RÁÐHERRA KYNNI SÉR SPURNINGAR SVEINS VALFELLS - OG SVÖR!
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, sendi Landsvirkjun tóninn í vikunni. Þar á bæ yrðu menn að fara að haska sér til að koma fleiri álverum í gang.
Sveinn Valfells, eðlisfræðingur, skrifar umhugsunarverða grein í Fréttablaðið í dag, sem ég vil hvetja iðnaðarráðherra (og reyndar alla) til að lesa, og þá ekki síst hugleiðingar Sveins um „kerskála framtíðarinnar", en grein hans ber einmitt það heiti.
Í grein sinni fjallar Sveinn Valfells um raforkumarkaðinn í fortíð nútíð og framtíð og færir rök fyrir því að fleiri málmbræðslur séu ekki okkar framtíð. Hann staðnæmist síðan við spurninguna um sæstreng og segir okkur standa frammi fyrir tvíþættu vali:
„... Að leggja sæstreng sem tengir Ísland við erlenda markaði þar sem orkuverð er hærra. Líkt og í Noregi gæti tenging við erlendan markað hækkað orkuverð innanlands. Hærra orkuverð myndi hækka tekjur Landsvirkjunar, ef afgangur yrði umfram aukinn kostnað mætti greiða út arð til eigenda. Kostnaður er áætlaður á bilinu 288 til 550 milljarðar, heildartekjur 40 milljarðar á ári, eða svo segir í skýrslum ráðgjafa. Áhættan af framkvæmdinni er mikil, tæknileg, lagaleg og fjárhagsleg. Og pólitísk ...
Hitt er að halda orkunni innanlands og taka arðinn út í ódýrri orku til neytenda og fyrirtækja. Lítil og meðalstór fyrirtæki nytu góðs af, þau eru stærsti vinnustaður landsins, þar verða til flest störf. Lágt raforkuverð bætir samkeppnisstöðu íslensks útflutnings sem er að mörgu öðru leyti ansi skökk. Arðurinn er lágt orkuverð, áhættan er öðruvísi og einfaldari, snýst fyrst og fremst um að halda í núverandi viðskiptavini eða fá nýja í þeirra stað.
Hvort vilt þú lesandi góður? Þú ert eigandinn."
Augljóst er að Sveinn Valfells velur sjálfur síðari kostinn, lágt raforkuverð fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi fremur en hærra raforkuverð hér innanlands og hugsanlegar arðgreiðslur frá Landsvirkjun. Rök hans þykja mér sannfærandi.
Því má svo bæta við að sala á rafmagni til útlanda í einhverjum mæli sem heitið getur, kallar á fleiri virkjanir sem óhjákvæmilega myndi hafa í för með sér að náttúruperlum yrði fórnað. Viljum við það? Ég svara því afdráttarlaust neitandi.