Fara í efni

Pútín og Stoltenberg útskýra stríð

Stríð í austanverðri Úkraínu. Ögn dularfullt fyrirbæri en við reynum að skilja það. Rússland berst þar gegn Úkraínuher og sameinuðu Vestrinu, þ.e.a.s. BNA/NATO. Vestrið þarf samt bara að senda þangað peninga og vopn. Vestrið «rekur» stríðið. Úkraína leggur fram mannskapinn, er þar staðgengill Vestursins, í hlutverki fallbyssufóðurs. Um hvað snýst þetta stríð? Fullveldi Úkraínu? Útþenslu Rússlands? Lýðræði gegn alræði? Eða kannski stöðu Donbass-búa? Útþenslu NATO?

Nokkrar mjög mismunandi frásagnir eru á sveimi (hin margfrægu «narratíf»). Við heyrum sumar þeirra daglega, aðrar næstum aldrei. Stríðið er ekki aðeins háð með vopnum og efnahagslegum refsiaðgerðum. Það er ekki síst háð með áróðri stríðandi aðila. Hjá okkur er staðan sú að við fáum höfuðin úttroðin af rökum fyrir stríðsrekstrinum vestan megin frá. Þeir sárafáu sem gera sig seka um að skýra rök mótaðilans eru umsvifalaust brennimerktir sem «réttlætarar» hans. Það er erfitt, vitsmunalega og félagslega, að mynda sér sjálfstæða skoðun. Við erum þekkingarlega vannærð. Skiljum lítið í stríði sem á allmikinn þátt í að breyta heiminum.

Kringum síðustu mánaðarmót bar þó skyndilega vel í veiði með upplýsingar. Með nokkurra daga millibili fengum við fréttir frá hæstráðendum beggja herbúðanna þar sem þeir lýstu málstað sínum. Tucker Carlson, einn vinsælasti fjölmiðlamaður Bandaríkjanna og þáttastjórnandi, fór til Moskvu og tók mikið vital við Vladimir Pútín. Spurði hann fyrst og fremst um Úkraínustríðið. Í sömu viku hélt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, til Washington til að sannfæra bandaríska þingmenn, sérstaklega menn í Repúblikanaflokknum, um stuðning við stríð NATO í Úkraínu.

Pútín talar

 
Það er af einhverjum ástæðum afar sjaldgæft að vestrænir blaðamenn tali við þennan höfuðandstæðing Vestursins og spyrji hann eins eða neins. Varla neinn síðan Oliver Stone gerði það árið 2019. Það sem Tucker vildi fá með viðtalinu var «Vitnisburður Pútíns um heiminn eins og hann sér hann.» Þetta segir Tucker Carlson og sýnir að hann er einn fremur fárra í vestrænum fjölmiðlaheimi sem er verkefni sínu vaxinn. Hvernig höfuðandstæðingur okkar lítur á málið hlýtur að koma okkur við. Annað er upplýsingaskortur og veldur rörsýni.

Umfram allt annað spurði Tucker Pútín um Úkraínustríðið. Það var líka rökrétt, stríð sem staðið hefur í áratug og tvö síðustu árin með beinni innrás Rússa. Hér má sjá beint afrit af samtalinu. Og hér liggur hljóð og mynd frjáls til skoðunar á Tucker Carlson Network. https://tuckercarlson.com/the-vladimir-putin-interview/ Að ég gef máli Pútíns meira pláss í þessari grein stafar einkum af því að það er sjaldgæfari vara í okkar fjölmiðlaveröld en málflutningur Stoltenbergs, sem er þó vissulega athyglisverður líka.

Vladimir Pútín leggur mikið upp úr því að hann standi sem þjóðhöfðingi Rússa á langri og traustri hefð, og að samfella hafi verið í rússneskri landvarnarpólitík, a.m.k. frá Pétri mikla í kringum 1700. Þá vill Pútín að menn skilji að Úkraína komi Rússum við: “Hvernig byrjuðu samskipti okkar við Úkraínu?“ spurði hann, og því fylgdi langur fyrirlestur um sögu landanna tveggja, aftur á miðaldir. Það er í byrjun viðtalsins og fljólegt að fletta því upp.

