Rekunum kastað
Ég er sammála Jóni Bisnes um það að nú sé kominn tími til að þjóðin moki yfir minn gamla flokk, Framsóknarflokkinn. Hins vegar sætti ég mig alls ekki við að Jón þessi sýni ítrekað af sér það óþokkabragð í hnoði sínu að ganga í smiðju annarra. Eftirfarandi náttúrustemmu fékk ég birta í tímaritinu Freyfaxa árið 1951:
Í hólminum fagra ég heillaður sá,
þar sem hetjan forðum lét aftur snúið,
í tunglskini fugla, fífur og strá
og fagurt himinhvel gimsteinum búið.
Og kemur nú kviðlingur Jóns til samanburðar:
Nú er landstólpi fallinn í dauðadá
og dóminn hinsta fær enginn flúið.
Hann er nú sem lítill steinn eða strá,
stríðið er tapað og senn er það búið.
Ekki fer framhjá neinum að Jón hefur haft mína hugljúfu stemmu til hliðsjónar hnoði sínu. Ég skora á hann að leggja eigin grundvöll að kveðskap sínum í framtíðinni í stað þess að níðast á annarra manna verkum.
Ormur á Kögunarhóli.