RÉTTARBÓT FYRIR FATLAÐA?
Sæll Ögmundur, Þakka þér ötula árvekni við að gæta hagsmuna okkar og réttar, ekki síst í Icesave málinu og á ný í dæmalausu Nupo máli.
Ég var að lesa grein þína í Fréttablaðinu þann 30/7, þar sem þú lofar breytingum á kosningalögum hið fyrsta. Er sjálfgefið að um réttarbót fyrir alla með fötlun sé að ræða? Mig langar til að koma að og ítreka eftirfarandi sjónarmið sem lítið hefur borið á í umræðunni.
Fólk með fötlun býr við misjafnar aðstæður og er sá hópur í þjóðfélaginu sem mest er uppá aðra kominn með þjónustu í daglegu lífi. Fólk með fötlun er þannig háðara öðrum og varnarlausara fyrir ofríki en annað fólk. Ef þeim er gefinn sá „réttur" að velja og mæta með aðstoðarmann í kjörklefa, er ekki líklegt að sumum finnist þeir ekki geta hafnað „aðstoð" þeirra sem hafa stöðu til að þvinga sinni skoðun? Slík þvingun þarf ekki að vera raunveruleg, heldur tilkomin sem eðlileg meðvirkni einstaklings með þeim sem hann er háður. Ofnagreint á kannski ekki við í 99% tilvika en eitt prósent eða einn kjósandi er nóg til að vekja spurningar. Inni í kjörklefa hefur kjörstjórn engin tök á að fylgjast með að vilji einstaklings með fötlun en ekki hjálparmanns ráði vali.
Var þetta ekki einmitt vel ígrundað þegar núverandi fyrirkomulag var ákveðið. Það sem er réttur eins getur verið böl annars. Öll þau sömu rök þykja mæla gegn því að kjósa gegnum tölvu í heimahúsi eða í hraðbanka. Því hver getur tryggt að ekki sé annar aðili sem í raun ræður þar vali? Í dag getur kjósandi með fötlun valið aðstoð eins af þremur sér ókunnra einstaklinga í kjörstjórn, sem ber skylda að gæta réttar hans. Ef hann er óánægður með aðstoðina getur hann, án frekari rökstuðnings né eftirmála, mótmælt við kjörstjórn kjördeildar sem þá ógildir atkvæðið og kallar til hverfiskjörstjórn. Kosning er þá endurtekin með öðrum til aðstoðar að vali hins fatlaða. Hvorugt kerfið er fullkomið en hvort kerfið tryggir betur stjórnarskrárbundinn rétt kjósanda með fötlun til frjálsra og leynilegra kosninga?
Er víst að fyrirhuguð breyting standist stjórnarskrá? Ef hæstiréttur metur að svo sé, er þá ekki fátt í vegi mun umfangsmeiri og vafasamari breytinga á framkvæmd kosninga. Nú segir þú í grein þinni að þessar breytingar séu í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna við fatlaða og sænsk og dönsk kosningalög. Það hef ég engar forsendur til að efa. Ég vil samt spyrja og mér finnst svarið, óháð öðru, þarfnast ígrundunar og rökstuðnings sem ég hef ekki séð stað í umræðunni. Hefur þú svar? Með kærri kveðju.
Gylfi Aðalsteinsson
Þakka þér bréf þitt sem er gott og umhugsunarvert. Rök þín eru rökin fyrir núverandi kerfi og eiga þau að sjálfsögðu sér skiljanlegar forsendur eins og þú bendir réttilega á. Mér finnst oft ágætt að spyrja hvernig maður vildi hafa þetta gagnvart sjálfum sér. Ef ég gæti ekki kosið sjálfur vildi ég hafa val um það hver aðstoðaði mig, kjörnefndarfulltrúi eða einstaklingur að mínu vali.
Síðan má ekki gleyma því að kjörnefndarfólk eru einstaklingar af holdi og blóði sem við þekkjum eða þekkja okkur eftir atvikum. Mér finnst að valið hljóti að eiga vera hjá hinum fatlaða og grundvallarforsenda að mínu mati að hinn fatlaði óski sjálfur eftir því hvaða hátt hann vill hafa á.
En ég ítreka þakkir fyrir mjög þarfar vangaveltur.
Kv.,
Ögmundur