Ég skil mál Pútíns um forsöguna þannig að hann hafi nokkuð klofna afstöðu til Úkraínu. Annars vegar að áin Dnéper hafi lengi skipt landinu í rússneskt menningarsvæði og a.m.k. hálf-pólskt, þ.e.a.s. allt til 1793. Eftir það fylgdi landið hins vegar keisaradæminu. Sögulega var Úkraína aldrei sjálfstæð, segir hann. Það voru bolsévíkar sem stofnuðu Sovétlýðveldið Úkraínu 1921-1922, og það sem Pútín kallar „suðausturhéruðin“ fylgdu þá með. Því miður, segir hann.

Og aftur, af einhverjum ókunnum ástæðum, flutti hann [Lenín] yfir á hið nýstofnaða Sovétlýðveldið Úkraínu, svæði ásamt fólkinu sem þar býr, landsvæði sem aldrei höfðu verið kölluð Úkraína, en samt voru þau gerð hluti af Sovétlýðveldinu Úkraínu.

Við erum þá komin að stofnun Sovét-Úkraínu. Svo kom árið 1991 – fall Sovétríkjanna. Og allt það sem Úkraína hafði fengið að gjöf frá Rússlandi „úr hendi meistara síns“ tók hún með sér.

Pútín leggur sem sagt áherslu á að í ljósi sögunnar sé Úkraína ósamstætt ríki, og „tilbúið“ ríki. Mér finnst nærtækast að skilja boðskapinn í söguræðu Pútíns þannig að hann telji sig (leiðtoga Rússlands) mega gera tilkall til hins rússneska menningarsvæðis, og spurningin hvort það er rússneska menningarsvæðið frá því fyrir eða eftir árið 1793 stendur nokkuð opin. Svarið ræðst væntanlega af geópólitískum aðstæðum í nútímanum.

Seinna í viðtalinu, þegar talað var um nasismavæðingu í Úkraínu sagði Pútín:

Ég teI að Úkraínumenn séu hluti af hinni einu rússnesku þjóð. Þeir segja, „Nei við erum aðskilin þjóð“. Allt í lagi, ágætt. Ef þeir líta á sig sem aðskilda þjóð hafa þeir rétt til að gera það, en ekki á grundvelli nasisma, nasískrar hugmyndafræði.

Eftir 1991: Vestrið reyndist óvinsamlegt

 

Þá víkur viðtalinu að samskiptum Rússa við Vestrið eftir upplausn Sovétríkjanna 1991. Þar er gegnumgangandi tónn: Vonbrigði. Röð vonbrigða. Vonbrigði og reiði skína í gegn. Af því Vladimir Pútín batt miklar vonir við þau samskipti. Hann kom til valda með hjálp hins afar vestrænt sinnaða Borisar Jeltsin. En Vestrið reyndist óvinsamlegt, segir hann. Vestrið er óábyggilegt, ekki er hægt að semja við Vestrið. Tilvitnun:

Fyrrverandi forysta Rússlands leit svo á að Sovétríkin væru ekki lengur til og þess vegna væru ekki lengur neinar hugmyndalegar línur sem skyldu okkur að… Við skulum tala um þá staðreynd að eftir 1991, þegar Rússland bjóst við að verða tekið inn í bróðurlegu fjölskyldu „siðaðra þjóða“ að þá gerðist ekkert slíkt. Þið blekktuð okkur… þið lofuðuð að það yrði engin NATO-útvíkkun til austurs, en það gerðist fimm sinnum, fimm bylgjur útvíkkunar.

Lengi voru menn í Moskvu mjög jákvæðir fyrir samstarfinu við Vestrið. En með þessum eina fyrirvara: ekki útþenslu NATO í austur takk. Hún varð í hvert sinn niðurstaða af „þýstingi, þrýstingi, þrýstingi“: Á valdatíma Jeltsíns reyndu stjórnvöld í Moskvu alltaf að koma í veg fyrir útþensluna, en Rússar voru veikir, Clintonstjórnin leit nú á Rússland sem þriðjudeildar-veldi og lét þá kyngja stækkunum NATO aftur og aftur.

