Fara í efni

RÆTT UM STRÍÐ OG FRIÐ Í BERLÍN

ogmundur lubl
ogmundur lubl


Eins og fram hefur komið hér á síðunni oftar en einu sinni hef ég tengt mig samtökum sem nefnast Institute of Cultural Diplomacy, skammstafað ICD. Þetta eru samtök sem vilja stuðla að friðsamlegri sambúð í heiminum og beita menningu og menningarmiðlum í þá veru.
Hinn 19. og 20. desember sl. sat ég árlega höfuðráðstefnu samtakanna í Berlín. Þar var samankomið fólk úr heimi stjórnmálanna, vísinda og lista og söng þar hver með sínu nefi en allir vildu þó færa fram hugmyndir um hvernig stuðla mætti að friði í heiminum.

List í þágu friðar

Margt var sagt af viti og til umhugsunar. Listakona sagði frá listsköpun sinni sem hún kvað eiga að þjóna friðarboðskapnum. „List er ekki bara til að gleðja okkur eða skemmta okkur," sagði hún, „mína list hugsa ég sem ferli sem vekur til umhugsunar bæði þegar hún er sköpuð og þegar hennar er notið." Svolítið í anda einhvers konar blöndu af sósíalrealisma og nytjahyggju.

Flóttamaðurinn í sögulegu samhengi

Erna Hennicot-Schoepges fyrrum áhrifakona í stjórnmálum í heimalandi sínu, Lúxemborg og tónlistarkona með ágætum, flutti vekjandi erindi og kom víða við. Á nokkrum mínútum fór hún í gegnum sögu mannskepnunnar, hómó sapiens, frá upphafi vega og til þessa dags: Í upphafi vorum við flökkukind, færðum okkur úr stað ef fæðuna þraut og landið varð þar með óbyggilegt. Síðan fengum við verkfæri til að yrkja jörðina og draga fisk á land. Þá gátum við farið að láta lengur fyrir berast á sama stað. Á þessa leið mælti ræðukonan. Allt í einu fannst mér hlutskipti flóttamanna taka á sig þessa gamalkunnu mynd. Ósköp einföld sannindi sem þó þarf að segja til að jarða fordóma.

Áhrifamáttur hugmyndanna

Sjálfur flutti ég erindi á ráðstefnunni undir titlinum: The force of ideas: Examples to be learned from. Ekki get ég birt erindið því það var flutt af munni fram. Á innihaldinu hef ég of tæpt í ræðu og riti. Ég minnti á að þótt heiminum væri fyrst og fremst stýrt af hagsmunum skipti hið huglæga einnig máli og vísaði ég í orð suður-afríska baráttumannsins, Essa Moosa, sem sagði í mín eyru að mesta hindrunin sem baráttumenn gegn aphartheidstefnunni hafi átt við að stríða hafi einmitt verið huglæg, sú trú að apartheidkerfið væri ósigrandi. Herhvötin: Frelsi á okkar dögum, freedom in our lifetime, hafi lengi vel ekki þótt raunhæf og trúverðug en um leið og menn hins vegar byrjuðu að trúa á hana, ekki bara hinir svörtu heldur hinir hvítu líka, þá hafi farið að hrikta í stoðum kerfisins.

Áróðursmeistarar peningafrjálshyggjunnar

Ég talaði um þá skoðun mína að stjórnmálabarátta snerist um hvernig samfélagið hugsaði og fór orðum um breyttan tíðaranda frá því fyrir þremur til fjórum áratugum, áður en nýfrjálshyggjan hóf innreið sína. Þjóðfélagið hefði uppúr miðri öldinni sem leið, aldrei látið stjórnmálamenn komast upp með þá eyðileggingu sem þeir hefðu unnið á innviðum samfélagsins í seinni tíð. Það væri flókið mál að skýra áhrifavaldana fyrir þessum breytingum á tíðarandanum en hugmyndabarátta hefði þar vissulega skipt máli. Tók ég dæmi þar að lútandi af markvissu starfi áróðursmeistara peningafrjálshyggjunnar.

ICAN og Nóbelsverðlaunin

Síðan tók ég dæmi af baráttu sem mér hefði hugnast betur, baráttu nýbakaðra friðarverðlaunahafa Nóbels, ICAN, International Campaign to Abolish Nuclear Weapons. Einnig hún hefði borið árangur og ekki lítinn þótt sjálft smiðshöggið væri eftir.
Ég minnti á mikilvægi baráttunnar gegn kjarnorkuvopnum, sem ætti að vera öllum augljós nú. Greinilegt væri að kjarnorkuárásin á Hiroshima og Nagasaki sem drap fjórðung úr milljón manna - hefði ekki reynst ráðamönnum samtímans næg lexía. Nú væri í alvöru talað um að beita kjarnorkuvopnum. Hið mótsagnakennda væri að sjálfsögðu það að tilvist þeirra væri hugsuð sem ógn en til að ógnin hefði fælingarmátt yrðu menn að trúa því að alvara væri að baki hótuninni um að beita þessum vopnum.
ICAN hefðu hafið sína baráttu fyrir um áratug og væru aðildarsamtökin nú tæplega fimm hundruð í rúmlega eitt hundrað löndum. 7. júlí síðatliðinn hefðu 122 af 193 ríkjum Sameinuðu þjóðanna verið búin að undirrita skuldbindingu um bann við kjarnorkuvopnum. Eftir stæðu þá 71 ríki, 29 aðildarríki NATO og að sjálfsögðu ríkin 9 sem búa yfir kjarnorkuvopnum og vilja fyrir engan mun missa þau.

