Fara í efni

RÁÐHERRAR UNDIR ÁHRIFUM?


Almennt er ég því hlynntur að fólk færi  hvert öðru  gjafir. Líka þegar í hlut eiga stofnanir og félagasamtök. Gjafir eru táknrænar um velvild og góðan hug. Einmitt vegna þess hve táknrænar gjafir eru , skiptir máli hvernig að þeim er staðið og hver skilaboðin eru. Sumir eiga hins vegar ekki að gefa sumum gjafir. Og sumir eiga ekki heldur að þiggja gjafir af sumum. Gjafir Landsbankans til ríkisstjórnarinnar hljóta í það minnsta að vekja spurningar.
Eins og fram hefur komið færði bankinn ráðherrunum  í ríkisstjórninni vínflösku að gjöf. Skál kæru vinir. Takk fyrir hið liðna. Væntum  áfram góðs samstarfs.
Ráðherrarnir hafa verið spurðir  álits á þessari gjöf Landsbankans til ríkisstjórnar Íslands.  Viðskiptaráðherra sagði gjöfina „óheppilega". Jóhanna  var ekki búin að „opna" en sagði að þetta hefði engin áhrif. Hefði kassi kannski verið áhrifameiri?
Ágætum vini mínum varð á orði að það væri skrýtin gjöf sem hefði engin áhrif á þiggjendur og skrýtnir þiggjendur sem yrðu ekki fyrir neinum áhrifum af gjöfum. Vont fyrir Björgólf og þau hin í stjórn Landsbankans ef áhrifin af gjöfinni verða engin, félagarnir tólf í Stjórnarráðinu, fá ekki einu sinni í tána, finna ekki á sér minnstu agnarögn. Synd og skömm.
Væri þá ekki nær að Landsbankinn prófaði að senda nokkra rauðvínskassa á mann um næstu jól? Skyldi einhver ráðherranna þá finna fyrir áhrifum og kannski sjá ástæðu til að endursenda gjöfina? Ef áhrifin létu á sér standa, mætti prófa að senda ávísun. Um hvað snýst þetta mál annars? Dómgreind og dómgreindarleysi? Landsbankans eða ráðherranna?