PÖSSUM UPP Á MATVÆLAÖRYGGIÐ!
Sæll Ögmundur
Ég rakst á þína ágætu vefsíðu, og las pistil Skarphéðins Gunnarssonar og svar þitt til hans. Þú hefur góða vefsíðu Ögmundur og mun ég opna hana oftar. Þú ættir að hafa fréttbréf til að senda manni, svona til að minna mann á!
Þú hefur 100% rétt fyrir þér Ögmundur, og það er erfitt að ímynda sér Íslendinga eins illa upplýsta og þessi Skarphéðinn er, um stöðu matvælaöryggis í heiminum. Og að reyna svo að blanda mataröryggi við pólitík með því að segja "Það má skilja á málflutningi ykkar VG og hluta Framsóknar " bla.bla.bla...... er ómerkilegt og heimskulegt. Auðvitað á mataröryggi ekki að koma pólitík við frekar en bifreiðaslys, fótbrot eða annar mannlegur kvilli, já jafnvel persónuleg heimska fólks sem sannast hefur að fólk getur drepið sig á. Nema jú, ef fólk ætlar sér að eitra fyrir sér og þjóð sinni eða að selja eitraðan mat og eitthvað stjórnmálafólk væri á svo lágu plani að það teldi það allt í lagi! Þá væri auðvitað eðlilegt að heilbrigðir stjórnmálamenn, sérfræðingar ásamt öðrum samborgurum létu heyra til sín!
Þú mátt vita að konan mín er háskólagenginn hjúkrunarfræðingur, lyfjafræðingur og matvæla- og næringarfræðingur. Ég persónulega hef unnið mikið í ýmsum útlöndum og hef því farið víða. Einu sinni var ég á 5 stjörnu hóteli í "þriðjaheimslandi" og fékk þar heiftarlega matareitrun sem ég mun ekki gleyma. Ég ræddi þetta við konu mína þegar heim kom og hún sagði mér hversu matareitrun getur verið hættuleg, lúmsk og slungin.
Ég fór á námskeið á meðan ég var erlendis viðvíkjandi matareitrun og sannfærði konu mína um að við færum saman á alþjóðanámskeið um matareitrun til að fá alþjóðaviðurkenningu og leyfi til að gefa fyrirlestra og kennslu um matareitrun og varnir gegn henni, sem við og gerðum. Síðan störfuðum við þetta saman í "aukavinnu" og byrjuðum í því landi sem ég fékk mína matareitrun, og lifir á ferðamannabransanum.
Málið er Ögmundur, að rannsóknir og skýrslur sanna að hundruð þúsunda manns veikjast af matareitrun á ári hverju í iðnvæddu löndunum og hvað þá í "þriðja heiminum " þar sem lítið er um rannsóknir og upplýsingar. Það þarf ekki einusinni að gera annað en að slá inn "Food Safety" á "Google" til að fá tilheyrandi upplýsingar um mataröryggi, þá matareitrun um heim allan!
Ég eins og flestir Íslendingar borðaði hrá egg í gamla daga á Íslandinu góða og mér finnst steik og hamborgari, stundum hrár, ekki verri en öðrum, en það skal enginn efast um að skoðun mín á þeirri hegðun hefur gjörbreyst með aukinni þekkingu. Ég leyfi mér að taka fram að mér þykir íslenskt lambakjöt, saltkjöt, hrosskjöt og nær allur fiskur langbesta fæðan. Það má vel vera að hættan sé minni á Íslandi en í útlöndum, en hún er næg til þess að fólk skal fara varlega og spila ekki happadrætti með heilsu sína gagnvart heilbrigði þess matar sem neytt er! Það er enginn efi að íslenskur matur er mikið heilsusamari (jafnvel betri) en í útlöndum, en það er ekki að ástæðulausu, né fyrirhafnarlaust því þar er að þakka langri sögu og arfleifð og duglegu þekkingarfólki!
Það skal hafa í huga að lönd eins og Bandaríkin og England hafa tapað hundruð billjónum dollara, vegna markaða sem hafa neitað að leyfa matvæla innflutning frá þeim. Svo ekki sé talað um svæða Asíu, Suður Ameríku og Afríku. Þetta er grafalvarlegt mál sem á að vera algjörlega óháð pólitík. En ef Skarphéðinn hefur rétt fyrir sér að aðeins stjórnmálamenn VG og svo Guðni Framsóknarmaður vilji vernda, styrkja og þróa íslenska matvælaframleiðslu á Íslandi, þá matvæli landsmanna, nú þá er eins gott að þorri fólks fari að hlusta betur á Ögmund, VG og Guðna, og hver veit þá nema að þetta fólk hafi ekki rétt fyrir sér í fjölda öðrum þjóðmálum.
Að vernda matvæli þjóðarinnar, þýðir að koma í veg fyrir innflutning á varhugaverðri matarvöru frá útlöndum og menga allsekki neinn hlekk ferils íslenskar matvöruframleiðslu frá framleiðslu, þá frá landbúnaði og veiðum, til neyslu og útflutningi! Þetta er ekki aðeins fjárhagslega nauðsynlegt fyrir þjóðina, þetta er lífsnauðsynlegt! Þeir sem hafa verndað íslenskan landbúnað hingað til, hafa vitað upp á hár hvað þeir eru að gera!
Virðingarfyllst,
Helgi Geirsson
Þakka bréfið Helgi. Þú nefnir fréttabréf, það fá allir - um það bil vikulega - sem skrá sig á listann.
Kv.
Ögmundur