RÆND ÆSKUNNI OG LÍFINU
Síðastliðinn miðvikudag voru tvö palestínsk ungmenni skotin til bana í Beit Liqya, bæ vestur af Ramallah. Jamal Jaber, 15 ára og Uday Mofeed, 14 ára, létust reyndar ekki samstundis. Þeim blæddi út á leiðinni á sjúkrahús. Sjúkrabíllinn tafðast nefnliega, eða öllu heldur var tafinn, við varðstöð á leið til spítalans. Upp í huga minn koma frásagnir af atburðum af þessu tagi sem ég heyrði þegar ég heimsótti Palestínu í upphafi árs. Ísraelskir hermenn við varðstöðvar og vegatálma láta sig engu máli skipta þótt í bílaröðinni sé sjúkrabíll með sjúkan mann eða særðan eða konu í barnsnauð á leið til sjúkrahúss. Hann er látinn bíða eins og aðrir bílar.
Frá því í september árið 2000 þegar síðasta ofbeldishrina hófst hafa 875 palestínsk börn og unglingar verið drepnir. 300 börn eru í fanglesi þar sem þau búa við illan kost.
Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum UNICEF árið 2003 lifa 93% þeirra barna, sem könnunin náði til, í stöðugum ótta við að á þau verði ráðist eða að eitthvað hræðilegt muni henda þau.
Börnin í Palestínu er rænd æskunni. Hennar fá þau ekki notið. Hersetan með vegatálmum, stöðugum lokunum á skólum og truflun kennslu veldur því einnig að börn og unglingar eru svipt möguleika til læra og menntast á borð við jafnaldra þeirra annars staðar. Hrikaleg er sú tilhugsun að óteljandi dæmi eru þess að ísraelskir hermenn komi inn í skóla Palestínumanna á herteknu svæðunum til "eftirlits" og noti þá tækifærið og eyðileggi tölvukost skólans. Það virðist vera yfirveguð stefna af hálfu Ísraela að sjá til þess að á herteknu svæðunum vaxi ekki úr grasi ný kynslóð menntamanna.
Unglingarnir sem drepnir voru í vikunni voru að mótmæla smíði aðskilnaðarmúrsins sem er að rísa skammt frá heimilum þeirra.