Public Service International (PSI) – Alþjóðasamband starfsfólks í almannaþjónustu
Frá þriðjudegi til föstudags hefur staðið yfir fundur í stjórn PSI en þar á ég sæti. Stjórnarmenn koma frá öllum heimshornum en samtals eiga aðild að samtökunum 20 milljónir, allt starfsmenn innan almannaþjónustunnar. Fundurinn er vel skipulagður, miklar upplýsingar eru settar fram á markvissan hátt. Þannig má nefna kynningu á skýrslu um heilbrigðisþjónustuna í austanverðri Evrópu og þær breytingar sem eru að verða á henni. Titill skýrslunnar vísar til þess að breytingarnar séu til ills og að heilbrigðiskerfin í austanverðri Evrópu séu að gefa sig: Corrosive Reform: Failing Health Systems in Eastern Europe. Höfundur skýrslunnar eða sá sem hélt utan um vinnuna var Carl Warren Afford. Það eru hins vegar PSI og ILO (Alþjóðavinnumálstofnunin) sem standa að þessari skýrslugerð og það voru fulltrúar þessara aðila sem kynntu stjórn PSI skýrsluna. Í stuttu máli þá lýsir skýrslan skelfilegu ástandi og enn skelfilegri þróun.
Málaliðar gróðaaflanna
Í kynningu á skýrslunni kom fram að greinilega væri róið að því öllum árum að einkavæða heilbrigðiskerfið í austanverðri Evrópu og í skýrslunni segir frá "alþjóðlegum sérfræðingum" sem fari um og ráðleggi ríkisstjórnum. Þeir eigi það sammerkt að þeir hlusti ekki á starfsfólk eða stéttarfélögin áður en þeir "ráðleggi" ríkisstjórnum. Ekki kemur mér þetta á óvart, ég þykist kannst við þennan mannskap af lýsingunni. Þetta eru trúboðar einkavæðingarinnar. Sennilega er þeim gert of hátt undir höfði að kalla þá trúboða nær væri að kalla þá málaliða gróðaaflanna. Þeirra hlutverk er að tala fyrir einkavæðingu og búa þannig í haginn fyrir fyrirtæki sem vilja hasla sér völl innan heilbrigðisgeirans. Sú leið sem þeir virðast fara er að ráðleggja niðurskurð og sparnað. Niðurstaðan verður síðan aukinn þrýstingur á einkavæðingu. Þegar er sú þróun komin vel á veg, og eining er mikið verslað svart, þ.e. borgað undir borðið. Það segir sig sjálft að það eru þeir sem eru í lykilstöðu sem "njóta góðs" af þessu, læknar og hjúkrunarfólk, síður lægst launaða fólkið. Í skýrslunni kemur fram að hlutfallslega (þ.e. miðað við fólksfjölda) voru læknar og hjúkrunarfólk fjölmennari stéttir en í vestanverðri álfunni. Þetta breytist nú hratt – til góðs finnst málaliðunum eflaust, en til ills fyrir þá sem þurfa á læknisþjónustu að halda.
Margs konar einkavæðing
Í skýrslunni er vísað til tilrauna Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrisssjóðsins til að þröngva ríkjum heims til að markaðsvæða grunnþjónustu en jafnframt er vísað til þeirrar afstöðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) að stórvarasamt sé að firra samfélagið ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni. Sú hætta sé nefnilega fyrir hendi að hinir ríku komist hjá því að taka ábyrgð á kostnaði við heilbrigðskerfið, þeir kaupi sér einfaldlega þjónustu beint og þurfi enga ábyrgð að taka á öðrum.
Í þessu ljósi er um það rætt að greinarmun þurfi að gera á einkavæðingu í fjármögnun annars vegar og framkvæmd hins vegar. Á þessum mun hamra nú talsmenn markaðslausna hér á landi. Þannig segja talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að ekki standi til að einkavæða fjármögnunina, aðeins framkvæmdina og aðeins að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hér er hins vegar á það að líta að einkavæðing framkvæmdarinnar hefur reynst dýrari þar sem sú leið hefur verið farin.
Tvennt kemur einnig fram í skýrslunni sem vert er að hafa í huga. Í fyrsta lagi segir þar að þar sem framkvæmd þjónustunnar hefur verið einkavædd hafi samskipti starfsmanna við atvinnurekandann versnað til mikilla muna. Í öðru lagi þá segir að atvinnuréttindi hafi versnað, verktaka gerðist tíðari, allt vegna þess að atvinnurekandinn leiti nú allra leiða til að auka gróða sinn. Hvað snertir austanverða Evrópu sé þetta skelfilegur kokteill: Fyrst komi "ráðgjafarnir" og "sérfræðingarnir" og leggi áherslu á niðurskurð. Síðan komi eigendur einkavæddrar þjónustu og heimti frekari niðurskurð til að auka gróða sinn.!
