Fara í efni

QUISLING HEFÐI EKKI GERT BETUR

Ögmundur. Nú er ég þér bálreiður. Já, ég er reiður þér fyrir mína hönd og þeirra kjósenda sem á sínum tíma kusu þig á þing til að berjast gegn þeim öflum sem þú nú virðist hafa gengið í lið með. Þú talar oft um að fara eftir eigin samvisku. Er samviska þín þá ekkert bundin kjósendum þínum? Á sínum tíma og allt fram að þessu, hef ég barist með kjafti og klóm fyrir framgangi þínum í stjórnmálum. Nú verð ég að biðja þá afsökunar, sem fóru að mínum ráðum í þeim efnum. Þú veist það, eða átt að vita, að nánast allir þeir sem kusu þig á þing, ætluðust til að þú gerðir þveröfugt við það sem þú nú gerðir í kosningunni um frávísunartillöguna. Aldrei hefði ég trúað því að þú yrðir einmitt þegar á reyndi í baráttunni við spillingaröflin, styrk stoð í varnarvirki þeirra. Nú hefur þú fengið þeim aftur í hendur vopn þau sem með naumindum náðust af af þeim á sínum tíma, þegar foringi varnarliðs stórbófanna náðist með naumindum á flótta með samstarfsmönnum sínum. Nú þegar varðhundar spillingaraflanna hafa sloppið fyrir horn, munu þeir skipuleggja vörn sína svo, að ekkert getur ráðið niðurlögum þeirra. Þeir hafa nefnilega nógu marga með sér innan stjórnarflokkanna, og ég tala nú ekki um Framsókn. Síðan verður mokað yfir allan skítinn, og stórbófarnir sem stálu nær öllum gulleggjunum úr eggjakössum þjóðarinnar, ásamt þeim sem gerðu þeim það kleift, ganga syngjandi sælir frá leik. Það var slæmt að hinir sluppu, en allavega náðist þó foringinn, og hann síðan með réttu skikkaður fyrir Landsdóm. Auðvitað ber hann sína ábyrgð á stjórn skútunnar sem undir hans stjórn var siglt í strand. Í slíkum tilvikum er skipstjórinn alltaf dreginn fyrir sjórétt og látinn svara til saka. Að sjálfsögðu ætti að draga Geir Haarde, sem forsætisráðherra, fyrir Landsdóm. Þar yrði hann krafinn skýringa á ýmsu sem þá eflaust kæmi sér illa fyrir marga sem enn hefur ekki náðst til. Einmitt þeir vilja síst að Geir fari að kjafta frá. Í Landsdómi hefði fyrrverandi forsætisráðherra (og þar áður fjármálaráðherra) tækifæri að verja sínar gerðir. Yrði hann sýknaður þar, gæti hann gengið hnarreistur frá leik. Færi svo, yrði það að sjálsögðu fordæmisskapandi, og hvaða svefngengill sem á eftir kæmu færi með allt til fjandans, þyrfti ekki að bera neina ábyrgð á svínaríinu. Verði málið ekki gert upp, mun Geir og hans meðreiðarsveinar í framtíðinni verða af þjóðinni álitnir menn með óuppgerðar sakir á bakinu, vegna þess að hún krefst uppgjörs á hruninu. Hvað varðar framgöngu þína, Guðfríðar Lilju og Jóns Bjarnasonar sem í þessu máli stilltuð þið ykkur upp við hlið einhuga og samstilltra íhaldsmanna, verð ég að segja: Quisling hefði ekki gert betur. Kannski var ljótt að hengja hann einan? Þið hafið fært okkur heim sanninn um það að réttlæti verður ekki komið yfir spillta stjórnmálaelítuna öðruvísi en með sömu aðferðum og gert var gagnvart Ceausescu í Rúmeníu eða þá Gaddafi í Líbíu. Skammist ykkar.
Jóhann B. Sveinbjörnsson

Ég þakka þér bréf þitt þótt það sé harðort eins og þér finnst greinilega tilefni til gagnvart manni sem brást "þegar á reyndi". Það er greinliegt að þér finnst að verið sé að reyna að afstýra uppgjöri við hrunpóltíkina og þá sem þar voru ábyrgir. Mér finnst þessi réttarhöld þvert á móti vera hið gagnstæða: ódýr syndaaflausn á röngum forsendum og í röngu samhengi.
Mér er það vissulega umhugsunarefni hvað það er sem fær blóðið til að ólga í gömlum baráttukempum eins og þér.
Ég er þér vægast sagt mjög ósammála og hef fært rök fyrir mínu máli í blaðagreinum sem ég hef birt hér á síðunni. Ef þú ekki hefur lesið þær langar mg til að biðja þig að gera það svo þú alla vega þekkir skýringar  þíns gamla vinar sem þú nú kallar Quisling.
Með kveðju,
Ögmundur