Fara í efni

RAFMAGNIÐ RÆTT Í ÞJÓÐARÖRYGGISRÁÐI


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.01.20.
Einhvern tímann las ég athyglisverða frásögn um rafmagnsleysi í New York. Blaðamaður kortlagði daginn hjá íbúa á efstu hæð í skýjakljúfi.
Þegar hann yfirleitt komst út af heimili sínu mátti hann þakka fyrir að komast aftur til síns heima í lyftulausu háhýsinu. Allir þeir sem áttu við einhverja kvilla að stríða voru hins vegar innilokaðir.

En heim kominn, við illan leik eftir stigana, tók ekki betra við. Þegar átti að nærast kom í ljós að maturinn var að uppistöðu til niðursoðinn dósamatur, dósaopnarinn rafknúinn og eldavélin að sjálfsögðu einnig.

Erum við þá ekki farin að minnast á vandræðin sem urðu á sjúkrahúsinu, í lestunum og yfirleitt í samgöngukerfinu þegar þar slokknaði á öllu. Hvergi grænt ljós í rafmagnsleysi. Það segir sig sjálft.

Það er ekki að undra að menn vilji telja raforkuna til innviða í samfélaginu – bresti þeir innviðir brotnar margt sem á þeim hvílir.

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, lengi vel lykilmaður hjá Landsvirkjun, skrifaði góða grein í Morgunblaðið nú rétt fyrir hátíðir. “Eftir storminn” hét hún.
Elías ber saman Ísland fyrr og nú. Hve mjög við erum orðin háð raforkunni borið saman við aðstæður fyrir hálfri öld eða svo. Hann ber líka saman raforkukerfi á harðbýlu Íslandi og síðan í Evrópu yfirleitt: “Þessi munur á því að rafvæða Ísland og Evrópu var að koma betur og betur í ljós á síðari hluta aldarinnar sem leið og stjórnmálamenn fylgdust vel með og voru með í ráðum þegar þurfti. Þar varð breyting á með nýjum raforkulögum 2003, þegar innleidd voru lög ESB um markaðsvæðingu raforkunnar. Þar með höfðu stjórnmálamenn minni möguleika á að fylgjast með og þeim virðist ranglega hafa verið talin trú um að markaðurinn mundi sjá fyrir nægu öryggi. Þeir sofnuðu á verðinum. Eitthvað hafa þeir rumskað við veðrið nú …”

Á undanförnum árum hefur almenningur fylgst með því hvernig smám saman er verið að búta raforkukerfið niður í samkeppnishæfar einingar. Þetta sjáum við öll á rafmagnsreikningunum okkar sem nú koma frá aðskiljanlegum þáttum framleiðslu, dreifingu og smásölu á raforkunni en samanlagt hefur kostnaður neytandans hækkað jafnt og þétt.

Því er haldið að okkur að allt sé þetta gert í þágu neytendaverndar og gagnsæis. Þetta eigum við hins vegar mörg erfitt með að skilja og í þessu efni talar Þórarinn Eldjárn, ljóðskáld, alla vega fyrir mig þegar hann yrkir um hin gagnsæju ferli:

Mér barst um gagnsætt ferli fregn,
fannst þó vandinn meðða
að það var alveg glært í gegn,
ég gat því ekki séðða.

Opinskátt er nú talað um frekara niðurrif raforkukerfisins að kröfu fjárfesta sem flögra jafnan yfir þegar þeir skynja sláturtíð í vændum. Hver lái þeim, því nú vita þeir að lögin eru þeirra megin og þar standa stjórnvöldin einnig. Með samþykkt orkustefnu Evrópusambandsins síðastliðið haust ákvað meirihluti Alþingis að takmarka enn beina aðkomu lýðræðisins að raforkugeiranum.

En hvað er þá til ráða eftir storminn?
Svarið er komið. Ríkisstjórnin ætlar að taka málið föstum tökum í Þjóðaröryggisráðinu!
Til að vinda ofan af markaðsvæðingunni? Nei, aldeilis ekki. Það á að ræða leiðir til að ná í hluta af væntanlegum arði af markaðsvæddri raforkunni til samfélagsins svo styrkja megi innviðina.
Svona getur kapítalisminn leikið fólk. Líka eina ríkisstjórn, sem nú hefur tamið sér aðferðafræði og tungutak hans í einu og öllu.

En þar sem vikið var að rafmagnsleysi í New York má gjarnan geta þess að í fáum iðnvæddum ríkjum heims eru innviðir samfélagsins jafn veikburða og í Bandaríkjunum. Hvers vegna skyldi rafmagnsleysi nánast verða viðvarandi jafnvel á þéttbýlum svæðum þar þegar veður gerast válynd? Gæti skýringin verið sú að fjárfestar sem eiga raforkufyrirtækin tími ekki að verða af arði til þess að treysta innviðina?

Ég hef grun um að erfitt gæti reynst íslensku þjóðaröryggisráði að ná í arðinn í markaðsvæddu raforkukerfi.
En þá þarf að spyrja hvers vegna við eigum þetta ekki bara sjálf og skipuleggjum framleiðslu og dreifingu á rafmagni í þágu samfélagsins og látum allt tal um arðsemi og gróða lönd og leið?