Enn eitt atriði vakti athygli mína í skýrslunni og það er hve miklivægu hlutverki verkalýðssamtökin gegna varðandi atvinnuöryggi starfsfólks og í réttindabaráttu þess. Bent er á að við einkavæðinguna eigi verkalýðsfélögin hins vegar mjög á brattann að sækja og eigendur fyrirtækja sýni þeim iðulega fullan fjandskap og reyni að koma í veg fyrir að fólk bindist samtökum.
Til upplýsingar þá heitir skýrslan sem er í bókarformi: Corrosive Reform, failing health systems in Eastern Europe eftir Carl Warren Afford, Genf,.Int
Heimasíða ILO er www.ilo.org og
heimasíða PSI er: www.world-psi.org
Sæti Palestínumanna autt
Athygli vakti að enn eina ferðina vantaði einn fulltrúa Mið-austurlanda í hópinn. Sá fulltrúi er frá Palestínu, Anan Qadri og kemur hún úr samtökum heilbrigðisstarfsmanna. Ástæðan fyrir því að hún mætti ekki á fundinn er sú að hún fær ekki leyfi ísarelskra stjórnvalda til að fara úr landi (með það að í huga að sjálfsögðu að snúa til baka að loknum stjórnarfundinum). Þetta hefur oft gerst áður og vakti nú sem fyrr reiði á þessum stjórnarfundi PSI. Á fundum PSI hafa margoft verið samþykktar mjög afdráttarlausar og harðar ályktanir gegn hernámi Palestínu og yfirgangi og ofbeldi Ísraela gegn Palestínumönnum. Verkalýðssamtök frá Palestínu og Ísrael eiga aðild að PSI en ekkert samband er þeira á milli. PSI vinnur nú að því að koma sambandi á milli þeirra. Veraklýðssamtökin í Ísrael eru sögð eiga undir högg að sækja. Þau hafa verið mjög höll undir ísraelsk stjórnvöld og þá stefnu sem þau hafa rekið gegn Palestínumönnum. Þrátt fyrir það hefur sú ríkisstjórn sem nú situr þrengt mjög að þessari sömu verkalýðshreyfingu. Hans Engelberts framkvæmdastjóri PSI segir að hann vinni nú að því að fara til Ísraels og Palestínu og hitta talsmenn verkalýðssamtakanna – en þetta krefst mikils undirbúnings ef árangur eigi að verða af ferðinni.
Hvernig má bæta samfélagsþjónustuna
Eitt meginþemað í starfi PSI þessi misserin er að undirbúa mikla herferð um samfélagsþjónustuna og leiðir til að bæta hana. Athyglisvert hefur verið í umræðum á fundinum hvernig viðhorfin hafa verið mismunandi í umæðum um hvernig ætti að nálgast þetta efni. Fulltrúar þróaðra iðnríkja hafa viljað leggja áherslu á það sem vel hefur verið gert og baráttu gegn einkavæðingu. Fulltrúar margra svokallaðra þróunarríkja vildu hins vegar jafnframt baráttunni gegn einkavæðingu, leggja höfuðáherslu á baráttu gegn spillingu. Ákveðið var að áróðurs- eða vakningarherferðin yrði með mismunandi sniði í samræmi við aðstæður í hverjum heimshluta. Norðurlandaþjóðirnar höfðu fyrir fundinn tekið ákvörðun um að safna saman upplýsingum um hvað gert hafi verið á þeirra vegum. Upplýsingarnar liggi fyrir í byrjun næsta árs og í ljósi þeirra munum við síðan ákveða hvaða áherslu við verðum með uppi. Ég hef í þessum umræðum við félaga okkar á Norðurlöndum bent á þá mikilu vinnu sem við höfum unnið um GATS-samningana, um reynslu af einkavæðingu vatnsins og bækling okkar, Bætum samfélagsþjónustuna, þar sem við réttum út hönd okkar til samvinnu við ríki og sveitarfélög um leiðir til að bæta velferðarþjónustuna. Frásögn af rafrænum fréttabréfum okkar um GATS og vatnið til aðildarfélaga okkar og stjórnmálamanna með tengingum yfir í rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessum sviðum, hefur vakið athygli og góður rómur verið gerður að.
