R-listinn og hjúkrunarrými fyrir aldraða
Birtist í Mbl
Í Morgunblaðinu 14. maí ritar Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður og stjórnarformaður DAS grein sem ber heitið: „R-listinn,Vinstri grænir í samstarfi við fjárfesta Frumafls.“ Guðmundur rekur það réttilega hvernig þingmenn VG gagnrýndu samning sem ríkisvaldið gerði á sínum tíma við Aðalverktaka hf. og aðra aðstandendur Sóltúnsheimilisins. Í samningnum fólst alvarleg mismunun gagnvart öðrum rekstraraðilum öldrunarheimila.
Guðmundur Hallvarðsson rifjar upp röksemdir okkar: „Í rökum VG kom m.a. fram að ný stefna væri mörkuð hvar fjárfestum væri nú gefið tækifæri á að koma inn í rekstur öldrunarstofnana þar sem arðsemis- og gróðasjónarmið fjárfesta væru höfð að leiðarljósi. Hér væri einnig verið að gera lítið úr þeim öldrunarheimilum sem fyrir væru og hefðu haft þau skýru skilaboð frá ríkisvaldinu að þau skyldu rekin án tekjuafgangs. Ekki veit ég til þess að félagi Ögmundur Jónasson hafi skipt um skoðun.“
Allt er þetta satt og rétt hjá Guðmundi Hallvarðssyni og skal ég játa að eins fór fyrir mér og honum að fréttir fyrir fáeinum dögum um að efnt skyldi til samstarfs við verktakafyrirtæki í atvinnurekstri um rekstur öldrunarheimila hljómuðu undarlega í mínum eyrum. Síðan hefur málið skýrst og vakti sérstaka ánægju að heyra að til stendur að gera stórátak í málefnum aldraðra í Reykjavíkurborg.
Í sama blaði og Guðmundur birtir grein sína kemur fram að heilbrigðisráðherra og borgarstjóri undirrituðu 13. maí sl. sameiginlega viljayfirlýsingu um endurbætur og uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík á árunum 2003-2007. Samkvæmt yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að 326 ný hjúkrunarrými verði tekin í notkun í Reykjavík á tímabilinu, en 42 eldri rýmum lokað eða breytt í sérbýli. Áætlaður stofnkostnaður vegna þessara framkvæmda er á fimmta milljarð króna og þar af greiðir Framkvæmdasjóður aldraðra 40%. Gert er ráð fyrir að hlutur ríkisins verði 70% í nýbyggingum.
Áætlað er að reisa 100 rýma hjúkrunarheimili í Sogamýri og taka það í notkun árið 2005. Gert er ráð fyrir stækkun Eirar og fjölga hjúkrunarrýmum þar um 40 á tímabilinu 2003-2005. Einnig er gert ráð fyrir stækkun Hrafnistu og að raunfjölgun þar verði 30 rými. Hjúkrunarheimilið á Droplaugarstöðum verður stækkað og breytt þannig að raunfjölgun rýma verði þar 14. Þá er áformað að hefja undirbúning að byggingu nýs 100 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjavík á tímabilinu 2003-2005 og taka það í notkun 2007, staðsetning á að liggja fyrir á næsta ári. Þá er tiltekið að heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið muni með markvissum hætti efla Miðstöð heimahjúkrunar í Reykjavík á tímabilinu 2003-2007 með fjölgun stöðugilda hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þá muni Reykjavíkurborg skoða með hvaða hætti megi koma upp aðstöðu til heimahjúkrunar í tengslum við þjónustuíbúðir aldraðra.
Hvergi er í yfirlýsingunni minnst á verktakafyrirtækið Frumafl, hvað þá kröfur um arðsemi og gróða í öldrunarþjónustunni, enda slíkt ekki á stefnuskrá R-listans.
Guðmundur Hallvarðsson gerir því skóna að fulltrúar VG á Alþingi annars vegar og í R-listanum hins vegar tali tungum tveim og sitt með hvorri. Svo er ekki. Við viljum halda samfélagslegum gildum á lofti. Ástæða er hins vegar til þess að hafa áhyggjur af samfélagsþjónustunni ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda í borginni því sá flokkur hefur haft þá yfirlýstu stefnu að hafa markaðslögmál að leiðarljósi, jafnt innan velferðarþjónustunnar sem annars staðar.