Fara í efni

PÓLITÍSKT MISFERLI – HVERNIG VERÐUR ÁBYRGÐIN ÖXLUÐ?


Aðkoma stjórnvalda að Kárahnjúkavirkjun tekur á sig sífellt dekkri mynd. Að vísu hefur löngum verið ljóst að allar rannsóknir og kannanir af hálfu ríkisstjórnarinnar voru til málamynda. Pólitísk ákvörðun hafði verið tekin um að reisa virkjunina til þess að þjóna einum álframleiðanda. Eftir það hrein ekkert á stjórnvöldum.

Allar götur frá því þessi ákvörðun var tekin hafa legið fyrir mjög sterk rök gegn þessari framkvæmd: Rök sem tengjast náttúru- og umhverfisvernd og rök sem varða efnahagsforsendur. Furðu sætti hve lítinn áhuga fylgismenn framkvæmdanna á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur sýndu þessum röksemdum á meðan framkvæmdirnar voru á ákvörðunarstiginu.

Á þessum tíma komu einnig fram efasemdir jarðvísindamanna en það er fyrst nú að í ljós kemur að skýrslum um áhættuþætti sem tengjast virkjunarframkvæmdunum var beinlínis haldið leyndum fyrir Alþingi. Þetta hefur m.a. komið fram í viðtölum við Grím Björnsson, vísindamann á þessu sviði, sem sendi frá sér ítarlega skýrslu um efnið í ársbyrjun 2002. Orkumálastjóri og iðnaðarráðherra fengu skýrsluna en þessir aðilar kröfðust þess að Grímur færi með innihald hennar sem trúnaðarmál!
Þetta er eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið í íslenskum stjórnmálum í langan tíma og hlýtur að flokkast undir pólitískt misferli. Þingflokkur Vinstrihtreyfingarinnar græns framboðs hefur krafist þess að iðnaðarráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum.

Iðnaðarráðherra er fulltrúi allrar ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ef iðnaðarráðherra kemur ekki fram með viðhlítandi skýringar, sem reyndar er vandséð hverjar eru, hlýtur ríkisstjórnin að þurfa að axla pólitíska ábyrgð á málinu. Eðlilegast væri að Alþingi kæmi saman þegar í stað til þess að fjalla um þá stöðu sem upp er komin. Ríkisstjórnin verður nú þegar að viðurkenna  hve alvarlegt málið er og jafnframt skýra frá því á hvern hátt hún hyggst axla pólitíska ábyrgð sína.

 Eftirfarandi er ályktun þingflokks VG frá í dag: “Nú liggur fyrir að greinargerð Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings, um Kárahnjúkavirkjun, frá í febrúar 2002, var haldið leyndri fyrir alþingismönnum á þeim tíma sem ákvörðun um framkvæmdina var til meðferðar á Alþingi. Orkumálastjóri og iðnaðarráðherra virðast hafa ákveðið að greinargerðin skyldi fara leynt. Ekki verður annað séð en stjórnvöld hafi þannig vísvitandi leynt Alþingi mikilvægum upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúka. Greinargerðin varðaði þætti sem þingmenn ræddu ítarlega á þessum tíma, jafnt rekstrarhagkvæmni framkvæmdarinnar sem og grafalvarleg öryggisatriði virkjunarinnar. Það er afdráttarlaus krafa þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að bæði fyrrverandi og núverandi iðnaðarráðherrar geri hreint fyrir sínum dyrum og að Alþingi verði kallað saman ef með þarf.”