Fara í efni

R-listinn og kjarabarátta kennara

Að mínum dómi er allur framgangur R-listamanna varðandi kjarabaráttu kennara til háborinnar skammar. Maður hefði haldið að þessum kjörnu fulltrúum rynni blóðið til skyldunnar – enda hafa þeir að stærstum hluta gefið sig út fyrir að vera fulltrúar almennings og launafólks – en því er nú aldeilis ekki að heilsa þegar til kastanna kemur. Í stað þess að ganga fram fyrir skjöldu í því að leysa deiluna felur liðið sig á bak við þrautþjálfaða tækni- og loftfimleikamenn í samninganefnd sveitarfélaganna og lætur líta svo út sem málið sé því alls endis óviðkomandi.

En hvað veldur fálæti R-listamanna? Eru það kannski önnur verkefni, eins og til að mynda útburður á öryrkjum, sem tekur upp allan þeirra tíma? Eða er það hinn margrómaði einkabílismi en um þessar mundir virðist allt ganga út það að greiða úr meintum umferðarhnútum víðs vegar og alls staðar um borgina svo allt megi enda í einum allsherjarhnút í miðbænum. Á sama tíma er þrengt að gangandi vegfarendum á alla kanta.

Mér finnst kominn tími til að R-listafólkið í borgarstjórn Reykjavíkur hysji nú rækilega upp um sig brækurnar. Væri þá vænlegt að hefja upphysjunarstarfið á því að bjóða kennurum möglunarlaust upp á mannsæmandi kjör. Ástandið eins og það er í dag er orðið óþolandi fyrir nemendur, aðstandendur þeirra, sem og auðvitað kennara. Og ábyrgðin á þeim skemmdarverkum sem nú er verið að vinna á skólastarfinu í landinu verður ekki með neinum sanngjörnum hætti skrifuð á aðra en sveitarstjórnarmenn. Þá staðreynd ættu R-listamenn að íhuga vandlega áður en þeir taka til við að snapa atkvæði félagshyggjufólks í aðdraganda næstu kosninga.
Þjóðólfur