RÉTTARRÍKI?
Sæll Ögmundur.
Mig langar til að deila örlítilli reynslu: Eg hefi ætíð verið talinn varkár í fjármálum, kannski stundum of varkár og þó ekki. Eg var eins og svo margar þúsundir Íslendinga sem treystu stjórnvöldum að þau væru að gera rétt og bönkunum. Ég lagði fyrir sparnað minn, var skuldlaus með öllu um aldamótin. Sparnaðurinn sem lagður var til hliðar var lagður í hlutabréfakaup í ýmsum fyrirtækjum, bönkum, Jarðborunum og HBGranda. Allt er farið fjandans til vegna óskiljanlegrar léttúðar nema sístasttalda fyrirtækið sem blívur.
Því miður var því fólki sem á sínum tíma stýrði samfélaginu, bönkunum og ýmsum fyrirtækjum ekki treystandi þegar allt fór í kalda kol. Sem fyrrverandi hluthafi í Kaupþing banka lýsti eg ásamt eldri syni mínum kröfu á hendur þrotabúinu með þeirri von að réttur okkar væri viðurkenndur. Eftir nær milljón króna fjárútlát vegna Kaupþings þá er það þrotabúið sem situr uppi með pálmann í höndunum með sigri í Hæstarétti þann 9.10. s.l. Fyrir héraðsdómi var óskað eftir frestun máls þar eð að varnaraðili (Kaupþing) hafi stundað markaðsmisnotkun sem leitt hafi til tjóns fyrir hluthafa. Úrslit málsins muni að verulegu leyti ráðast af því hvort markaðsmisnotkun teljist sönnuð í sakamáli gegn stjórnendum bankans. Var fallist á sjónarmið okkar og úrskurðað að málinu yrði frestað uns sakamál á hendur Sigurði Einarssyni & Co væri til lyktar leitt. Í Hæstarétti var sú niðurstaða að snúa þessu við með þeim rökum og fullyrt: „Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi er ekki frekar en að framan getur leitast við að skýra út hvernig þau ætluðu brot, sem talin eru hafa verið drýgð í september 2008 samkvæmt áðurnefndri ákæru frá 16. febrúar 2012, geti leitt til þess að hann eigi skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila".
Svo virðist sem Rannsóknarskýrsla Alþingis í 9 bindum hafi farið fram hjá hæstaréttardómurunum þeim Eiríki Tómassyni, Ingibjörgu Benedikstdóttur og Markúsi Sigurbjörnssyni. Hér kemst Hæstiréttur að gjörólíkri niðurstöðu en fyrir rúmu hálfu ári í sambærilegu máli, þar sem einnig Kaupþing, hlutabréf og hrunið kemur við sögu. Þar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Mér hefur verið mjög umhugsað um hvort við lifum virkilega í réttarríki. Er einhver möguleiki á að braskarar sem hafa talið sig geta keypt allt sem hugur þeirra girnist, hvort sem eru bankar, flugfélög, skipafélög, jarðir, fyrirtæki og forréttingar, svo og einstaka stjórnmálamenn, jafnvel heilu stjórnmálaflokkana, hafi jafnvel náð hreðjartökum á sjálfum Hæstarétti? Hafa jafnvel hæstaréttardómarar verið keyptir til þess að fá þóknanlega niðurstöðu í málum þar sem miklu varðar?
Ljóst er að bæði þrotabú Íslandsbanka og Kaupþingbanka eru nú í eigu að mestu leyti erlendra vogunarsjóða. Þar verður litlu við ráðið. Eg vil ekki reiða hærra til höggs en efni og rök standa til. Mér hefur fundist einkennileg niðurstaða að sá sem hefur verið féflettur verði enn meir féflettur af þrotabúum þrjótanna. Þess má geta að lögmaður minn benti mér á að kynna mér skilmála heimilistrygginga. Í ljós kom að tryggingin nær til málaferla sem þessara en sjálfur ber eg 20% af kostnaðinum við að skemmta skrattanum ef svo má að orði komast. Ég get ekki orða bundist. Lifum við í réttarríki þar sem þeir minni máttar geta treyst því að hafa sama rétt og burgeisar og braskarar?
Góðar stundir og baráttukveðjur úr Mosfellsbæ.
Guðjón Jensson