumvarpið.

Í umræðu um málið var spurt hvort þetta væri viðbótarskostnaður. Framsögumaður taldi að hægt væri að hagræða á móti. Til dæmis mætti fækka fjármálaskrifstofum ráðuneyta og hafa bara eina: Fjármálastofnun ríkisins!
Kannski mætti finna henni verustað í pappírspíramídanum sem nú verður augljóslega til í Stjórnarráði Íslands.