PÓLITÍSKT EINELTI?
Stundum myndast sefjun í þjóðfélaginu þar sem einn étur upp eftir öðrum. Slík sefjun beinist iðulega að einstaklingum. Annað hvort eru þeir hafnir upp til skýjanna eða þeir rakkaðir niður. Allir telja sig hafa skotleyfi. Þetta tengist oftar en ekki leiðtogahyggju, þegar menn telja stjórnmál fremur snúast um menn en málefni. Andhverfan við að setja foringja á stall er að brjóta hina niður sem ekki falla í kramið í það skiptið. Þetta eru tvær hliðar á sama peningi. Foringjadýrkun og fordæming á persónum eru af sama meiði.
Ég fæ ekki betur séð og heyrt en Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri verði nú fyrir pólitísku einelti af þessu tagi. Um helgina hlustaði ég á nokkra spjallþætti í útvarpi og sjónvarpi. Sammerkt með þeim flestum var nöldur í hennar garð. Hún á ekki að hafa risið undir væntingum, ekki verið eins áberandi og við hæfi sé í þessu embætti, og svo framvegis. Ekki var minnst á málefni eða hennar verk yfirleitt einu aukateknu orði. Sannast sagna veit ég ekki hverju þetta sætir. Mín tilfinning er sú að þetta sé einfaldlega hinn gamalkunni kjaftavaðall þar sem einn étur upp eftir öðrum.
Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafa ekki tekið þátt í þessu leiðindasífri í garð borgarstjórans. Í VG höfum við á að skipa úrvalssveit á lista fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Það sem meira er, okkar frambjóðendur koma til með að bera uppi málefni sem eru mikilvæg samfélaginu og eiga erindi inn í samtíð og framtíð. Við skulum ræða við Steinunni Valdísi og aðra félaga hennar í Samfylkingunni á grundvelli málefna eins og við höfum reynt að gera hingað til. Gildir þá einu hverja Samfylkingin kemur til með að velja á framboðslista sinn í komandi kosningum. Mikilvægt er að þessir flokkar nái áfram saman um stjórn borgarinnar.