Skýrslur úr öllum heimshlutum
Á fundinum var farið yfir stöðu mála í öllum heimshlutum. Mjög sláandi þóttu mér frásagnir af einkavæðingu í Suður-Ameríku. Fulltrú frá Argentínu sagði að í mörgum tilvikum styddu forsvarsmenn verkalýðsfélaga einkavæðingu til dæmis á vatni og rafmagni. Hann sagði frá einkavæðingu á vatni í sínu hérðai, Santa fe. Fyrirheit hefðu borist um tugmilljarða lán og jafnframt var heitið fjárhagslegum stuðningi við verkalýðsfélög. Svo var að skilja á þessum fulltrúa að þarna væri komin skýringin á stuðningi verkalýðsfélaga við einkavæðinguna. Hann lauk máli sínu á því að segja að mikilvægt væri að verkalýðshreyfingin gætti sín á því að láta ekki glepjast af gylliboðum. Hann nefndi ekki hugtakið mútur en að sjálfsögðu var það það sem hann átti við.Þetta minnirokkur á hörkuna og yfirganginn í auðvaldsöflum sem einskis svífast við að komast yfir almannaeignir.
Einnig kom fram í þessari yfirferð um rómönsku Ameríku hve víða hættulegt er að taka þátt í verkalýðsbaráttu. Var þar sérstaklega vísað til Kolombíu þar sem fjöldi baráttufólks í verkalýðshreyfingunni hefur verið ráðinn af dögum án þess að morðingjarnir hafi verið eltir uppi af yfirvöldum.Á síðasta ári voru 178 verkalýðsaktivistar drepnir, á þessu hafa 59 þegar verið drepnir. Fulltrúi frá Kolombíu beindi því til fundarmanna að allir skrifuðu yfirvöldum í Kolombíu og hvettu til þess að morðingjarnir yrðu látnir svara til saka. Fram kom að af hálfu PSI hefur verið haldið uppi stöðugum þrýstingi í þágu mannréttinda og til varnar verkalýðshreyfingunni.
Þegar í yfirferðinni var komið að Asíu vitnuðu stjórnarmenn um hve mikilvægt það er að fá stuðning utan að þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar eru beittir hörðu og mannréttindi fótum troðin. Fulltrúi frá Filippseyjum sagðist telja að hún væri enn á lífi vegna þess að vitað væri að PSI hefði augun alltaf á henni. fram kom að hún hefur staðið framarlega í baráttu í umfangsmiklum spillingarmálum á Filippseyjum.
Ályktun um GATS og tillaga um nýmæli
Á fundinum var rætt ítarlega um innra starf PSI, fjármál og praktíska hluti og áfangaskýrslur á ýmsum sviðum lagðar fram og samþykktar. Einnig voru rædd drög að ályktun sem lá fyrir fundinum um alþjóðaviðskiptasamninga. Þeir sneru mjög að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og GATS samningunum. Áherslurnar voru mjög í þeim anda sem BSRB hefur hamrað á, og snúa að því að ná út úr grunntexta GATS samningunum ákvæðum sem gera ríkisstjórnum nánast ógerlegt að afturkalla skuldbindingar um markaðsvæðingu og að skýra nánar ákvæði sem orka tvímælis varðandi rétt ríkisstjórna til að halda almannaþjónustinni á vegum samfélagsins. Því má skjóta hér inn, að í skýrslu frá Evrópuhluta PSI sem rædd var á fundinum, kom fram að þótt ekki væri um það að ræða að GATS ógnaði almannaþjónustunni í Evrópu á þessu augnabliki, væri ástæða að vekja athygli á því að Evrópa væri að þrýsta á þróunarríkin um markaðsvæðingu og skuldbinda sig, með því að samþykkja tiltekin ákvæði í GATS samningunum um alla framtíð, hvað einkavæðingu almannaþjónustunnar snertir.
Annað sem áhersla er lögð á í ályktun PSI er að samningar á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum og er lagt til að komið verði á fót Gats- þingi (parliamentary assembly) þar sem sæti eigi fulltrúar verkalýðshreyfingar og almannasamtaka (NGO´s, Non-Governmental Organizations). Þetta er hugsað sem eins konar lýðræðislegur naflastrengur, leið til að opna verkalýðshreyfingunni og ýmsum almannasamtökum formlega leið að samningaborði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Stofnunin hefur sýnt ótrúlega óbilgirni gagnvart þessum aðilum en þarna væri ekki undan því vikist að ræða málin og upplýsa formlega um stöðu mála. Góð hugmynd og góð tillaga sem mér finnst vissulega þess virði að berjast fyrir.