Barátta gegn jarðsprengjum líka verðlaunuð og ...

Þessi barátta skiptir engu máli nema kjarnorkuveldin skuldbindi sig til að losa sig við vopnin, verður án efa sagt, var haft eftir Jody Williams, helsta frumkvöðli að baráttu Samtaka gegn jarðsprengjum, International Campaign to Ban Landmines þegar skýrt var frá því að ICAN yrðu veitt friðarverðlaunin. Jody Williams bætt því svo við að þetta hefði líka verið sagt um baráttu ICBL, þegar henni og ICBL samtökunum hafi verið veitt Nóbelsverðlaunin árið 1997. Staðreyndin væri hins vegar sú að þau hefðu skilað árangri. 163 ríki hafi nú undirritað skuldbindingu í þessa veru og starfi samtökin nú í yfir eitt hundrað löndum og fylgdust með framkvæmd samningsins.

... skilar árangri

Í ræðu minni nefndi ég einnig baráttuna gegn klasasprengjum, en hún hófst 2008. Þegar hafi 108 ríki undirritað skuldbindingu um að framleiða ekki eða nýta sér þessi vopn á nokkurn hátt. Fram hafi komið svo jákvætt dæmi sé nefnt, að ýmis þeirra ríkja, þar á meðal Bandaríkin, sem ættu ekki aðild að samkomulaginu, virtu það í reynd. Þannig hefði framleiðslu þessarar tegundar vopna algerlega verið hætt í Bandaríkjunum. Þetta er árangurinn sem Jody Williams vísar til í starfi allra þessara samtaka.
Það er þetta sem ávinnst, sögðu fulltrúar ICAN okkur einnig á fundi í Reykjavík fyrir skömmu. Með baráttunni væri skapaður vettvangur fyrir umræðu og í framhaldinu risi siðferðileg krafa á hendur framleiðendum sem síðan mætti fylgja eftir með efnahagslegum þrýstingi til dæmis með því að hvetja almenning og fyrirtæki að skipta ekki við þá aðila sem kæmu nálægt hinum forboðnu vopnum. Þarna kæmi grasrótin til sögunnar með skipulegu aðhaldi og eftirliti frá degi til dags.  

Ekki færri samfélagsrýna en fuglaskoðara!

Og auðvitað er það þetta aðhald sem skiptir sköpum. Vitnaði ég í því sambandi í neytendafrömuðinn Ralph Nader sem minnt hefði á að í Bandaríkjunum væru 3 milljónir fuglaskoðara. Ekki færri þurftu að fylgjast með stjórnmálamönnunum og þá ekki síður fjármálasamsteypunum. Eftirlitið skipti öllu máli sagði Nader í fyrirlestri sem ég var viðstaddur í Berkeley í Kaliforníu sumarið 2014.

Stein Ringen vitnar í Kant

Þetta varð mér svo tilefni til að vísa í norska félagsfræðinginn Stein Ringen (nú prófessor í Oxford), sem héldi því fram að á undangengnum öldum hefði það ekki gerst að tvær lýðræðisþjóðir færu með stríð á hendur hvor annarri. Lýðræðisríki hefði hins vegar átt í stríði við ríki sem ekki byggju við slíkt stjórnarfar. Rakti Stein Ringen þennan friðarþráð til þýska heimspekingsins Immanuels Kants og ritgerðar hans frá 1795, um stöðugan frið, Ewigen Frieden. Kant hefði fært rök fyrir því að ríki sem byggju við aðhald innan frá væru ólíklegri en önnur ríki að beita vopnavaldi. Því meira lýðræði, þeim mun friðsælli heimur, klykkir Stein Ringen út með.

Gegn aftöku með drápsdrónum

Ég spáði því í tali mínu  að næsta barátta myndi snúast um dráps- dróna. Öll hefðum við viðbjóð á aftökum í Saudi Arabíu, Kína og víðar. En hvers vegna umbærum við yfirvegaðar aftökur með drónum; aftökum stýrt úr fjálægð, iðulega frá fínum skrifstofum, gott ef ekki sjálfri forsetaskrifstofunni  í Washington. Ég leyfði mér að spá því að innan áratugar yrði baráttan gegn drápsdrónum komin vel á veg, kannski þegar búin að hreppa friðar-Nóbelinn!

Me-too

Að lokum staðnæmdist ég við me-too bylgjuna og hvernig hún væri að hafa djúpstæð áhrif á samskiptamynstur kynjanna, ekki aðeins með því að uppræta ofbeldi karla gagnvart konum heldur með því að innræta þeim ný viðhorf og gildismat. Þetta væri áþreifanlegt dæmi um áhrif hugmynda og baráttu fyrir breyttu gildismati, nýjum menningarheimi.

Rétt hjá Robbie Williams!

Ég lauk máli mínu með tilvitnun í bandaríska leikarann Robbie Williams en eftir honum er haft: „Hvað sem fólk reynir að telja ykkur trú um, þá geta orð og hugmyndir breytt heimnum."
Í ræðu minni sagði ég sitthvað fleira en þetta hafði ég punktað niður mér til minnis - sem stikkorð - og birti hér í þessum minningasarpi mínum, ogmundur.is.