Fara í efni

PÓLITÍSK MISNOTKUN ÚTVARPSSTJÓRA

Greint var frá því í fréttum í gær að samkvæmt skoðanakönnun væri meirihluti þjóðarinnar hlynntur því að Ríkisútvarpið yrði í almannaeign þótt því yrði breytt í hlutafélag. Svo var að skilja á fréttum. Þannig var þó ekki spurt í skoðanakönnun Gallups. Byrjað var á að staðhæfa að til stæði að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins og spurt í framhaldinu hvort fólk væri almennt ánægt eða óánægt „með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag?“ Með þessari spurningu er verið að gefa í skyn að þetta rekstrarfyrirkomulag sé þegar orðið að staðreynd og í ljósi fyrri spurninga í könnuninni þar sem fram kemur almenn ánægja með Ríkisútvarpið kemur niðurstaðan ekki á óvart. Fólk er ánægt með það fyrirkomulag sem er í dag. Niðurstaðan er svo kynnt þannig að yfir 60% séu ánægðir með að RÚV verði breytt í hlutafélag í ríkiseigu og að um 40% séu andvígir. Þess er að engu getið að tæp 28% höfðu ekki skoðun á málinu og voru því einungis um 46% ánægð með „þetta nýja rekstrarfyrirkomulag“. Sem aðspurðir geta varla haft skoðun á þar sem enginn hefur af því neina reynslu enn sem komið er!

En snúum okkur að spurningunni sjálfri. Hvers vegna var ekki spurt hvort fólk væri því yfirleitt fylgjandi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi? Getur verið að ástæðan fyrir því að þannig var ekki spurt hafi verið pólitísk? Að þeir sem pöntuðu könnun Gallups séu að berjast fyrir því á hinum pólitíska vettvangi að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi? En hverjir óskuðu eftir þessari könnun? Það voru forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og þá væntanlega að undirlagi Páls Magnússonar útvarpsstjóra, því útvarpsráð kom ekki að þessari ákvörðun. Útvarpsstjórinn Páll Magnússon hefur verið í pólitísku slagtogi með einkavæðingarsinnum á Alþingi um að gera RÚV að hlutafélagi. Þar er ég ósammála útvarpsstjóra en viðurkenni að hann á rétt til sinnar sannfæringar eins og aðrir. En þá ber honum líka að berjast heiðarlega fyrir henni. Það gerir hann ekki með því að spyrja misvísandi spurninga í nafni Ríkisútvarpsins. Slíkt kallast misnotkun, í þessu tilfelli pólitísk misnotkun. Það sæmir ekki forsvarsmanni Ríkisútvarpsins.