Rússland Í NATO?

 

Pútín sagði frá einu sérstöku tilbrigði við þennan austurþrýsting NATO þegar hann sjálfur var nýkominn til valda.

Jæja, ég varð forseti árið 2000. Ég hugsaði… Við skulum opna á ný dyrnar sem Rússland hefur reynt að komast gegnum. Ég sagði það m.a.s. opinberlega. Á fundi einum hér í Kreml, fundi með Clinton forseta sem var á leið úr embætti, einmitt hérna í næsta herbergi, ég sagði við hann, spurði hann: „Bill, heldur þú að ef Rússland óskaði eftir að ganga í NATO, heldur þú að það myndi gerast? Allt í einu sagði hann: „Veistu, það er áhugavert, ég held það.“ En um kvöldið, þegar við snæddum kvöldverð, sagði hann: „Sjáðu til, ég hef talað við teymið mitt, nei nei, það er ekki hægt núna.“

Tucker Carlson spurði þá Pútín hvort hann hafi í einlægni viljað komast í NATO og hann fullyrti á móti að hann hefði virkilega viljað vita hvort aðild væri raunverulegur möguleiki.. Í svipuðum anda gerði Pútín aðra tillögu þegar bandaríska ABM eldflaugavarnarkerfið var að komast í gang.

Ég stakk upp á að Bandaríkin, Rússland og Evrópa byggðu sameiginlegt eldflaugavarnarkerfi, sem við álitum – ef það væri byggt upp einhliða – að myndi ógna öryggi okkar, þó að Bandaríkin segðu opinberlega að það væri byggt til að verjast Íran… En tillögu okkar var hafnað, það er staðreynd.

NATO opnar Úkraínudyrnar – síðan Maidan

 

Og nú kom aðalmálið: Þeir komu að lokum til Úkraínu. Árið 2008 á leiðtogafundinum í Búkarest lýstu þeir yfir að dyrnar fyrir Úkraínu og Georgíu að ganga í NATO væru opnar.

Á þessum leiðtogafundi í NATO markaði NATO stefnu yfir það sem Rússar lýstu strax yfir að væri „rautt strik“, NATO-aðild Úkraínu. Evrópuleiðtogar voru klofnir í afstöðu sinni, en George W Bush „beitti þrýstingi“ í málinu og allir létu undan. Hann er „such a tough guy“ segir Pútín um þennan fyrrum kollega. Og árin liðu til 2014.

Hvenær byrjaði [óheilla-] þróunin í Úkraínu? Frá og með valdaráninu og þegar átökin hófust í Donbass. Þannig byrjaði þetta. Og við verjum okkar fólk, okkur sjálf, heimaland okkar og framtíðina.

Valdarán var framið. Ég ætla ekki að sökkva mér í smáatriði, það væri ekki viðeigandi, en Bandaríkjamenn sögðu okkur: „Róið þið Janukóvitsj niður og við róum niður stjórnarandstöðuna. Látum ástandið þróast í átt að sviðsmynd pólitískrar sáttargerðar.“ Við sögðum: „Allt í lagi. Samþykkt. Gerum það á þann hátt.“ Rétt eins og Bandaríkjamenn höfðu beðið um notaði Janúkóvitsj hvorki herinn né lögregluna, samt framkvæmdi vopnuð andstaðan valdarán í Kiev… Þeir [ný Úkraínustjórn] hófu svo stríð í Donbass 2014 með loftárásum gegn almennum borgurum. Þannig hófst þetta.

Minsk-samningarnir

 
Svo var reynt að stöðva borgarastríðið með samningum 2014 og 2015, og Vestrið kom að því, eða þóttist gera það. En „þeir drógu okkur á asnaeyrum,“ segir Pútín.

