Fara í efni

RAGNHILDAR G. GUÐMUNDSDÓTTUR MINNST

Í gær fór fram útför Ragnhildar G. Guðmundsdóttur, samstarfskonu og vinar frá því á BSRB árum okkar beggja. Ragnhildur var fædd í desember árið 1933 og var því á nítugasta og öðru ári þegar hún lést. Fjöldi minningargreina birtust í Morgunblaðinu í gær og í dag, þar á meðal eftirfarandi grein þar sem ég minnist Ragnhildar:   

Ragnhildur Guðmundsdóttir varð aldrei gömul. Í árum talið kannski, en andinn var ungur og síkvikur. Þetta er einkennandi fyrir þá sem horfa á tilveruna björtum augum. Og það gerði Ragnhildur.

Ég heimsótti hana stundum í Skógarbæ þar sem hún bjó sín síðustu ár. Þar væri frábært að vera, sagði hún, yndislegt starfsfólk og heimilisfólkið hvert öðru betra. Þetta væri náttúrlega orðið aldrað fólk, það er að segja öll hin.

Svona var Ragnhildur, hún vildi líf og fjör í kringum sig og sjálf lét hún ekki sitt eftir liggja, lagði jafnan inn góða stemningu.

Um árabil vorum við Ragnhildur Guðmundsdóttir eins nánir samstarfsmenn og hugsast getur, annað formaður og hitt varaformaður BSRB. Traust okkar í milli var fullkomið og um allt sem máli skipti vorum við sammála.

Ég minnist þess ekki að nokkurn tímann hafi borið skugga á samstarf okkar og oft hugsaði ég hve gott það væri að vera í sama liði og hún.

Og nú þegar ég horfi yfir farinn veg hugleiði ég hvað það var sem mér þótti mest um vert í fari Ragnhildar sem félaga í baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks og gegn ásókn peningaafla í innviði samfélagsins. Það var óttaleysið, hve óbangin hún var.

Þingeysk mikilmennska hefur eflaust haft sitt að segja, upp til hópa þótti fólkinu af Sléttunni engin sérstök ástæða til að biðjast afsökunar á sjálfu sér, sem var náttúrlega hárrétt mat. Hverjum þeim sem sat handan samningaborðsins gegnt Ragnhildi Guðmundsdóttur var tekið sem jafningja og aldrei meira en það.

Hún hafði óbilandi trú á því að öllum bæri réttmætur skerfur af þjóðarverðmætunum og ekki agnarögn minna. Og þegar einkavæðingarsinnar vildu hafa sitt fram þá var henni að mæta.

Íslensk menning var Ragnhildi hugleikin, vildi hlúa að tungunni og hafði stundum af því áhyggjur að þar væru menn að gefa um of eftir. Þetta væri eins og með allt annað í lífinu, að það sem ekki væri lögð rækt við, visnaði. Að sama skapi blómstraði garðurinn sem við nærðum og ræktuðum.

Ein spakmæli koma mér jafnan i hug þegar Ragnhildar Guðmundsdóttur er getið og það vegna þess að þau eru hennar. Þegar haft var á orði að þetta eða hitt væri að gerast, til góðs eða ills, þá andmælti hún jafnan og sagði að það mættu menn vita að ekkert gerðist af sjálfu sér: ”Það eru nefnilega alltaf gerendur”.

Þetta eru orð að sönnu, alltaf eru gerendur. Þetta eru sannindi sem láta ekki mikið yfir sér en eru þeim mun mikilvægari og í rauninni mjög róttæk. Þau minna okkur á að ef við viljum breytingar þá verðum við að hætta að horfa á lífið úr áhorfendastúkunni og vinda okkur í slaginn. Væri þróunin að taka ranga stefnu að okkar mati, væri það ekki samkvæmt einhverjum lögmálum heldur vegna þess að gerendur væru þar að verki. Okkar væri þá að taka á móti eða gerast brautryðjendur, vildum við stefna í aðra átt.

Ég kveð mína góðu vinkonu með eftirsjá. Við Vala færum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

----------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.

Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/