RANGFÆRSLUR FORSÆTISRÁÐHERRA
Geir H. Haarde vék nokkrum orðum að Vinstrihreyfingunni grænu framboði á Alþingi í gær. Ég hafði beint þeirri spurningu til hans hvort leitað yrði eftir þverpólitískri aðkomu að smíði nýs lagaramma um fjármálakerfi framtíðarinnar. Forsætisráherra gaf lítið út á það að öðru leyti en því „að góð ráð úr ranni Vinstri grænna verða ekki síður vel metin en annarra í þessum efnum." Staðreyndin er sú að ráð okkar í þessum efnum hafa ekki verið „vel metin" hingað til og því miður ástæða til að hafa efasemdir um framhaldið í ljósi vinnubragða ríkisstjórnarinnar.
Tillögur VG hefðu sparað hundruð milljarða!
Hvað tillögur okkar fram til þessa áhrærir nefni ég sem augljósasta dæmið frumvörp um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingasjóða, sem komið hefðu í veg fyrir Icesafe hneykslið. Ef þessi lagabreyting hefði verið samþykkt hefðu verið líkur á að þjóðinni hefðu sparast hundruð milljarðar! Icesafe reikningarnir gengu nefnilega út á að fá til ráðstöfunar sparifé til að fóðra óseðjandi fjárfestingarófreskju sem átti líf sitt undir því að fá stöðugt fjármagnsstreymi til að viðhalda sér.
Á þetta benti ég á Alþingi í gær.
Geir fer með staðlausa stafi
Geir H. Haade brást þá við á eftirfarandi hátt: „Ef það yrði skoðað hvernig lög um regluverk á fjármálamarkaðnum hefðu verið afgreidd á Alþingi á undanförnum árum allt frá því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu kæmi í ljós að flestöll lagafrumvörp um þetta efni hafa verið samþykkt samhljóða út úr þinginu, að hvorki Vinstri grænir, forverar þeirra né aðrir stjórnmálaflokkar hafi gert veigamiklar athugasemdir við það regluverk. „
Tillögur VG hunsaðar - á kostnað skattborgarans
Þetta er grófur útúrsnúningur. Tillögur VG um strangara relgugerðarverk og lagaramma til varnar almenningi hafa verið hunsaðar um árabil. Nú hefur komið á daginn að þetta hefur verið gert á kostnað skattborgarans. Áhugafólki um sannleikann vísa ég á umræður á Alþingi um einkavæðingu bankanna og á hvern hátt VG varaði við þeirri hættu sem óhjákvæmilega yrði þegar sömu aðliar og ættu þegar helstu atvinnufyrirtækin næðu eignarhaldi á bankakerfinu. Þegar síðan í ofanálag saman færi fjárfestingastarfsemi og viðskiptastarfsemi þá kynni það ekki góðri lukku að stríða. Gegn þessu börðumst við af alefli!
...og svo voru það Seðlabankalögin
Læt ég þá ótalin varnaðarorð sem fyrr á tíð voru höfðu um reglugerðarverkið um „óhefta fjármagnsflutninga" í aðkomunni að EES. Vil ég einnig nefna gagnrýni mína á lög um Seðlabanka Íslands - nokkuð sem flestir taka nú undir.
Orð forsætisráðherra eru því grófur útúrsnúningur.