Forsetinn sjálfur [í Úkraínu, Poroshenko] sagðist ekki kunna að meta neitt í Minsk-samningunum. M.ö.o. ætlaði hann ekki að framkvæma þá. Fyrir ári eða hálfu öðru ári síðan sögðu svo fyrrverandi leiðtogar Þýskalands og Frakklands opinskátt við allan heiminn að þeir hefðu vissulega undirritað Minsk-samningana en þeir hefðu aldrei ætlað sér að framkvæma þá. Þeir drógu okkur einfaldlega á asnaeyrum.

Ég hélt hreinskilnisIega að ef okkur tækist að sannfæra íbúa Donbass – og við yrðum að leggja mikið á okkur til að sannfæra þá um að gerast aftur úkraínskir ríkisborgarar – þá myndu sárin smám saman fara að gróa.

Það var nefnilega þannig að aðskilnaðarhéruðin Donetsk og Luhansk viðurkenndu ekki valdránsstjórn í Kiev og óskuðu strax 2014 eftir að verða tekin inn í Rússneska sambandsríkið. Pútín vildi hins vegar þrýsta þeim til baka, að fengnum sjálfsstjórnarákvæðum í Minsk-samkomulagið. Innrásin í Úkraínu átta árum síðar, 24. febrúar 2022 var þess vegna ósigur fyrir vestrænt miðaða stefnu Vladimirs Pútíns.

Samningaviðræðurnar í Istanbul

 

Og Pútín fjallaði talsvert um samningaviðræður þær sem fóru fram á fyrstu vikum stríðsins, og af hverju herinn dró sig til baka frá Kiev.

…samningaviðræðurnar enduðu í Istanbúl snemma á síðasta ári [villa, í raun árið 2022], og voru ekki að okkar frumkvæði, því okkur var sagt, sérstaklega af Evrópumönnum, að það væri nauðsynlegt að „skapa aðstæður fyrir lokaundirritun skjalanna“. Mótaðilar mínir í Frakklandi og Þýskalandi sögðu: „Hvernig getur þú hugsað þér þá undirrita samning með byssuhlaup að höfði?“ Það þyrfti að draga herliðið burt frá Kiev. Ég sagði, „Allt í lagi“. Við drógum herliðið frá Kiev…

Hann [formaður úkraínsku samninganefndarinnar, Davyd Arakhamia] leiðir enn þingflokk forsetans í Rada, úkraínska þinginu, hann situr þar enn. Hann setti m.a.s. bráðabirgða undirskrift sína á skjalið sem ég er að segja þér frá. En svo segir hann opinberlega við allan heiminn: „Við vorum tilbúnir að undirrita þetta skjal, en hr. Johnson, þá forsætisráðherra Breta, kom og taldi okkur af því að gera það og sagði að réttara væri að berjast við Rússa.“

Þær [samningaviðræðurnar] náðu mjög langt í því að samræma afstöðu aðila í flóknu ferli, og samt voru þær næstum búnar. En um leið og við drógum hermenn okkar frá Kiev, eins og ég hef þegar nefnt, kastaði hinn aðilinn, Úkraínumenn, öllum þessum samningum og hlýddu skipunum Vesturlanda, Evrópuríkja og Bandaríkjanna, um að berjast við Rússa allt til enda.

Pútín sagði nokkrum sinnum í viðtalinu að hann vildi friðarsamninga í Úkraínu. Til dæmis hér:

Tucker Carlson: Svo að, ég vil bara fullvissa mig um að ég misskil ekki.. ég held þú sért að segja að þú viljir friðarsamkomulag um það sem gerist í Úkraínu.

Vladimir Putin: Rétt. Og við gerðum það, undirbjuggum risastórt skjal í Istanbúl sem foringi úkraínsku samninganefndarinnar átti frumkvæði að. Hann setti undirskrift við sum ákvæðin, ekki við það allt. Hann setti undirskrift og sagði síðan: „Við vorum tilbúnir að undirrita og stríðið myndi vera búið fyrir löngu síðan, fyrir átján mánuðum. Hvað um það, Johnson forsætisráðherra kom, taldi okkur ofan af því og við misstum af þeim möguleika.“ Nú jæja, þið misstuð af honum, það voru mistök, látið þá koma að honum aftur. Það er allt sem þarf.

