Fara í efni

Rétturinn til náms og alls ekki jafnrétti til náms

Ögmundur sæll.
Ég á þess kost að gera upp við launanefnd sveitarfélaganna, eða sveitarstjórnarpólitíska forystu Kópavogs í næstu kosningum og þess vegna nenni ég ekki að fjalla um þanna þátt málsins, en mig langar að fjalla um aðrar hliðar kennaraverkfallsins. Verkfall er bæði launabarátta og félagsleg aflraunasýning og sem slíkt hefur það áhrif á kjör kennara og svo samskipti sveitarstjórna og forystumanna kennara nokkur misserin eftir að verkfallinu lýkur. Þetta eru meginlínurnar eða breiðu línurnar, en svo eru það daufu eða ógreinilegu línurnar, hín ósýnilegu áhrif verkfallsins. Vinkona mín er til dæmis einstæð með tvö börn og það stendur þannig á að hún er ein að basla með börn sín. Börnin eru í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla. Þau sjá um sig sjálf að hluta, vinkona mín er heima hjá sér að hluta og svo borgar hún námskeið og gæslu fyrir þau að hluta. Vinnutap, akstur og námskeiðsgjöld vinkonu minnar vegna barnanna í þrjár vikur eru um 27 þúsund krónur. Önnur vinkona mín er kennari. Hennar tap eftir þrjár vikur er rétt innan við 200 þúsund krónur. Vinkonur mínar búa í Kópavogi og eina áþreifanlega breytingin sem verkfallið hefur í för með sér er að útgjöld vegna fræðslumála á árinu 2004 verða að öllum líkindum minni en gert var ráð fyrir. Í þessu samhengi spyr ég um ábyrgð forystu kennara og sveitarstjórna. En svo eru það annars konar áhrif verkfallsins. Óáþreifanleg áhrif verkfallsins eru ómælanleg og alvarlegust, en það eru áhrifin á börnin sjálf. Í fyrsta lagi fá þau ekki lögboðna menntun, í öðru lagi missa þau álit á kennurunum sem eru einu sýnilegu leikendur verkfallsins í þeirra augum og í þriðja lagi missa börnin trú á næsta umhverfi sínu. Og hér spyr ég um áhrif ungu konunnar sem er eftirlætisleikfang glanstímaritanna en hún hefur nákvæmlega ekkert fram að færa í þessari deilu. Konan er titluð menntamálaráðherra. Hún hefur það hlutverk að tryggja börnum vinkonu minnar réttinn til náms sem felst í skólaskyldunni. Það þyrfti að minna hana á þetta eftir helgina Ögmundur á Alþingi ég er ekki viss um að þetta hafi verið kennt í lagadeildinni eða á námskeiðum Sjálfstæðisflokksins. Að lokum tvær spurningar Ögmundur í ljósi þess sem sagt er hér að ofan: Finnst þér rétt að kennarar hafi verkfallsrétt sem byggist á að börnin eru tekin sem gíslar? Finnst þér koma til greina að sveitarfélögin styrki skólarekstur á vegum foreldra eða fyrirtækja sem tækju að sér að tryggja það sem ríkisvaldið getur ekki gert – rétt barnanna til náms?
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Valkostirnir við verkfallsrétt kennara er samningsréttur án verkfallsréttar og síðan mætti hugsa sér einhvers konar kjaranefndarfyrirkomulag. Hvorugt fyrirkomulagið gengur upp að því er mér finnst og horfi ég þar til reynslu frá fyrri tíð. Þrátt fyrir allt er samningsréttur með verkfallsrétti heppilegasta fyrirkomulagið - að mínu mati.
Þegar yfir 90% stéttar (í atkvæðagreiðslu með yfir 90% þátttöku) tekur ákvörðun um að leggja niður vinnu þá segir það manni að öryggisventillinn hefur ekki lengur haldið. Ég er ekki þar með að segja að verkfallsvilji sé alltaf mælikvarði á réttlæti; að láglaunastéttir, sem ekki beita verkfallsvopni eigi ekki skilið karabætur, síður en svo. Ég er aðeins að segja að ef ekki væri verkfallsrétturinn myndu margir starfsmenn, í þessu tilviki kennarar, yfirgefa starfsstéttina og bæði stéttin og starfsemin veslast upp. Síðari spurningunni svara ég afdráttarlaust neitandi. Ég vil alls ekki sjá einkarekna grunnskóla. Og nú spyr ég þig á móti Ólína: Gætu fyrirtækjaskólarnir tryggt réttinn til skólavistar nema að starfsmenninrnir stæðu utan stéttarfélaga og hefðu ekki rétt til að leggja niður vinnu? Erum við ekki farin að nálgast sprengjusæðið sem sjómenn og útgerðarmenn eru að kljást á, erum við ekki farin að véfengja réttinn til kjarabaráttu á grundvelli samstöðu, ef við svöruðum síðari spurnigunni játandi?
Ögmundur