RÁÐHERRA GEGN LANDBÚNAÐI?
Ég hef trú á því að Kristján Þór Júlíusson vilji vera sanngjarn maður og hef ég reynt hann að góðu einu.
Nú reynir hins vegar ekki eingöngu á að hann sýni sanngirni í verki heldur einnig hvort hann starfi í anda þeirra laga sem honum ber að horfa til þegar réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru annars vegar. Eins og sjá má í starfsauglýsingu um umrætt starf er einmitt vísað tiil þeirra laga: "Um embættið gilda lög nr.115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins."
Sjá hér auglýsinguna í heild sinni:
Í lögum um réttindi og skyldur í opinberum rekstri er að sönnu ekki beinlínis kveðið á um framkomu gagnvart því fólki sem í góðri trú svarar auglýsingu ráðuneytis. Lögunum er engu að síður ætlað að skapa umgjörð um réttláta stjórnsýslu og koma í veg fyrir geðþóttastjórnun. Augljóst er að hér er um rangláta stjórnsýslu að ræða og réttindi einstaklinga fótum troðin.
Hvað skyldi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis segja um þetta ráðslag? Sú nefnd á að hafa eftirlit með því að vel sé farið með fjármuni og góð stjórnsýsla ástunduð.
Á þessu máli eru einnig hliðar sem lúta að skipulagi okkar samfélags. Umdeilt var þegar landbúnaðarráðuneytið var innlimað í sjávarútvegsráðuneytið á sínum tíma. Um skeið hafa þessi ráðunreyti verið rekin undir heitinu Atvinnu- og nýsköpunrráðuneyti. Nú er gengið enn lengra því nú er engu líkara en að þess megi hvergi sjá stað í skipuriti Stjórnarráðsins að til sé eining sem sinni innlendri matvælaframleiðslu, hvað þá íslenskum landbúnaði! Svo er að skilja að til standi að færa landbúnaðar - og matvælasvið ráðuneytisins undir alþjóðasvið sem svo er nefnt.
Þetta segir sína sögu.
Það skiptir máli hvort í skipulagi stjórnsýslunnar er að finna einingar sem ætlað er að halda utan um tiltekna málaflokka. Þess vegna var búið til umhverfisráðuneyti. Þess vegna var jafnréttismálum fundinn staður í stjórnsýslunni svo dæmi séu tekin. Má þá ef til vill gagnálykta þegar tiltekin málsvið eru þurrkuð út eða straujuð undir önnur svið? Er tilgangurinn ef til vill að draga enn úr mikilvægi íslensks landbúnaðar í stjórnsýslunni? Innlend matvælaframleiðsla skal nú vera hluti af alþjóðlegri framleiðslu án íslenskrar kennitölu. Viljum við þetta?
Viðbrögð við þessari ákvörðun sem vonandi verður afturkölluð hafa verið sterk. Hér er til dæmis ályktun frá garðyrkjubændum.
Ég vil taka undir ályktun garðyrkjubænda og skora jafnframt á ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, að endurskoða ákvörðun sína!