Hér gefur Pútín merki. Þegar Biden og Johnson bönnuðu samninga í apríl 2022 töldu þeir sig í góðri vígstöðu, efnahagslega og hernaðarlega. Það hefur breyst þeim í óhag. Það er þess vegna mikils virði þegar Pútín lætur klárlega á sér skilja að hann sé fús að setjast að sama samningaborði á ný. Um samningaviðræðurnar Istanbul fjölluðu Neistar nýlega. Sjá hér. https://neistar.is/greinar/vestrid-hindradi-fridarsamninga-vorid-2022-skyrsla-varpar-ljosi-a-ukrainustridid/

Stoltenberg talar

Stoltenberg flaug til Washington og talaði m.a. við Fox News og lýsti í stuttu máli ástæðum þess að rétt væri að Vestrið drægi ekki úr hernaðarstuðningi við Úkraínu. Þar var hann að «selja» hlustendum stríðið, og «söluræða» hans er mjög áhugaverð.

Það mikilvægasta er að Úkraína fái áfram stuðning okkar, því við verðum að skilja að það er fylgst vel með þessu í Peking. Þannig að það gerir ekki aðeins Evrópu berskjaldaðri heldur okkur öll, einnig Bandaríkin verða berskjaldaðri ef Pútín fær vilja sínum framgengt í Úkraínu. Og þetta er reyndar «góður díll» því að við að nota aðeins brot af bandarísku varnarmálaútgjöldunum hefur okkur tekist að eyðileggja verulega og veikja rússneska herinn. Þess vegna eigum við að halda því áfram, ekki síst af því meirihluti þessara peninga er notaður í Bandaríkjunum. Við kaupum bandarísk vopn til að styðja Úkraínu. Þetta býr til störf í Bandaríkjunum og gerir okkur öll öruggari. (Sjá hér).

Örlítið framar í viðtalinu sýnir Stoltenberg að hann hefur ekki síður Kína í huga en Rússland þegar hann talar um Úkraínustríð: "Today it's Ukraine; tomorrow it could be Taiwan."

Þegar sá góði sósíaldemókrat Jens Stoltenberg rómar hvað þetta sé ódýr og góður „díll“ fyrir Bandaríkin nefnir hann ekkert mannfallið í Úkraínu eða Rússlandi. Nei, það eru enn margir Úkraínumenn á góðum aldri lifandi! „Þess vegna eigum við að halda því áfram“, segir hann. Það plagar hann ekki samviskubitið.

Hitt er merkilegra, þessi fíni «díll» er alveg laus við alla hernaðaráætlun. Í fyrstu var markmiðið hjá Vestrinu að sigra Rússland hernaðarlega og með refsiaðgerðum. En nú er það líklega ekki raunhæft lengur. Alla vega nefndi Stoltenberg það ekki í «söluræðunni», hann hefði nefnt það ef hann teldi það raunhæft. Hjá bandarískum hermálayfirvöldum viðurkenna menn að hernaðarstaðan í Úkraínu lítur illa út og hefur lengi bara versnað. Það væri pínlegt að boða sigur núna.

Markmiðið var að koma Úkraínu inn í NATO, en það er kannski ekki raunhæft heldur, Pútín hefur líka gert það afskaplega skýrt að Rússar líti á NATO í Úkraínu sem tilvistarógn sem þeir leggi allt í sölurnar til að hindra. Jafnvel kjarnorkustríð.

En hjá Fox News bar framkvæmdastjórinn fram hina almennu hugmynd um að veikja Rússland, «veikja rússneska herinn». Ja, margir segja að Rússland hafi ekki veikst neitt. Þarf þá kannski að breyta um stefnu og semja? Nei, nei, við höfum alla vega drepið slatta af Rússum, sem hlýtur að veikja herinn, svo Stoltenberg heldur fast við það.

