REYKJAVÍKURFLUGVÖLLUR - SAMKOMULAG UM AÐGERÐIR
Birtist í Morgunblaðinu 26.04.2013.
Reykjavíkurflugvöllur hefur þjónað innanlands- og millilandaflugi landsmanna í áratugi og gerir enn. Þar hefur grasrót flugsins átt heimili og þar hafa vaxið upp flugmenn og aðrir sérfræðingar í flugi okkar sem lagt hafa grunninn að atvinnugrein sem nær langt út fyrir landsteinana og skiptir þjóðarbúið verulegu máli.
Umræðan um Reykjavíkurflugvöll mörg síðustu ár hefur snúist um hvort hann verður rekinn áfram eða lagður niður. Meginsjónarmiðin eru annars vegar þau að breyta flugvallarlandinu í íbúðarhverfi og hins vegar að gera innanlandsfluginu kleift að eiga miðstöð sína þar áfram. Ekki þarf að minna á fundi, skoðanaskipti, kannanir, skýrslur og jafnvel samninga síðustu ára og má kannski með nokkurri einföldun segja að fylgjendur beggja ofangreindra sjónarmiða hafi með því öllu getað sýnt fram á fylgi við sinn málstað.
Aðgerðir í beggja þágu
Föstudaginn 19. apríl var undirritað samkomulag innanríkisráðuneytis og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli. Þetta samkomulag snýst um mjög ákveðnar aðgerðir af hálfu beggja aðila sem þjóna bæði sjónarmiðum ríkis og borgar: Annars vegar um að nýta flugvöllinn áfram og hins vegar um að reisa nýja byggð á hluta flugvallarlandsins sem borgin kaupir af ríkinu.
Varðandi þjónustu við flugfarþega og flugrekendur er megináfanginn að endurbæta aðstöðuna, að í stað núverandi flugstöðvar Flugfélags Íslands fái Isavia að reisa nýja stöð sem þjóna muni öllum sem stunda innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli. Önnur mikilvæg atriði varða flugöryggi og snúast um heimild til að setja niður aðflugsljós fyrir nákvæmnisblindaðflug úr vestri og að lækka gróður á tilteknu svæði í Öskjuhlíð sem truflað geta aðflug úr austri og raunar takmarka líka afkastagetu flugvéla í flugtaki til austurs. Til að þetta allt nái fram að ganga verður nýtt deiliskipulag auglýst er varða þessi atriði og það er eitt mikilvægasta atriði samkomulagsins. Slíkum áfanga hafa ríki og borg ekki náð fyrr í samskiptum sínum um notkun Reykjavíkurflugvallar.
Hitt mikilvæga atriðið í samkomulaginu er að samgönguyfirvöld láta af hendi landið þar sem norðaustur-suðvestur brautin liggur. Með því fær Reykjavíkurborg yfirráð yfir byggingarsvæði sem hún hefur lengi haft augastað á og hefur reyndar áður verið gefið vilyrði fyrir því. Þá verður hætt allri umferð herflugvéla og flugi í þágu hertengdrar starfsemi nema þegar völlurinn þjónar sem varaflugvöllur eða vegna öryggis- og björgunarstarfa.
Til að taka af allan vafa er áréttað í samkomulaginu að Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á flugvallarsvæðinu samkvæmt skipulagslögum og að innanríkisráðuneytið vinnur í samræmi við vilja Alþingis hvað varðar flugvöllinn eins og hann birtist í samgönguáætlun. Þar segir hvergi að flugvöllurinn skuli víkja enda er það mín sannfæring að í Vatnsmýri sé hann best kominn.
Óvissu eytt
Nýr tími fer í hönd hvað varðar flugvallarsvæðið og rekstur innanlandsflugs. Í áraraðir hefur ríkt óvissa um Reykjavíkurflugvöll og þeir sem stunda flugrekstur frá flugvellinum eða þjónustu þar hafa ekki getað skipulagt starfsemi sína neitt fram í tímann. Nú hefur stefnan verið mörkuð til næstu ára. Búið er að eyða öllum fyrirvörum og óvissu hvað varðar starfsemina á og við Reykjavíkurflugvöll. Hvað verður um flugvöllinn þegar horft er til langrar framtíðar er annað mál. Þar eru enn skiptar skoðanir sem áður segir. En hér hefur mikilvægum áfanga verið náð og því ber að fagna.