Fara í efni

RAUÐIR LÓFAR Í STRASBOURG

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Helgarblaði Morgunblaðsins 30.06.13.
Mannréttindi eru þungamiðjan í starfi Evrópuráðsins í Strasbourg.  Ég efast um að í heiminum  sé starfandi fjölþjóðlegt þing  þar sem fram fer jafn umfagsmikil umræða um mannréttindi eins og þing Evrópuráðsins en þar hef ég setið fundi undangengna viku.
           
Mikil umræða  fór m.a. fram um mótmælin í Tyrklandi og hvernig stjórnvöld taka á þeim, réttarhöld yfir stjórnmálamönnum, mannréttindi og heilbrigðisþjónustu og internetið og misnotkun á því og tók ég sjálfur þátt í þeirri umræðu. Ég hef um nokkurt skeið fylgst með starfi Evrópuráðsins til verndar börnum en vitundarvakningin um kynferðisofbeldi gegn börnum sem efnt var til á vegum íslenskra stjórnvalda á að nokkru leyti rót að rekja til frumkvæðis Evrópuráðsins. Ég vék að þessu starfi og hve mikilvægt það er að meta að verðleikum gott starf Evrópuráðsins á þessu sviði.
           
Fjölmargt annað mætti nefna en tilfinningaþrungnasta umræðan var án efa tillaga til stuðnings mannréttindum samkynhneigðra og transfólks en tilefnið var m.a. lagabreytingar í Rússlandi og víðar. Í atkvæðagreiðslunni þurfti  aukinn meirihluta - þrjá fjórðu - og var stundum naumt á munum þótt tillagan væri að lokum samþykkt. Stuðningsmenn tillögunnar sögðu að hér sem annars staðar væru fáir andstæðingar mannréttinda samkynhneigðra og transfólks sem kæmu út úr skápnum með fordóma sína í umræðunni en í atkvæðagreiðslunni birtust  fordómarnir hins vegar skýrt.
           
Fyrir andstæðingum tillögunnar fór ítalskur þingmaður og rússneskir en mikill fjölda þingfulltrúa frá mörgum löndum hafði sig í frammi tillögunni til stuðnings. Sænskur maður skýrði  frá þeim hremmingum sem hann gekk í gegnum þegar hann gerði umhverfi  sínu heyrinkunnugt um samkynhneigð sína. Annar þingfulltrúi, kona, svaraði vangaveltum sem fram höfðu komið um að transfólk væri varasamt og væri ógnun við umhverfi sitt.  Hún sagðist vilja svara þessu með skírskotun til eigin lífs. „Ég er orðin harðfullorðin kona, með mikla lífsreynslu að baki. Aldrei í lífinu hef ég orðið fyrir nokkurs konar ógn vegna tilveru transfólks. Það sem meira er, aldrei hef ég kynnst nokkrum  einasta einstaklingi, ungum eða öldnum, sem stafar ógn af lífi transfólks." Sjálf væri hún gagnkynhneigð kona og nú vildi hún trúa þinginu fyrir því að hún þekkti af eigin raun áreitni og ógn af hálfu gagnkynhneigðra karla og öll vissum við hve óhugnanlega algengt kynferðisofbeldi af hálfu karla væri. „Það þýðir ekki að ég vilji skerða mannréttindi allra karla. Ég vil refsa þeim sem fremja ofbeldisverk en ekki hinum. Nú liggja fyrir breytingartillögur sem ganga út frá því að transfólk og jafnvel samkynhneigðir séu einsleitur hópur en ekki einstaklingar með sín einkenni og sín mannréttindi sem slíkir, eintaklingar eins og við öll."

Klappað var í þingsalnum eftir þessa ræðu og fleiri af þessu tagi. Sjálfur varð ég rauður í lófunum.