En þar að auki er sumt fólk að græða á stríðinu. «þetta býr til störf í Bandaríkjunum“, sagði maðurinn. Sem var að selja stríð. Sölumaður dauðans. Stríð Vestursins í Úkraínu er sem sagt nánast án hernaðaráætlunar. Það stendur ekkert eftir af henni – nema gróðinn. Það er þetta með «hermálabatteríið», Milatary Industrial Complex. Hinn ráðandi litli samfélagshópur í BNA, og hann er alveg gíraður inn á stríð. Sömu fáu eigendur eiga hermálabatteríið og ríkjandi fjölmiðla. Það er langöflugasti þrýstihópurinn vestur þar. Helsta hreyfiafl þessa stríðs.

Fyrir þann hóp er mikilvægasta markmiðið ekki einu sinni að vinna stríðin, það gengur mjög misvel, en fyrst og fremst er hann innstilltur á «hið eilífa stríð, amen». Það er stóri konfektkassinn sem hann skóflar í sig upp úr, ekki síst með hjálp stjórnmálamanna í íhlutunar- og stríðsliðinu (úr báðum flokkum), bandarískra stjórnmálamanna, og lénsmanna í Evrópu eins og Jens Stoltenberg.

Ferð Stoltenbergs bar ekki tilætlaðan árangur. Biden vini hans tókst ekki, a.m.k. að þessu sinni, að koma 60 milljarða stuðningspakkanum til Úkraínu í gegnum Bandaríkjaþing. Staðreyndir vígvallarins gera sig smám saman gildandi svo erfiðara verður að „selja“ stríðið.

Báðir aðilar segja sannleik, sinn sannleik

 

Hér að framan má sjá hvernig tveir gagnstæðirs stríðsaðilar líta á þetta mesta stríð sem geysar í heiminum nú um stundir. Hvor frá sínum sjónarhól. Ég ætla helst ekki að álykta mikið að þessu sinni en gefa lesanda hugsanafrelsi.

Sannleikurinn er fyrsta fórnalamb stríðsins, er sagt. En ég held samt að báðir aðilar sýni hér allmikið á spilin, og báðir segi satt. En það er hlutasannleikur. Ofinn saman við hagsmuni. Báðir segja sannleikann séðan frá sínum sjónarhól. Sjónarhóll Pútíns er rússneska stórveldið og svæðisbundnir hagsmunir þess. Sjónarhóll Stoltenbergs er er elíta hins sameinaða Vesturs. Kjarni hennar er í námunda við Wall Street, en hagsmunir hennar spanna heiminn allan.

Vaxandi vald og sjáfstæði rússneska stórveldisins samræmist altént illa hagsmunum elítunnar í vestri. „Markmiðið [þeirra] er að veikja Rússland eins mikið og mölgulegt er“ segir Pútín í viðtalinu. Og Stoltenberg tekur undir, „…we have been able to destroy and degrade the Russian army substantially.“

Merkin sem Pútín gefur hér um áhuga á friðarsamningum segja væntanlega eitthvað um hversu stórbrotnum landvinningum hann hefur áhuga á í vestur. Kannski má líta á málflutning hans þannig að hann sé öllu frekar að kveðja Vestrið: Þið hafið svikið mig. Rússland snýr sér annað.

Úkraínustríðið hefur ekki orðið til að veikja Rússland. Það hefur stuðlað að (verið hvati, kataýsator) dvínandi tökum Bandaríkjanna hnattrænt séð, og þróun fjölpóla heims, sbr. gríðaraukinn áhuga ríkja á BRICS-aðild, sérstaklega eftir 2022.

Þó Pútín sýni ekki áhuga á víðtækum landvinningum i vestur má samt kannski álykta að túlkanir hans á forsögu Rússlands/Úkraínu lúti að því að gefa honum frjálsari hendur gagnvart Úkraínu sjálfri og frambúðarskiptingu hennar. Ég býst við að Úkraínumen almennt almennt lesi skilaboð hans þannig. Ég býst líka við a meirihluti Úkraínumanna geri það af mikilli tortryggni

Ef við hlustum vel gætum við verið einhverju nær um orsakir og hreyfiöfl stríðsins, um markmið stríðsaðila, við hverju er að búast í stríðinu, hvað hindrar frið og í hverju mölguleikar friðar helst liggja.

Greinin birtist einnig á vefritinu neistar.is